Orðin föstudagurinn langdregnasti

Langeygðu lesendur.

Eldglæringarnar og djöfulgangurinn skjóta manni skelk í bringu. Geldingurinn í dalnum er með læti…já og svo ekki sé minnst á baneitraða gasið sem fyllir vitin. Nei ég er ekki að tala um eldgosið heldur er ég að tala um nýjustu bloggfærslu Einars Haf sem er nú loksins komin í loftið að beiðni sóttvarnaryfirvalda og biskupsstofu. Með þessum skrifum mínum vil ég undirstrika að dagurinn í dag er sorglegasti og leiðinlegasti dagur ársins. Vonandi hefur engum stokkið bros. Það mun allavega ekki gerast núna.

Eldgosið er í beinu streymi allan sólarhringinn. Beinu streymi? Já, mörg þúsund ára gömul kvika er í beinu streymi eftir kvikuganginum og upp á yfirborðið. Úr verður stórfenglegt sjónarspil sem vekur athygli og aðdáun fólks. Misvel búnir, illa búnir og alveg búnir ferðalangar hafa verið duglegir við að þramma fram og aftur óbyggðir Reykjanesskagans í þeirri von að ramba á eldgosið og hafa björgunarsveitarmenn, neyðarkallar, gangnamenn og smalar verið ræstir út ítrekað til að koma hinum villuráfandi sauðum aftur til byggða. Eins konar útihátíðarstemmning hefur ríkt við eldstöðina þar sem fólk hefur svipt sig klæðum, stjórnað fjöldasöng, borið upp bónorð og kveikt sér í sígarettu svo dæmi séu tekin. Munum að fara varlega. Eldgosið er auðvitað ekkert annað en birtingarmynd reiði guðanna vegna ógætilegrar hegðunar mannkynsins og því er betra að gá að sér. Rétt er einnig að hafa í huga að of mikið gos er slæmt fyrir heilsuna.

Alveg síðan lög um helgidagafrið voru afnumin af athyglissjúklingunum á Alþingi hefur COVID-farsóttin komið í veg fyrir að trúleysingjar, heiðingjar og Píratar geti spilað bingó á föstudaginn langa, helgifriðlaust. Æ æ ekkert bingó á föstudaginn langa. Sá hlær best sem síðast hlær segi ég nú bara. Hinum óforskömmuðu og óskammfeilnu bingósjúklingum hefði verið nær að halda sig heima í eigin guðhræðslu og skammast sín – svona eins og ég er vanur að gera á föstudaginn langa. Farsóttin er auðvitað ekkert annað en birtingarmynd reiði guðanna vegna ógætilegrar hegðunar mannkynsins og því er betra að gá að sér. Bingó! Loksins. Næst spilum við svo allt spjaldið. Í vinning eru ársbirgðir af Golgata tannkremi, naglapakki frá Límtré vírnet og pakki af Júdasarkossum.

Það má ekkert messa þessa dagana fyrir hressa fressa. Má þá lessa blessa? Nei ekki heldur. Það má bara hreinlega ekki neitt gera nema í tveggja metra fjarlægð, með grímu og sótthreinsivökva í æð. Til stóð að halda aðalfund Ungmennafélagsins Þorsteins Svörfuðar á Rimum nú fyrir páska en það reyndist ekki unnt vegna sóttvarnarreglna. Að vísu hefði mögulega verið hægt að halda fundinn í Geldingadal þar sem fjöldatakmarkanir virðast afstæðar en ferðakostnaður stjórnar óx gjaldkera í augum og því var fundi frestað um óákveðinn tíma. Þá er einnig búið að fresta ársþingi Ungmennasambands Eyjafjarðar af sömu ástæðu og vegna sama gjaldkera. Aðalfundi Umf. Atla hefur líka verið frestað um afar óákveðinn tíma, enda ekki haldinn aðalfundur nema á um tíu ára fresti. Kannski. Einar, þetta er nú frekar slöpp efnisgrein er það ekki? Jú heldur betur. Andleysi bloggarans er auðvitað ekkert nema birtingarmynd reiði guðanna vegna ógætilegrar hegðunar mannkynsins og því er betra að gá að sér.

Samkvæmt nýjustu boðum og bönnum heilbrigðisyfirvalda þurfa þeir ferðalangar sem ferðast til Íslands frá stórhættulegum hááhættusvæðum farsóttarinnar skæðu að dúsa innilokaðir á fimm stjörnu hóteli í miðbæ Reykjavíkur í fimm nætur eftir komuna til landsins, með fæði og þráðlausu neti, algjörlega án þess að hafa neitt um það að segja. Grimm geta þau verið örlög heimsins. Lögspekingar og fólk með ríka réttlætiskennd nær vart upp á nef sér fyrir bræði enda sé þetta algjörlega forkastanleg meðferð á saklausum borgurum og í hrópandi ósamræmi við stjórnarskránna. Lögfræðingar hafa umvörpum boðist til að fara með mál ferðalanganna frelsisskertu fyrir dómstóla án þess að taka svo mikið sem krónu fyrir, enda lögfræðingar af góðu kunnir fyrir fórnfýsi og sjálfboðastarf í þágu varnarlauss almennings. Fjöldi fólks hefur tekið að sér að móðgast fyrir hönd þeirra sem þurfa að kúldrast inni á Fosshótel Reykjavík og raunar hafa borist samúðarskeyti og stuðningskveðjur víða að. Nú síðast fordæmdi Kim Yong-Un leiðtogi Norður Kóreu þessa frelsisskerðingu og lýsti óánægju sinni með harðneskjulega og ómannúðlega málsmeðferð íslenskra stjórnvalda. Þá hafa eftirlifandi fangar úr Sovéska gúlaginu sent ferðalöngunum baráttukveðjur enda tengi þeir vel við ástandið. Fangelsun ferðalanganna er auðvitað ekkert annað en birtingarmynd reiði guðanna vegna ógætilegrar hegðunar mannkynsins og því er betra að gá að sér. Ég hef sjálfur neyðst til að gista í herbergi á Hótel Cabin með glugga sem snéri fram á gang og ég veit því vel um hvað málið snýst. Je suis ferðamenn.

Nokkur þúsund manns, áhrifavaldar og svo aðrir lægra settir, hafa undanfarna daga lagt það á sig að klöngrast yfir urð og grjót, örævi og auðn til þess að berja augum eldgosið í Geldingadal. Það hélt ég að minnsta kosti. Nú hefur komið í ljós að píslargangan kemur eldgosinu sára lítið við. Aðalmálið er að labba að vefmyndavél Ríkissjónvarpsins efst á Fagradalsfjalli og gretta sig og geifla framan í grandarlausa áhorfendur í beinu streymi á RÚV 2. Ástandið minnir nokkuð á það þegar Jesús Kristur var dæmdur af Pontíusi Pílatusi og leiddur á Golgatahæð og múgur manna mætti á svæðið. Ekki til að fylgjast með krossfestingunni, enda voru þær daglegt brauð á dögum Rómverja, heldur til að gretta sig og geifla framan í grandarlausa áhorfendur í beinu streymi á RÚV 2. Brún sjónvarpsáhorfenda léttist lítið þó svo að Kristur hefði risið upp frá dauðum þremur dögum síðar, enda höfðu mótmælendur sett skilti fyrir myndavélina sem sýndi beint streymi á RÚV 2 og þar af leiðandi sást ekkert nema „hvar er nýja stjórnarskráin?“ Allar Golgötur síðan hafa kristnir menn verið óánægðir með sjónvarpsdagskránna á páskunum. Ódýr innlend dagskrárgerð er auðvitað ekkert annað en birtingarmynd reiði guðanna vegna ógætilegrar hegðunar mannkynsins og því er betra að gá að sér. Talandi um það, hvaða mynd ætli sé í sjónvarpinu núna? Kannski birtingarmynd reiði guðanna? Úff vonandi ekki, hún er pottþétt bönnuð börnum.

Hinir trúþyrstu geta mætt í Urðakirkju nú um páskana og haldið sína eigin kyrrðarstund, samhliða því sem viðkomandi geta játað syndir sínar við gráturnar og iðrast. Ef þið eruð heppin getur vel verið að pabbi minn taki sig til og hringi klukkunum, enda hringir hann frítt um helgar í boði Símans, Vodafone og Nova. Hvaða hringitón er verið að vinna með? Bara þennan klassíska. Stutt, löng, löng, stutt. Hvað með birtingarmynd reiði guðanna? Ég veit ekki, æðri máttarvöld hljóta að hafa samband gegnum innhringibúnaðinn í kirkjunni ef þeim mislíkar þetta eitthvað.

Vá, þessi bloggfærsla er svo löng að það er að koma laugardagur. Má þá hafa gaman aftur? Nei alls ekki. Skammist ykkar bara, verið heima og borðið lambakjöt, hlustið á Passíusálmana og passið ykkur. Kristur tók á sig syndir mannanna. Ekki viljum við að hann þurfi að gera það aftur er það? Hmm nei. Lambakjöt segir þú…var ekki Jesús Kristur hið upprunalega og sanna páskalamb? Jú sennilega. Hvað með hina villuráfandi sauði? Veit ekki. Ég veit bara að sumir sauðir verða hryggir, allavega á jólunum og páskunum.

Frelsissviptur ferðamaður grætur
á Fosshóteli dúsir daga og nætur
ó hve örlög geta verið grimm
að gista hér og stjörnur bara fimm. 

Þess má til gamans geta að Veðurstofa Íslands hefur ákveðið að gefa út páskagula viðvörun um allt land, enda búist við málsháttum á köflum og súkkulaðiofáti í innsveitum.

Einar á krossinum.

Allir: KRÆST!!!

One thought on “Orðin föstudagurinn langdregnasti”

Skildu eftir svar við Gunnar Þórir Hætta við svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *