Orðin verslunarmannahelgarleg

Veisluglöðu lesendur.

Jæja, þá er að koma að þessu. Spenningurinn er svo mikill að ég hem mig varla. Landsmenn pakka útilegudótinu og leggja land undir fót. Þjóðin fer á útihátíð og fer í fríið og fer á límingunum en ég fer frekar ofan við garð og neðan og fer undan í flæmingi og fer svo inn í mig og forherðist í afstöðu minni gagnvart öðru fólki og skemmtanagleði þess. Þetta leiðir til þess að ég mun hafa allt á hornum mér, grautfúll og mökkpirraður yfir ósanngirni lífsins og ógæfu heimsins. Það er annað hvort uppskrift að stórslysi eða verulega vafasamri bloggfærslu. Ég veit ekki hvor niðurstaðan er skárri.

Nú væri við hæfi að þylja upp hinar fjölmörgu hátíðir sem haldnar verða um allar koppagrundir og í hverju krummaskuði um komandi helgi. Það þarf víst svo mikið að halda upp á þessa blessuðu verslunarmenn og votta þeim virðingu með ærlegri drykkju, samsöng og skyndikynnum þar sem því verður við komið. Þeir verslunarmenn sem selja útilegudót og áfengi brosa út að eyrum fyrir vikið….munnvikið á ég við. Verður eitthvað um að vera í Ölskyldu- og búsdýragarðinum? Nei held ekki. Aðal fjörið verður væntanlega á Þjórhátíð í Eyjum venju samkvæmt en Neskaupsstaður, Akureyri, Höfn og Flúðir koma einnig sterk inn. Krakkar, ekki drekka undir lögaldri. Drekkið frekar bara áfengi.

Veðurfræðingar neita að tjá sig um það hvar besta veðrið verður en þó er talið næsta öruggt að það verði þungskýjað á mánudagsmorgun og bömmer á stöku stað. Starfsfólk Samgöngustofu mun fylgjast spennt með umferðinni, reiknað er með að umferð taki að þyngjast frá höfuðborgarsvæðinu einhvern tímann á föstudag, síðan taki við rólegheit í góða tvo daga en umferð taki að þyngjast að nýju seinni part mánudags. Ég fylgist spenntur með. Þá er ég auðvitað að tala um bílbeltið sem ég var að spenna mig í rétt áðan. Það má kannski ekki drekka áfengi undir stýri en enginn talaði um að það mætti ekki blogga undir stýri.

Nú hefur forsætisnefnd Alþingis ákveðið að siða til tvo Miðflokksþingmenn í samræmi við niðurstöðu siðanefndar. Kannski full seint í rassinn gripið en hvað með það. Siðanefnd komst að þeirri niðurstöðu að það væri allt í lagi og raunar bara fyndið að framkalla selahljóð á bar ef um væri að ræða pönslæn í góðum brandara en hins vegar væri það full langt gengið að tala um samstarfskonu sína sem húrrandi klikkaða kerlingarkuntu. Mér þykir ákveðin fró í því að vita hvar þessi svokölluðu velsæmismörk liggja en úr því hefur nú sem sagt verið skorið. Óminnishegrinn verður án efa víða á sveimi um komandi helgi en ef lesendur ætla sér í 36 klukkustunda algleymi eins og þingmaðurinn siðprúði þá er einmitt kjörið tækifæri að nýta þessa löngu helgi til þess. Ég tala nú ekki um ef þið hafið einhverju til að gleyma á annað borð.

Samtök verslunar og þjónustu hafa nú komist að raun um það að á hverju lambi sem slátrað er hér á landi er aðeins einn hryggur en hins vegar eru tvö læri (að minnsta kosti), bógur, haus, lappir, hinn fjölbreytilegasti innmatur og ótal margt fleira. Lambahryggir hafa selst grimmt grillsumarið mikla 2019 og komst því á kreik orðrómur um yfirvofandi skort á hryggjum. Góðhjartaðir áður nefndir verslunarmenn eru vissulega engir sauðir nema síður sé og brugðust við þessu. Gerðu þeir sér lítið fyrir og pöntuðu hryggir 50 tonn af hryggjum frá útlandinu með það sama, til að anna eftirspurn. Landbúnaðarráðherra kom af fjöllum án þess þó að hafa verið í smalamennsku og bað sérfróða nefnd að taka eins og eina góða birgðatalningu hjá sláturleyfishöfum til að komast að því hversu mikið væri til af innlendum lambahryggjum í raun og veru. Þá kom í ljós að það er til slatti hér og gomma þar og í raun væri alveg óþarfi að fella niður tolla á innfluttum hryggjum til að mæta þörf markaðarins, þvert á það sem þessi sérfróða nefnd hafði lagt til nokkrum dögum áður. Málið stendur því þannig að nú eru á leið til landsins 50 tonn af innfluttu lambakjöti á fullu tollverði en á meðan er til nóg af íslensku lambakjöti fyrir sísvangan almenning, alveg fram að komandi sláturtíð. Sláturleyfishafar ætla sér reyndar að hefja sláturtíðina rétt fyrir miðjan ágúst til að tryggja birgðastöðuna, mörgum vikum áður en auglýstar göngur fara fram og fé kemur af fjalli. Eitthvað í þessu gengur ekki alveg upp en ljóst er að vandi sauðfjárræktarinnar er ærin(n).

Ég legg til að þið lesendur góðir fáið ykkur lambakjöt um helgina, slátrið eins og einum Víking léttöl eða Pepsí Max og fáið ykkur jafnvel Ristorante pítsu sem bragðast víst eins og á ítölsku veitingahúsi samkvæmt auglýsingunni. Ég efast reyndar ekkert um það. Ristorante pítsan er eins á bragðið hvort sem ég borða hana heima hjá mér eða á ítölsku veitingahúsi. Hins vegar væri það mjög heimskulegt að fá sér Ristorante, frosna örbylgjupítsu, ef maður er á annað borð staddur á ítölsku veitingahúsi.

Á ekkert að fjalla um Inníkúkinn í Reykjavík eða Æludaga í Hörgársveit? Nei ég er vaxinn upp úr svoleiðis löguðu. Tja, reyndar er ég ekki vaxinn upp úr brandaranum sem ég ætlaði að segja um hátíðina Ein með pjöllu á Akureyri en ég verð víst bara að eiga það við mig.

Ætli Fiskikóngurinn Höfðabakka 1 sjóði sinn fisk í heitu pottunum frá heitirpottar.is Höfðabakka 1? Nei maður spyr sig.

Þessi helgi er stíf og ströng
um stuð mig fer að dreyma.
Sumir drekka dægrin löng
og dægrum síðan gleyma.

Nú er horfið Norðurland
nú á ég hvergi heima.

Þess má til gamans geta að nýi Herjólfur er ekki skírður í höfuðið á gamla Herjólfi því þá héti hann auðvitað ekki nýi Herjólfur heldur gamli Herjólfur. Hmm, ég þarf aðeins að hugsa þetta. Heyrumst.

Ein(n)ar helgar gaman.

Tilvitnun dagsins:

Allir: DJAAAAAMMMMM!!!!

One thought on “Orðin verslunarmannahelgarleg”

Skildu eftir svar við Gunnar Þórir Hætta við svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *