Einangruðu lesendur.
Já það er ég, Einar Haf, gjarnan kallaður fjórtándi jólasveinninn, sem heilsar ykkur héðan úr útsprittuðu jólakúlunni sem mér var sagt að ég ætti að búa til. Hvaða jólakúlu er verið að meina? Væntanlega þessa sem er framan á mér. Og þér. Ha? Jú sjáiði til…þökk sé langvarandi íþróttabanni og lögbundnum kósýkvöldum fyrir framan tölvuna og sjónvarpið hafa jólakúlur landsmanna stækkað ört upp á síðkastið. Fita og sykur jólanna munu hjálpa til við að stækka þær kúlur enn frekar. Auðfitað…..auðvitað.
Umhverfisráðherra hefur lagt til að stærsti þjóðgarður norðan Alpafjalla skuli drifinn upp og afgirtur hér á víðfemu og hrjóstugu hálendi Íslands. Hvers vegna? Til að skapa sérstöðu og laða að ferðamenn. Gott og vel. Andstæðingar frumvarpsins telja að betur fari á því að girða ráðherrann af uppi á hálendinu, þ.e.a.s. að reisa girðingu umhverfis ráðherrann. Umhverfisráðherrann. Það væri nú kannski ekki fallega gert. Hvar stend ég í þessu máli? Örugglega bara í túnfætinum heima, langt utan girðingar. Ég velti því fyrir mér hvernig þetta sé framkvæmt. Að búa til svona þjóðgarð. Er reist gaddavírsgirðing sem afmarkar þjóðgarðinn eða er grafinn skurður eða hvernig er þetta gert? Fer þetta allt á flot þegar Vatnajökull bráðnar af mannavöldum? Hvað mega Grýla, Leppalúði og jólasveinarnir segja? Lenda þau þá öll inni í þjóðgarðinum án þess að hafa neitt um það að segja? Fuss og svei. Ekki kæmi það mér á óvart að einhver óþekkur ráðherra fái kartöflur í skóinn á næstunni.
Undanfarið hefur verið afar mikið álag á alls konar hjálparsímum og neyðarþjónustum hér á landi, enda neyð margra mjög mikil nú á þeim furðulegu og fordæmalausu tímum sem við lifum. Neyðarlegt í meira lagi. Hjálparstarf kirkjunnar, Rauði krossinn og fjölskylduhjálpin hafa vart haft undan við að aðstoða fjölskyldur og einstaklinga í neyð og veita sáluhjálp. Margir eiga bágt nú í aðdraganda jólanna og kvíðinn stigmagnast. Líkt og fram hefur komið í fréttum er neyðin trúlega mest hjá eigendum líkamsræktarstöðva. Símkerfið hjá 113 vælubílnum hreinlega sprakk þegar forsvarsmenn líkamsræktarstöðvanna í félagi við kráareigendur og fótboltamenn í neðri deildum upphófu mikinn vælukór þegar nýjustu sóttvarnarhömlur voru kynntar almenningi. Sóttvarnarlæknir hefur átt í vök að verjast vegna þessa enda hefur verið hart að honum sótt. Varnarlækninum. Sem sagt sóttvarnarlækninum. Til varnar lækninum, sko sóttvarnarlækninum, verður þó að segjast eins og er að það er líklega mun meiri smithætta í líkamsræktinni heldur en ofan í sundlauginni. Svitinn, lóðarefsingarnar og pexaflexið gera það að verkum. Lausn vandans væri helst sú að koma líkamsræktartækjunum fyrir í grunnu lauginni með tveggja metra millibili þar sem allir geta unað glaðir við sitt, umvafðir klórblönduðu ímignu sundlaugarvatninu, samtímis því að svitna á hlaupabrettinu og í róðravélinni. Bara hugmynd.
Jólasveinarnir eru byrjaðir að streyma til byggða. Það er nefnilega í tísku þessa dagana að streyma öllu og öllum og raunar er hver ljósleiðarastrengur rækilega nýttur til að streyma áfram allrahanda menningar- og afþreyingarefni. Og ekki bara það. Jólagjafakaup landsmanna fara að stórum hluta fram gegnum veraldarvefinn í beinu streymi. Jólamessan mun streyma til okkar gegnum sjónvarpið og sömuleiðis jólaguðspjallið sem er alla jafna vistað miðlægt í skýinu – í svokölluðum sjöunda himni. Jólamaturinn og jólaölið koma einnig heim að dyrum í beinu streymi og það gera Sigga Beinteins, JólaBó og Bubbi Morthens líka. Þá má láta þess getið að nú rétt áðan streymdi ég vatninu beint úr krananum og í glasið mitt. Svona eru þetta nú fordæmalausir tímar.
Streymið heldur áfram. Áður en langt um líður fer COVID-19 bóluefnið langþráða að streyma til landsins og í beinu framhaldi fer það að streyma um æðar landsmanna með tilheyrandi lostafullum unaðshrolli. Málið er þó ekki alveg svona einfalt. Í ljós hefur komið að ekki eru til nógu margar bólur til að búa til allt það bóluefni sem til þarf handa allri heimsbyggðinni. Samkvæmt því sem mér skilst af lestri gervifrétta á netinu er bóluefni að mestu búið til úr bólum sem finnast hér og þar í náttúrunni. Þetta geta verið graftarbólur, unglingabólur og tombólur en það er reyndar engin ný bóla. Ég þarf að halda áfram að gúggla og læt vita síðar um vísindalegar niðurstöður sem koma út úr því.
Varað er við hættu á miklu streymi og jafnvel skyndiflóðum í helstu stórmörkuðum og bókabúðum landsins næstu sólarhringana, þetta mun vera jólabókaflóðið. Reiknað er með óverulegu manntjóni en ljóst er að einhverjar bækur munu lenda í ólestri, að minnsta kosti þar til þær verða teknar úr plastinu.
Sóttvarnarlæknir telur ólíklegt að bólusetningar geti hafist hérlendis fyrr en bóluefnið kemur til landsins. Þetta eru nokkur vonbrigði enda höfðu einhverjir vonast til þess að hægt yrði að byrja fyrr en síðar og jafnvel fyrr en það. Sjáum hvað setur. Setur? Já….bólusetur.
Lyftæknir sá tólfti, kunni á ýmsu lag, hann bóluefnið samþykkti á Þorláksmessudag. Hann krækti sér í skammtinn, þegar kostur var á. En stundum reyndist of stutt sprautunál hans þá.
Á þessari stundu er engin leið að vita hvenær heimsfaraldurinn skæði verður genginn yfir og hægt verður að byrja að knúsa mann og annan. Raunar er ómögulegt að segja nokkuð til um hvað gerist í framtíðinni svona yfir höfuð. Það eitt veit ég að það árans ár sem senn er á enda verður gert upp með ítarlegum hætti á næstunni í ræðu og riti í fjölmiðlum. Bloggsíða Einars Haf mun ekki láta sitt eftir liggja í þeim efnum. Áramótahugvekja? Heldur betur. Ég myndi byrja að kvíða fyrir strax í ykkar sporum.
Gleðileg jól……og þó?
Einar á kúlunni.
Tilvitnun dagsins:
Skrámur: Heyrðu mig nú feitabollan þín…..
Til hamingju með afmælið Einar 🙂
Takk fyrir það Gunni 🙂