Mót við orðin ára

Góðir landsmenn.

Það er til siðs og raunar kemur það fram í siðareglum alþjóðlegu sáluhjálparsamtakanna blogg án landamæra, að engu ári geti og megi ljúka án þess að það sé gert með hugljúfri áramótahugvekju……..í tilefni áramóta. Það er tvennt í þessu dæmi sem kemur verulega á óvart. Annars vegar að bloggarar á borð við Einar Haf séu með siðareglur og hins vegar að hugvekjan sem nú er hafin eigi að vera hugljúf. Það vita þeir sem þekkja sorakjaftinn og landeyðuna Einar Haf að getur ekki staðist. Líkt og jafnan áður er efni og innihald hugvekjunnar ekkert annað en dulbúinn áróður, útúrsnúningar og dylgjur um menn, málefni og þá sem minnst mega sín – alveg eins og hjá forsætisráðherra, forseta og biskup. Guð minn góður. Það læra börnin sem fyrir þeim er haft – en það þarf reyndar oft að hafa mikið fyrir þeim.

Stóru landsmenn. Nú við áramót er við hæfi og raunar algjörlega bráðnauðsynlegt að líta til baka yfir farinn veg. Ég var staddur á veginum heim að húsi áðan og leit yfir farinn veg. Hluti af veginum er ekki bara farinn heldur alveg farinn, eftir að Jónki á Steypustöðinni mokaði vegkantinum burt með Payloader vinnuvél þegar hann hafði losað ruslabílinn úr krapasnjó fyrr í vetur. Undir krapasnjónum var þíð jörð og því lítil fyrirstaða fyrir stóra vinnuvél. Ég leit sem sagt ekki bara yfir farinn veg, ég leit líka yfir horfinn veg. Ef ég horfi fram á veginn sé ég ekkert nema holur og stórgrýti, þannig að það er margs að hlakka til. Enginn verður óbarinn biskup, tala nú ekki um ef hann er óvarinn. Þá er rétt að nefna að sjaldan er barinn biskup ómarinn.

Stæðilegu landsmenn. Það er ekki bara við hæfi að líta yfir farinn veg og horfinn veg. Það er líka við hæfi að líta í eigin barm. Vá, enginn smá barmur. Auðvitað getur það verið leiðinlegt að líta endalaust í eigin barm en þá er um að gera að líta í kringum sig. Einar, hver er annars þinn uppáhalds barmur? Ég held að það sé tvímælalaust barmur örvæntingar.

Slepjulegu landsmenn. Stór hluti landsmanna er af erlendu bergi brotinn og skilur því hugsanlega ekki það sem kemur fram í þessari áramótahugvekju. Það er þó huggun fyrir ykkur að jafnvel innfæddustu íslenskustu Íslendingarnir skilja áramótahugvekjuna ekki heldur. Sífellt fleiri flytja hingað til lands frá heimsins vígaslóð með búslóð í leit að húslóð og betra lífi, friði og ró. Verulega hefur reynt á margskonar innviði íslensks samfélags vegna þessa, innviði sem voru margir hverjir komnir að þolmörkum fyrir. Fyrir hvað? Ég veit það ekki. Hvað getum við gert í þessu? Auðvitað verðum við að taka vel á móti útlendingum sem vilja setjast hér að en auðvitað getum við ekki opnað dyrnar fyrir hverjum sem er en auðvitað þurfum við að geta hjálpað þeim sem þurfa hjálp en auðvitað þola innviðirnir ekki nema hluta þeirra fjölmörgu sem koma hingað en auðvitað þarf að kenna þessu fólki að lesa, skrifa og skilja íslensku en auðvitað er þessi setning orðin alltof löng, búin að tapa merkingu sinni og er málfræðilega kolröng. Bókvitið verður ekki í askana látið, sem stangast að vísu á við það sem kennarar hafa farið fram á í nýlegum kjaraviðræðum sínum.

Sjónvarpsglöðu landsmenn. Hér næst átti að sýna svipmyndir af innlendum vettvangi en vegna tæknibilunar reyndist það ekki unnt. Verða því sýndar svipmyndir af innlendum vettlingi í staðinn. Engar áhyggjur, skemmtanagildið er svipað.

Smeðjulegu landsmenn. Ísland er krúttlegasta, frábærasta, hreinasta, fegursta, strjálbýlasta, yfirdrifnasta, ósnortnasta og friðsælasta land í heimi. Á Íslandi er jafnframt að finna flest lýsingarorð í efsta stigi á byggðu bóli. Landið er fagurt og frítt, ríkt af hvers kyns auðlindum og stórbrotinni náttúrufegurð. Þetta eru staðreyndir sem ég hef litlu við að bæta en við sjáum mynd.

Stífpressuðu landsmenn. Hingað flykkjast útlendingar í tugþúsunda vís á hverju ári, til að virða fyrir sér þetta ótrúlega land og þessa ótrúlegu þjóð. Þjóð sem hefur þreyjað þorrann í þessu harðbýla landi, yst á norðurhjara fjarri hinni vestrænu siðmenningu. Þjóð sem hefur komist gegnum hverja pláguna, drepsóttina og hörmungina á fætur annarri án þess að láta beygja sig í duftið. Þjóð sem hefur þurft að bugta sig og beygja…ekki í duftið heldur fyrir erlendum valdherrum, konungum og kúgurum – en ávallt gert það með bros á vör og blik í auga. Þjóð sem hefur aðgang að lífsbjörgum eins og gjöfulum fiskimiðum, margskonar happdrættismiðum og öðrum miðum sem auðnast ekki öðrum þjóðum sem við miðum okkur við. Þjóð sem hefur með hugvitsemi og dirfsku skipað sér sess sem þjóð meðal þjóða, allavega ef horft er til meðalþjóða. Þjóð sem hefur mátt sitja undir stanslausum upptalningum og orðagjálfri misvitra bloggara og pistlahöfunda mun lengur en eðlilegt getur talist. Þjóð sem leggur sig fram um umhverfisvænan og kolefnishlutlausan lífstíl allt árið til þess eins að geta með góðri samvisku sett heimsmet í flugeldaskothríð, púðurkerlingaíkveikjum og svifryksmengun á gamlárskvöld með tilheyrandi skerðingu loftgæða, lasleika lungnasjúklinga og flóttatilraunum logandi hræddra gæludýra. Þjóð sem á fleiri orðatiltæki í máli sínu en hægt er að ímynda sér, sem sést ágætlega í þessari áramótahugvekju. Talandi um það, þá er rétt að minna á áramótatilboð kjötbúðarinnar sem gildir aðeins í dag, þar sem böggull fylgir hverju skammrifi.

Samanteknu landsmenn. Um leið og árans fjárans árið líður í aldanna skaut er rétt að minnast þess sem vel hefur gengið en einnig að harma það sem miður hefur farið, sem er jú alveg heill hellingur. Það gekk vel að kjósa forseta, sem gekk vel að kaupa bíl á hagstæðum kjörum. Það gekk vel að sprengja ríkisstjórnina, rjúfa þing og boða til kosninga. Það gekk vel að fylgja áhrifavöldum við að feta framabrautina og fá innblástur frá þeim við daglegt amstur. Það gekk vel að ná dýrmætum gjaldeyri af útlendingum með alls konar bellibrögðum á borð við eldgosaskoðanir, safnaskoðanir, norðurljósaskoðanir, hvalaskoðanir og allskonar aðrar vafasamar skoðanir. Það gekk vel að starfrækja undirmannaða bráðamóttöku Landsspítalans á yfirsnúningi enda með ólíkindum hvað hægt er að bjóða starfsfólki og sjúklingum upp á – og vel hægt að ganga enn lengra í þeim efnum. Það gekk vel að veiða hvel og sel að ég tel og drekka bjór í karlakór. Það gekk hins vegar illa að halda einbeitingu og þræðinum, sérstaklega á bloggsíðu Einars Haf – sem var afar sundurlaus lengst af á árinu. Fremur illa gekk við heyskap, heyöflun og bústörf almennt, nokkuð illa gekk hjá íslensku ólympíuförunum sem gerðu upp á bak í mörgum greinum og þá gekk afar illa að koma Nissan Qashquai árg. 2016 í gang þegar líða tók á árið, vegna útbrunninna glóðarkerta. Engin leið er að segja til um hvenær bíllinn fer í gang næst, hugsanlega ef og þegar vora tekur.

Skotglöðu landsmenn. Nú við áramót er ekki aðeins full ástæða til að harma hið liðna, það er líka full ástæða til að kvíða því sem framundan er. Angist af ýmsu tagi hjá tugum, hundruðum, þúsundum og milljónum manna sem þurfa að takast á við afleiðingar stríða, hungursneyða, óveðra og allra handa hörmunga. Alvarlegustu hörmungarnar eru sennilega síendurtekin skemmdarverk stríðsæstra og valdamikilla þjóða sem hafa meðal annars rofið sæstrengi hér og þar um heiminn. Viðbúið er að slíkt eigi sér stað hér á okkar slóðum með tilheyrandi netsambandsleysi og þar af leiðandi mun enginn komast á bloggsíðu Einars Haf. Þvílík hörmung. Frekari stríðsátök og hörmungar eru framundan eins og nú verður farið yfir í smáatriðum. Æi nei, ég ætla að sleppa því. Þetta átti að vera áramótahugvekja, ekki hrollvekja. Reynum að vera jákvæð því máninn hátt á himni skín. Bregðum blysum á loft og bleika lýsum grund. Glottir tungl? Já örugglega, vegna þess að það hrín við hrönn.

Smekkfullu landsmenn. Á hátíðarborðum landsmanna nú um áramót verður eflaust að finna ýmiskonar spennandi og framandi kræsingar. Innbakaðar nautasteikur, grænkeravænar hnetusteikur, gljáðir svínahryggir, grafnir laxar og fylltir kalkúnar. Nammi namm, ég hreinlega iða í smjörsprautuðu kalkúnaspikinu….nei ég meina skipinu…skinninu. Þrátt fyrir allt þetta freistandi og framandi gúmmelaði er það þó auðvitað sauðkindin sem trónir á toppnum eins og venjulega. Frá örófi alda hefur sauðkindin brauðfætt íslenska þjóð þar sem hryggir og lambalæri hafa prýtt ófá veisluborðin. Þá hefur sauðkindin einnig skemmt þjóðinni og verið dægrastytting. Hrúturinn Hreinn er gott dæmi um það. Nú um áramót er fimbulkuldi og þá mæli ég eindregið með hlýjum ullarfatnaði, í boði sauðkindarinnar og handprjónasambandsins. Áramótahugvekja Einars Haf er sama tuggan tuggin aftur og aftur en það er auðvitað gert til heiðurs sauðkindinni og að hennar fyrirmynd. Gerið eins og ég á stórhátíðum; verið kindarleg. Til heiðurs íslensku sauðkindinni. Hvað gerði ég við kindina sem lenti í heita pottinum? Ég sauð kindina auðvitað.

Sjálfumglöðu landsmenn. Það eru ekki allir sem valda því að komast til valda. Einar, átt þú þetta tafl? Nei ég held þetta sé Valda-tafl. Nú jæja. Sjálfur hef ég fundið mikinn meðbyr á árinu, sérstaklega í hvert skipti sem ég viðra þá skoðun að láta af einhverju hinna fjölmörgu gjaldkeraembætta sem ég gegni. Nú í lok árs var ég fenginn til að mynda stjórn, það gerði ég með Canon digital myndavél.

Aftur koma áramót
út um loftið svífur sót
skín á himni máni.
Sjálfur dunda ég við dót
og dansa, enda sálubót
að láta eins og kjáni. 

Snarsundluðu landsmenn. Að endingu óska ég ykkur friðar og farsældar á komandi ári. Um leið þakka ég fyrir samfylgdina og lesturinn á árinu sem er við það að springa í loft upp. Látið ekki skjóta ykkur………… skelk í bringu um áramótin. Heyrumst einhvern tímann á næsta ári, kannski. Góðar stundir.

Kynhlutlausa salernið á Bessastöðum, 31. desember 2024.

Einar Okkar Hafliðason

4 thoughts on “Mót við orðin ára”

  1. Gleðilegt nýtt ár Einar og takk fyrir skrifin undanfarin ár. Ég á eftir að lesa mjög mikið en það er gott að vita að enn sé ritað um sauðkindina á þessum miðli.

    Vonandi nýtast vettlingarnir síðan vel í þessum kulda.

  2. Gleðilegt nýtt ár Einar og kærar þakkir fyrir það gamla. Hef mikið yndi af því að lesa pistlana þína og treinaði mér gamlárspistilinn þar til í dag 💥💝🎊

Skildu eftir svar við Gunnar Þórir Hætta við svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *