Útilegulegu lesendur.
Gaman er að geta komið orði fyrir sig. Skíðakappinn norski stundar bæði brun og svig. Í Ameríku kóvid komið er á hættustig. Helvíti er Kópasker að fara vel með þig. Inngangsorð sem ríma eru ekkert fyrir mig.
Grímur í Herjólfi? Nei ég hringdi í Herjólf og spurði og þar var enginn Grímur. Við fylgjumst spennt með áfram.
Nú er aftur komið á faðmlaga-, knúsa- og kossabann á Íslandi, það er að segja milli ótengdra og óskyldra aðila. Tveggja metra viðmiðið er aftur orðið að reglu og ekki fleiri en 100 manns mega koma saman og kemur það heim og saman við það að ótengdir og óskyldir aðilar mega ekki koma heim saman. Kórónaveirufaraldurinn tók sér smá frí á Íslandi en er nú mættur aftur með tilheyrandi gráti og gnístran tanna. Það eru að vísu ekki algeng einkenni hinna sýktu en mun algengari einkenni meðal listamanna, ferðaþjónustuaðila og annarra sem tjá sig opinberlega um að hafa misst spón úr eigin aski. Vissulega er allt á leiðinni til fjandans, fjöldi fólks hefur misst lífsviðurværi sitt og vanlíðanin magnast. Eflaust myndi ég mála skrattann á vegginn ef ég hefði vegg, málningu og pensil. Það ætla ég hins vegar ekki að gera. Hins vegar ætla ég að halda áfram minni félagslegu einangrun, sem í dag nefnist sjálfskipuð sóttkví – og spritta mig inn að skinni. Byggjum múra, lokum okkur af, óttumst annað fólk, förum á kojufyllerí og skömmumst okkar.
Grímur í strætó? Nei ég athugaði málið áðan og það var enginn Grímur í strætó. Við fylgjumst spennt með áfram.
Líkt og um páskana er aftur komin upp sú staða að fólki er ráðlagt að vera sem mest heima hjá sér. Þeirri reglu hef ég að vísu fylgt samviskusamlega sjálfur…svona að mestu – í fjölda ára og þið sjáið nú hvernig komið er fyrir mér. Það má því öllum vera það ljóst að ef þetta ástand dregst verulega á langinn verða afleiðingarnar hrikalegar og jafnvel óafturkræfar. Ég veit að þið trúið því ekki endilega en ég átti einu sinni framtíðina fyrir mér. Ég var efnilegur á ýmsum sviðum og útlitið var nokkuð bjart. Síðan gerðist eitthvað sem ég get ekki útskýrt en hefur valdið því að ég hef setið eftir á flestum sviðum og er í dag aðhlátursefni þeirra sem hafa komið ár sinni vel fyrir borð. Aðhlátursefninu hef ég stundum reynt að koma í orð og þegar það tekst hef ég hamrað þau á lyklaborðið þannig að lesendur bloggsíðu þessarar fái notið þess að lesa um eymdina og volæðið. Mitt markmið er að láta öðrum líða vel og þá er einna best að gera það á eigin kostnað. Það má jú ekki gera grín að neinu í dag – segja þeir sem eitthvað þykjast vita. Ég ætlaði til dæmis að úthúða Kópaskeri, Raufarhöfn og fleiri vel völdum krummaskuðum hér næst og síðan ætlaði ég að drulla yfir transfólk og útlendinga síðar í pistlinum. Eitthvað sem tíðkast hefur hér á landi lengi og fylgt hefur íslenskri menningu en nú má þetta víst ekki lengur. Við lifum svo sannarlega á fordæmalausum tímum. Byggjum aðeins meiri múra, lokum okkur ögn meira af, óttumst annað fólk pínu meira, förum á aðeins lengra kojufyllerí og skömmumst okkar smá í viðbót.
Grímur í flugvélinni? Nei enginn Grímur hér. Það er svo sem ekki eins og það séu margir í flugvélinni, hvað þá Margeir. Við fylgjumst spennt með áfram.
Undanfarið hefur það sýnt sig að það eitt að vera til og lifa er stórhættulegt. Jafnvel lífshættulegt. Það eitt að knúsa næsta mann getur verið banvænt ef næsti maður er með bráðsmitandi sjúkdóm. Það eitt að fara í fjallgöngu getur verið banvænt ef fjallið sem þú gengur á ákveður að gjósa. Það eitt að lesa bloggið hans Einars Haf getur verið banvænt fyrir hvern sem er því ef ég vanda mig ekki er mjög hætt við að lesendur deyi úr leiðindum. Það eitt að fara í sund í Sundskála Svarfdæla getur verið banvænt ef viðkomandi stingur sér til sunds og fattar í miðri stungu að sundlaugarkarið er vatnslaust. Það eitt að fara í útilegu á Húsabakka getur verið banvænt ef viðkomandi villist í puntinum og illgresinu sem þar veður uppi og finnur ekki leiðina út. Það eitt að leika sér í excel getur valdið löngum og illvígum dauðdaga ef ekki eru notaðar réttar formúlur og dregnar réttar ályktanir. Það eitt að fara í veislu getur orðið manni að aldurtilla, til dæmis ef bakkelsið stendur í manni eða þá ef maður fattar í miðju Snickers nammi að maður sé með bráða hnetuofnæmi. Hætturnar leynast við hvert fótmál. Gerið eins og ég, lokið ykkur af heima hjá ykkur og einangrið ykkur félagslega. Byggjum sterkari múra, lokum okkur þéttar af, óttumst annað fólk heldur meira, förum á tveggja daga kojufyllerí og skömmumst okkar í drasl. Hmm, mér finnst ég vera aðeins farinn að endurtaka mig.
Grímur í lestinni? Það veit ég ekki. Það eru engar lestar á Íslandi. Þess má reyndar geta svona til gamans að ef það væri lest á Íslandi myndi ég reka hana.
Eftir að önnur bylgja COVID-19 skall á hér á landi hefur alveg gleymst að hrauna hressilega yfir leikhópinn Lottu. Leikhópurinn á það svo sannarlega skilið enda varð einum meðlima hópsins það á að segja lélegan brandara um Kópasker og Raufarhöfn. Guði sé lof fyrir að mér hefur enn ekki verið refsað fyrir alla lélegu brandarana sem ég hef látið frá mér fara gegnum árin – því þá væri ég ekki hér til frásagnar. Annars hefur leikhópurinn Lotta ferðast um landið í sumar og sýnt leikrit sem byggir á sögunum um Bakkabræður en eins og flestir vita bjuggu þeir í Svarfaðardal. Líkt og hjá leikhópnum gekk ekki allt upp í lífi þeirra bræðra en þó voru þeir ákveðnir brautryðjendur á sínum tíma þegar þeir fóru í sóttkví fyrstir manna. Að vísu var það ekki vegna farsóttar heldur vegna tungls í fyllingu sem kom upp úr hafinu og þeir töldu vera herskip. Af ótta við það lokuðu þeir sig af inni í fjósi, byrgðu bæði dyr og glugga og sultu loks í hel. Hræðileg og grimm örlög, jújú – en þeir urðu frægir fyrir vikið og er þá ekki markmiðinu náð? Byggjum þykkari múra, lokum okkur meira af, óttumst annað fólk enn meira, förum á enn meira kojufyllerí og skömmumst okkar mest.
Grímur í búðinni? Já það er hægt að kaupa grímur í búðinni. Verðið var að vísu hækkað um 763% þegar farið var að mæla með grímunotkun í þröngum rýmum þar sem tveggja metra reglunni yrði ekki viðkomið. Það er samt óþarfi að hneyklast á því, enda bara venjulegar íslenskir viðskiptahættir.
Stefna stjórnvalda hér á landi er að herða og slaka á sóttvarnarreglum á víxl til að bæði rugla fólk í ríminu og eins til að stemma stigu við útbreiðslu COVID-19 en njóta þó lífsins þess á milli. Herða og slaka. Slaka, eins og þeir myndu segja á Dalvík. Eins og staðan er í dag er engin leið um það að segja hvenær næst verður hert á og slakað á en lífið er jú óútreiknanlegt og við það þurfum við að búa. Enginn veit hvenær hægt verður að fara í leikhús, á ball eða á barinn en þó er vitað að þetta er allt saman stórhættulegt hvort sem það er bráðsmitandi drepsótt á ferðinni eða ekki. Enginn veit heldur hversu margir ferðaþjónustuaðilar fara á hausinn en þó er það huggun harmi gegn að aldrei hefur útlitið verið það dökkt að ekki birti aftur til. Það hélt til dæmis enginn að ferðaþjónustan næði sér á strik eftir berklana, móðuharðindin og svarta dauðann en annað kom þó á daginn. Verum bjartsýn. Byggjum sverari múra, lokum okkur algjörlega af, óttumst annað fólk eins og pestina, förum á sótthreinsivökvakojufyllerí og skömmumst okkar meira en í öllum fyrri efnisgreinum til samans.
Veirulitað lífið mitt losna ei við þennan fjanda af stút er best að þamba spritt og spræna svo burtu þessum vanda.
Þess má til gamans geta að þessi ljóðagerð var með öllu grímulaus og mun ég því ekki koma til með að eiga möguleika á Grímuverðlaununum næst þegar þeim verður úthlutað. Það gengur bara betur næst.
Einar Grímur Hafliðason.
Tilvitnun dagsins:
Allir: SPRITT!!!
GRÍMUR!!!