Orðin alveg heiftarlega neikvæð

Ó nei.

Neikvæðu lesendur.

Nei nei og aftur nei. Neikvæðnin svífur nú aftur yfir vötnum, loksins loksins. Eftir að örlað hafði á jákvæðni hjá undirrituðum snemma í apríl tók neikvæðnin sem betur fer öll völd á ný – og hafa gjörðir mínar allar götur síðan borið þess glöggt merki. Já nei nei.

Nei ertu ekki að grínast? Nei.

Ýmiskonar blikur eru á lofti í ýmiskonar málum þessa dagana og full ástæða til að vera neikvæður. Enn sem komið er greinist ég neikvæður gagnvart apabólunni enda hef ég ekki tekið þátt í neinu villtu kynsvalli með ókunnugum upp á síðkastið. Eitthvað sem var reyndar daglegt brauð hjá mér áður en COVID-19 og Þórólfur Guðnason komu til skjalanna en það er önnur og mun dónalegri saga. Allar líkur eru á því að vergjarnir vandræðagemlingar, hjólgraðir hnattkönnuðir í heimsreisu og frjálslyndir og fjálglegir ferðamenn beri hina nýju alheimspesti með sér hingað til lands með ófyrirséðum afleiðingum. Bólar þá ekkert á öpunum? Nei.

Íslendingar tóku auðvitað þátt í júróvísíjón söngvakeppninni nýverið og báru auðvitað skarðan hlut frá borði. Voru það vonbrigði? Nei ekkert meira en venjulega. Aðalatriðið er að vera með í keppninni, það er að segja að vera með atriði í keppninni. Árangurinn er aukaatriði, aðalatriðið er aðalatriðið en söngurinn er söngatriði og trúlega aukaatriði að auki. Æi voðalega er þetta slappt, næsta atriði takk.

Það er ekki bara bullandi neikvæðni heldur eru hreinlega blikur á lofti hvað varðar kjarasamningagerð síðar á árinu. Helstu baráttumál verkalýðshreyfingarinnar og stéttarfélaga snúast um það að starfsfólk verkalýðshreyfingarinnar og stéttarfélaga haldi vinnu sinni hjá verkalýðshreyfingunni og stéttarfélögunum. Búið er að segja upp með hópuppsögn hjá Eflingu öllum sérfræðingum í réttindum starfsfólks sem lendir í hópuppsögn. Þar af leiðandi getur það fólk sem lenti í hópuppsögn hjá stéttarfélaginu ekki leitað til stéttarfélagsins þar sem allt starfsfólk stéttarfélagsins lenti í hópuppsögn. Ég er auðvitað ekki að búa þetta til, svona er staðan í raun og veru.

Og þá skiptum við yfir í hörðu efnin. Loksins. Erum við að tala um spilliefni? Nei, fylliefni. Þið spyrjið eflaust, hvað eru fylliefni? Fylliefni eru efni sem notuð eru til þess að fylla upp í hrukkur, móta andlitsdrætti og blása út varir fyrr en varir, svo dæmi séu tekin. Þar til fyrir nokkrum vikum hafði ég aldrei heyrt minnst á fylliefni, bara spilliefni. Ég þekki ekki muninn á fylliefnum og spilliefnum – og kannski skýrir það að einhverju leyti vafasamt útlit mitt. Engar reglur gilda um notkun fylliefna hér á landi, ólíkt því sem tíðkast í nágrannalöndum okkar. Það eru því hæg heimatökin fyrir áhugasama að panta sér fylliefni erlendis frá og sprauta þeim jöfnum höndum í sig og aðra villt og galið án utanaðkomandi eftirlits. Útkoman er oft sláandi, því ef ekki er varlega farið er ákveðin hætta á afmyndun og óeðlilegum uppblæstri, jafnvel útblæstri. Ég fór í ríkið um daginn og keypti fylliefni, fór svo heim og innbyrti og endaði auðvitað á því að verða blindfullur. Ég skil því vel að sérfræðingar hafi miklar áhyggjur af stöðu mála á hinum íslenska fylliefnamarkaði.

Vorverk standa nú yfir og er af nægu að taka. Til dæmis þarf að gera við girðingarnar. Hvað þarf að gera við girðingarnar? Ég veit það ekki. Auðvitað er vel við hæfi að slá á létta strengi þegar gert er við fjallgirðingu, enda aö stórum hluta um að ræða fjögurra til sex strengja gaddavírsgirðingu. Sums staðar eru fjórir strengir ofanjarðar, sums staðar eru þeir fimm og á stöku stað eru þeir sex. Eins og margoft hefur komið fram hér á þessari bloggsíðu er allt á hægfara leið til helvítis – og er sjötti strengurinn einmitt kominn vel áleiðis þangað á löngum köflum.

Hvað með heimsmálin? Stríð og hörmungar? Flóttamannavandann? Brottvísun flóttafólks? Vöru- og matarskort? Fjöldamorð á óbreyttum borgurum? Æi nei ég vil ekki tala um þetta, fyrr má nú vera neikvæður. Eigum við ekki frekar að taka upp léttara hjal og spjalla við bændur. Fyrir skömmu var eyfirskur bóndi í fréttunum og lét sá hafa eftir sér að eins og staðan væri í dag þyrfti hann að greiða með hverjum nautgrip. Betra væri fyrir bóndann að skipta út nautgrip og ná sér í uppgrip í staðinn, enda mun arðbærara. Hvað með öryggisnetið? Styrkjakerfið? Tja, ég veit ekki með nautið en samkvæmt mínum heimildum naut bóndinn styrkja. Naut ég þess að fjalla um þetta mál? Nei alls ekki (neikvæður þið munið).

Nei eða já, af eða á? Erfitt er oft að finna svarið. Nei…alls ekki. Svarið er augljóslega nei.

Neikvæði
Að setja upp skeifu og hrista haus
hentar fyrir svein og mey,
við vonbrigðin þú verður laus
já víst er gott að segja nei. 

Á svo að koma með einhver hnyttin lokaorð? Nei.

Neinar.

Tilvitnun dagsins:

Allir: NEEEEEEIIIIIIIIII

2 thoughts on “Orðin alveg heiftarlega neikvæð”

  1. Vann Liverpool ensku úrvalsdeildina?
    Vann Liverpool meistaradeildina?
    Vann Man Utd ensku úrvalsdeildina?
    Vann Man Utd meistaradeildina?

    Svarið er NEI!!!

Skildu eftir svar við Gunnar Þórir Hætta við svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *