Handahófssprautuðu landsmenn.
Já nú lyftist brúnin á sífellt fleirum. Fólk fikrar sig sífellt nær hvort öðru og smám saman lifnar hagi og hýrnar brá. Drungi plágunnar dofnar fyrir hugskotssjónum bóluefnissprautaðra landsmanna og draumurinn um hömlulaust líferni raungerist smám saman. Hins vegar er allt við sama heygarðshornið á bloggsíðu Einars Haf, hvar eymdin og volæðið drýpur af hverju strái og fýlan lekur úr hverju munnviki. Og þó. Gott ef það grillir ekki í stöku viprur og eitt og eitt glott út í annað, svei mér þá. Nei bíddu, þessi óvænta kátína virðist nú ekki tengjast blogginu heldur eru þetta bara alþingismenn sem eru komnir í sumarfrí. Það hlaut að vera.
Félagar mínir góðhjörtuðu og fórnfúsu í Phizer samsteypunni sáu aumur á mér nýverið og létu verða af því að bólusetja mig. Þegar ég fékk smáskilaboð í símann um að nú væri komið að mér að fara undir nálina….eða vera nýr af nálinni…..eða vera í námunda við nálina, upplifði ég mig algjörlega einstakan og merkilegan og fannst þetta voða mikil upphefð að yfirvöld sæu ástæðu til að boða mig sérstaklega í bólusetningu. Ég meina, það er upphefð að vera í skilgreindum forgangsflokki örvhentra lífstílsbloggara í yfirþyngd, sem landlæknir kallaði reyndar handahófsaldursárgang nr. 32 í Dalvíkurbyggð. En ég sá í gegnum það. Þegar ég mætti í Menningarhúsið Berg til að láta sprauta mig var þar margt um manninn og sprittið fyllti vitin. Sumir voru eitthvað stressaðir yfir þessu og Lilja hjúkrunarfræðingur var alveg á nálum. Það reyndust vera sprautunálar og þar af leiðandi ekkert til að hafa áhyggjur af. Eftir að hafa fengið Phizerinn beint í æð…eða upphandlegg, var ég ásamt öðrum viðstöddum látinn staldra við í korter meðan sannleikurinn og bóluefnið fengu að síast inn. Að svo búnu gekk ég glaðbeittur út í vorið, nánast alveg laus við horið. Síðan greikkaði ég sporið. Þið afsakið, en þarna lagði ég mig í líma við að ríma en hafði bara ekki meiri tíma.
Ég hef lítinn sem engan mun fundið á mér síðan bólusetningin fór fram – og engar aukaverkanir fengið ennþá. Haldið að það sé munur að finna engan mun. Ég og aðrir bólusettir einstaklingar getum huggað okkur við það að samkvæmt þeim sem hafa nú þegar séð í gegnum hið mikla samsæri sem hér er á ferðinni verða þau örfáu ár sem eftir eru af lífinu eins og við þekkjum það eflaust mjög skemmtileg. Ég meina….er það tilviljun að í sömu viku og ég fæ bólusetningu kemur Kári Stefánsson í fréttirnar og segir að nú geti Íslensk erfðagreining spáð fyrir um hversu langt fólk á eftir ólifað? Einhvern veginn tengist þetta allt saman, ég fatta bara ekki hvernig.
Erfiðlega hefur gengið að hemja náttúruöflin sem láta sér ekki segjast og því allsendis óvíst um hvað gerist næst á Reykjanesi. Eldgosið í Geldingadal, Merardal, Fagradal og Nátthaga heldur áfram að koma vísindamönnum í opna skjöldu og opna gossprungu hvar eldrauðir logar vítis blasa við. Nú stefnir allt í að hraunbreiðan komi að Suðurstrandarvegi í afar náinni framtíð. Vísindamenn og sérfræðingar vegagerðarinnar vonast til þess að hraunið komi niður á veginn þar sem er heil lína milli akgreina en ekki brotalína. Sé heil lína má hraunið ekki fara yfir á hinn vegakantinn og gæti þetta því tafið hraunstrauminn nokkuð. Þar sem varnargarðarnir klikkuðu leggja menn nú allt traust sitt á að eldgosið kunni umferðarreglurnar.
Hér næst getur að líta nýjasta minnisblað sóttvarnarlæknis, sem bloggsíða Einars Haf komst yfir:
- Muna að láta smyrja bílinn.
- Kaupa mjólk, brauð, smjör, gúrku, mýkingarefni og handspritt.
- Fara með föt í hreinsun.
- Afnema grímuskyldu.
- Heyra í Ölmu og Vídda.
- Fara í ríkið.
Samkvæmt fréttum mun ríkisstjórnin funda um minnisblaðið og taka afstöðu til þess. Ég vona bara að Þórólfur fái minnisblaðið aftur, svo hann muni hvað hann á að gera.
Flugfélagið Play er nú farið í loftið undir slagorðinu ,,borga minna, leika meira“. Alþýðusambandið túlkar þessi orð þannig að stjórnendur ætli sér að borga starfsfólkinu minna og leika meira á það til að geta rekið flugfélagið réttum megin við núllið en forsvarsmenn félagsins hafa hafnað því alfarið og segjast raunar vera orðnir alveg flugleiðir á þessum ásökunum. Svo er bara að sjá hversu hátt flugið verður. 10 þúsund fet? Veit ekki. Fjöldi flugferða til og frá landinu bláa eykst stöðugt eftir því sem ferðaþráin verður óstjórnlegri og mótefnið vex. Hvað finnst mér um þetta allt saman? Bara gott og blessað en þó ber að hafa í huga að ekki eru allar ferðir til fjár og stundum er betur heima setið en af stað farið. Kannski það verði nýtt slagorð frú Ballarin og Wow air hins nýja, hver veit. Ferðamennirnir eru mættir aftur, flestir smitlausir og með troðfullt rassgat af peningum. Það er nú ekki ónýtt fyrir ferðaþjónustuna. Verst hvað það gengur illa að fá fólk aftur til starfa í ferðaþjónustunni þessa dagana, trúlega eru bara allir á einhverju ferðalagi. Á hvaða vegferð er Einar Haf? Það veit enginn, allra síst hann sjálfur.
Samkvæmt áður birtri afléttingaráætlun stjórnvalda er nú stutt í algjört hömluleysi – og mun það taka við af algjöru fordæmaleysi sem einkennt hefur síðustu mánuði og misseri. Gert er ráð fyrir að í næstu afléttingu stjórnvalda verði handfæraveiðar, faðmlög og skemmtanalíf gefið frjálst að nýju en þó verði kynsvall á almannafæri bannað eftir klukkan 22 á kvöldin. Þá verði heimilt á ný að kasta af sér þvagi í miðbænum og láta taka það upp á myndband – en það gildir reyndar ekki um starfsfólk í þjálfarateymum knattspyrnulandsliðanna. Heimilt verður að hleypa fólki inn á veitingahús og bari eftir að búið er að opna viðkomandi staði á daginn en stranglega bannað verður að hleypa fólki inn á þessa staði eftir lokun.
Fimmtudagurinn 1. júlí verður trúlega sögulegur dagur í samkomuhúsinu Höfða í Svarfaðardal þegar heimsfrægir Íslendingar munu koma þar fram á tónleikum. Um ræðir þá Jóa Pé og Króla sem einhverjir lesenda þessarar síðu gætu kannast við en þeir ætla að mæta á svæðið ásamt hljómsveit og skemmta gestum. Allt veltur þetta þó vissulega á því að þeir þori út af malbikinu og inn á malarveginn. Vonir standa til að með þessum tónleikum muni hróður hússins berast enn víðar en áður, sé það á annað borð mögulegt. Persónulega býst ég við góðri stemmningu og að jafnvel muni þakið rifna af kofanum í látunum. Þá þarf ég reyndar að rukka þá um hærri leigu. Mér þykir líka trúlegt að svona frægir tónlistarmenn hreinlega steli senunni. Ef þeir gera það þarf ég reyndar líka að rukka þá um hærri leigu. Svo er spurning hvort þessir fordæmalausu tónleikar sprengi ekki alla skala. Ef þeir sprengja skalana þarf ég alveg pottþétt líka að rukka þá um hærri leigu. Eins gott að fara að draga fram reikningaheftið.
Nú á Jónsmessunni er tilvalið að fara út undir bert loft, virða fyrir sér miðnætursólina og velta sér upp úr dögginni. Svo er líka hægt að halda sig innandyra, virða fyrir sér fréttamiðlana og velta sér upp úr öllum sóðamálunum sem dúkka upp dag eftir dag. Þið ráðið.
Kveðja vil ég sorg og sút og setja á rauðar varir stút. Fyrr en varir verð ég kjút og faraldurinn kveð í kút.
Þess má geta að ég rakst á minjasafnara nýverið og þreifaði á honum yst sem innst í leit að einhverjum merkum munum en því miður fann ég engan mun á honum. Það gengur bara betur næst.
Einar hálfbólusettur.
Tilvitnun dagsins:
Allir: Hömluleysi!!!
Takk.