Orðin háðuglega hátíðleg

Góðir landsmenn.

Svona í tilefni af því að það er kominn hæ hó og jibbí jei og jibbí jei 17. júní og ástandið í heiminum er orðið alveg hreint með ólíkindum tvísýnt og ískyggilegt sá ég mig knúinn til að klæðast skautbúningnum, draga fram sparistellið, þeyta rjóma, þreyta lesendur og henda í eitt hátíðarávarp. Tilgangurinn er ekki sá að blása áheyrendum baráttuanda í brjóst heldur miklu frekar að auka enn frekar á óvissuna og angistina sem ríkir þessa dagana og mun það vafalítið reynast leikur einn. Þetta er sama ávarp og fjallkonan flutti á Austurvelli, aðeins uppröðun orða og örfáum efnisatriðum hefur verið breytt. Varla þarf að taka það fram að helsta umfjöllunarefni ávarpsins er ástandið eins og það er í dag.

Stimamjúku landsmenn. Hér í upphafi er rétt að nefna að sökum pólitískra hrossakaupa hefur bloggsíða Einars Haf nú verið færð úr verndarflokki og yfir í biðflokk en einhver bið verður þó á því að hún komist í nýtingarflokk og nýtist þannig til einhvers.

Krúttlegu landsmenn. Það er kunnara en frá þurfi að segja að þessa dagana er allt á lóðbeinni leið til andskotans. Hagkerfi heimsins er á heljarþröm, hungursneið og harðindi, hríðskot og hryðjur, hernaðarbrölt og heill hellingur af hrikalegum, hræðilegum og hreinlega hrottalegum hörmungum handan við hornið. Hvernig veit ég þetta? Ég horfði á fréttirnar og þar kom þetta allt fram. Annað hvort það eða þá hitt að ég fletti í gegnum h-kaflann í orðabókinni og sá öll þessi herfilegu, hvimleiðu og háskalegu orð hringsnúast fyrir augunum á mér. Hádramatískt, alveg eins og ástandið er í dag.

Dúllubossalegu landsmenn. Mikið er hamrað á grænum orkuskiptum þessa dagana. Olíuverð hækkar dag frá degi og er bensínlítrinn nú loksins kominn yfir 350 krónur. Mikið var. Þetta leiðir ef til vill af sér að hin grænu orkuskipti verða enn hraðari en reiknað hafði verið með enda flestir olíukaupendur orðnir grænir í framan og komnir með grænar bólur. Hvar á svo að fá græna rafmagnið í grænu orkuskiptin þegar hvorki má virkja meira né menga meira? Hugsanlega mætti virkja orðaflauminn á bloggsíðu Einars Haf án óafturkræfra áhrifa á viðkvæma náttúru en það kæmu þó aldrei mörg megavött út úr því – bara eitthvað mega bull. Við verðum bara að vona að rafmagnið haldi áfram að koma úr innstungunni eins og hingað til. Góði Guð, gefðu okkur stuð. Mikið stuð, alveg eins og ástandið er í dag.

Æðisgengnu landsmenn. Skemmtanalífið er nú komið í fullan gang að nýju, enda er mjög gott ráð á tímum sem þessum að dansa til að gleyma en gleyma ekki að dansa. Um síðustu helgi fór fram 300 manna/kvenna/kvára sveitaball í félagsheimilinu Rimum í Svarfaðardal. Ég mætti auðvitað og tók þátt í hinni sveittu stemmningu og sveitastemmningu sem var á staðnum. Stemmningin var verulega sveitt á köflum enda hefur það verið viðvarandi vandamál í mörg ár að loftræstingin í íþróttasalnum slekkur alltaf á sér eftir um það bil 20 mínútur og þarf þá að ræsa hana að nýju. Þónokkuð var um aðkomumenn/aðkomukonur/aðkomukvára á ballinu en þrátt fyrir það fór allt vel fram enda ballgestir með það eina markmið að skemmta sér hið besta, hugfangnir af hinni ægifögru náttúru og landslagi Svarfaðardals. Skipti þá engu þó svo að þarna um kvöldið hefði verið svartaþoka og súld, fegurðin skín alltaf í gegn. Ekki nóg með að ballið færi vel fram heldur fór ég sjálfur vel fram og fram úr mér en mér fer hins vegar lítið fram í dansinum svo ég taki það nú fram. Fyrirgefðu Einar en er þessi kynhlutlausa frásögn ekki komin algjörlega út um þúfur? Jú auðvitað. Maður/kona/kvár getur nú ruglast í ríminu. Algjör vitleysa, alveg eins og ástandið er í dag.

Bjútíbombulegu landsmenn. Apabólan hefur nú loksins hafið innreið sína í íslenskt þjóðfélag. Innreið? Eða verður það kannski útreið? Já, ekki vera svona reið út af þessu. Hverjir eiga það mest á hættu að smitast af apabólunni? Samkvæmt sérfræðingum munu það vera þeir sem eru í afar miklu og nánu samneyti við aðra og þá allra helst þeir sem stunda villt kynlíf eða svokallað kynsvall með ókunnugum. Villt kynlíf? Já, spurning hvort þú vilt kynlíf eða ekki. Ég skil. Ein leið til að draga úr líkum á apabólusmiti er að stunda ekki kynsvall með ókunnugum. Það er því góð leið og vænleg til árangurs að kynna sig fyrst og jafnvel fræðast um áhugamál og persónulega hagi viðkomandi áður en kynsvallið hefst. Þá er að minnsta kosti ekki í gangi kynsvall með ókunnugum heldur kunnugum. Það er eins gott að hafa öryggið á oddinum þegar kemur að villtu kynsvalli. Frekar óspennandi, alveg eins og ástandið er í dag.

Gullmolalegu lesendur. Talandi um hópreið. Hestamannafélagið Hringur heldur upp á 60 ára afmæli sitt þessa stundina. Ekki nóg með það. Ungmennafélagið Þorsteinn Svörfuður er nýorðið 100 ára og allar líkur eru á því að einhvern tímann verði mögulega kannski haldið upp á það afmæli líka. Líkt og hjá öðrum sem ná 100 ára aldri er ekki hægt að tala um að virknin sé mikil en vonandi tekst þó að gefa út afmælisrit og borða afmælisköku áður en hinn aldni risi sofnar endanlega svefninum langa. Ef allt endar illa ætti það ekki að þurfa að koma neinum á óvart. Vonbrigði, alveg eins og ástandið er í dag.

Gyðjulegu lesendur. Um leið og apabólan gerði vart við sig varð kórónuveiran öfundsjúk og hóf nýja stórsókn inn í íslenskt þjóðfélag. Já, það var einmitt það sem við þurftum. Meira vesen, meira álag á spítalann og meiri grímuskylda. Líklega þarf að hefja sprautunálarnar á loft á nýjan leik og fylla æðarnar af Phizer ef ekki á mjög illa að fara. Sem betur fer hefur myndast ágætist hjarðónæmi í samfélaginu en því miður er ónæmið ekki gegn COVID-19 eins og haldið var í fyrstu heldur gegn slæmum fréttum og válegum tíðindum. Ónæmið nær meðal annars til fréttaflutnings af nýjustu COVID-19 tölum og fjölda innlagðra á spítala og þar af leiðandi er engin leið að vita hversu slæmt ástandið er í raun og veru – við erum ónæm fyrir því að heyra um það. Skelfilegt, alveg eins og ástandið er í dag.

Brjálæðislega þokkafullu landsmenn. Grasið sprettur nú sem aldrei fyrr öfugt við það sem gerðist í fyrra þegar grasið spratt aldrei hvorki fyrr né síðar. Bændur hafa margir hverjir sáð fræjum í frjóan svörð og mun ýmislegt nytsamlegt spretta þar upp á borð við rýrgresi, repju. fóðurkál, korn, hafra og bygg. Sjálfur var ég að vinna með rýrgresi og repju en til viðbótar sáði ég fræjum efasemdar en ég efast reyndar um að það komi til með að gefa góða raun þegar haustar. Þetta vorið hefur nægur raki verið í jörðu og raki bænda haldist innan vikmarka enn sem komið er. Þar af leiðandi hefur hinn rándýri áburður virkað vel og lítur víðast hvar vel út með heyskap – ef við gefum okkur það að einhvern tímann komi góð þurrkatíð þannig að hið rándýra hey náist pakkað inn í hið rándýra plast án rigningarvatns. Horfur í landbúnaði eru almennt voveiflegar en lengi getur vont versnað eins og þetta hátíðarávarp undirstrikar svo glöggt. Grátbroslegt, alveg eins og ástandið er í dag.

Ísland er dúllulegt, dásamlegt land
dýrð er að lít'upp í vorloftið ljóst
þó þjóðlífið allt saman sigli í strand
ég stend hér og þukla mín fjallkonubrjóst.

Ísland er sjúklega skemmtilegt land
með skrúðmikla fánu um engi og laut
þó þjóðlífið allt saman sigli í strand
ég stend hér og star'í mitt fjallkonuskaut. 

Ísland er æðislegt, örlítið land
lokað frá umheimi lengst út í sjó
þó þjóðlífið allt saman sigli í strand
ég stend hér og strýk mér um fjallkonuþjó. 

Eflaust hefði farið betur á því að fá einhvern instagramóðan fylliefniafylltan áhrifavald til að færa landsmönnum þetta hátíðarávarp en því miður voru þeir áhrifavaldar sem haft var samband við annað hvort uppteknir í boðsferðum erlendis eða reyndust ólæsir þegar til kastanna kom. Það gengur vonandi bara betur næst.

Góðar stundir.

Svarfaðardal, 17. júní 2022.

Hin Svarfdælska fjallkona (sem kemur alltaf af fjöllum).

Tilvitnun dagsins:

Allir: ÁSTAND!

2 thoughts on “Orðin háðuglega hátíðleg”

  1. Þú bara bjargar sálarlífinu hjá mér með skrifunum þínum.
    Þvílíkur penni og snillingur sem þú ert drengur.

    Takk fyrir mig og í guðanna bænum „ekki“ hætta!

    1. Takk fyrir falleg orð í minn garð og gaman ef maður getur bjargað sálarlífi fólks 🙂
      Já ég finn mikinn meðbyr og mun að sjálfsögðu ekki hætta 🙂

Skildu eftir svar við Freydís Baldrún Antonsdóttir Hætta við svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *