Orðin ný jú enda júní

Sælu lesendur.

Samkvæmt nýjustu rannsóknum þjáist mikill meirihluti fólks af svefnleysi. Ástæður þessa svefnleysis eru af ýmsum toga. Stress, óhófleg skjánotkun, firring nútímamannsins og lífsgæðakapphlaupið eru líklegar skýringar en trúlegasta skýringin er þó væntanlega næturfundirnir á Alþingi sem haldið hafa vöku fyrir þingmönnum, starfsmönnum þingsins og þjóðinni allri undanfarið. Og enn er þingað. Eitt gott ráð við svefnleysi er að lesa bloggfærslur Einars Haf, enda þykja þær afar svæfandi aflestrar. Vissulega væri betra að hitta Einar Haf í eigin persónu þar sem það eitt og sér þykir verulega þreytandi en það er víst hægara sagt en gert. Þessi bloggfærsla er skrifuð að áeggjan Landlæknisembættisins – til að sporna við svefnleysi þjóðarinnar. Þið munið aldrei ná að halda ykkur vakandi yfir þessu, það er nokkuð ljóst. Hvað á þessi inngangur eiginlega að vera langur? Innlangur gangur innganglangur. Næsta atriði takk.

Vá, þetta var jafn frumlegt og Víkinglottó auglýsingarnar. Sælir Íslendingar, þetta er íslenska glíman og ég vil að þið vinnið í Víkinglottóinu. Geisp.

Þessa dagana er nóg að gera í sveitinni. Sveitinni með stóru S-i. Sveitinni fögru þar sem loftið er svo tært og ljósblikið skært. Svarfaðardalur þykir fegurstur dala hér á landi, það er bæði mat heimamanna og eins hlutlaust mat lesenda bloggsíðu Einars Haf samkvæmt verulega áreiðanlegri en afar óformlegri könnun. Á þessum árstíma þarf að sinna hinum ýmsu verkum. Það þarf að koma fénu á fjall. Það þarf að setja út kálfana, nudda kálfana og teygja á kálfunum. Það þarf að fara út um þúfur. Það þarf að hlaupa undir bagga, þó það sé reyndar ekki gott fyrir bakið ef um stórbagga er að ræða. Það þarf að setja út kýrnar en ekki setja út á kýrnar, gefa hænunum en ekki selja hænunum, hæna köttinn að hundinum, flengja apann og brynna músunum. Svo þarf að slá grasið, standsetja heyvinnutækin, brýna ljáinn, smyrja koppana, tæma koppinn, setja upp stýri, pússa stýrið, staga í sokkana, stagast á veðurspánni og gera við girðingarnar sem kálfarnir hlupu niður þegar þeir voru settir út. Hafi mig einhvern tímann langað í nýtt og ferskt kálfakjöt steikt á teini þá var það einmitt við þær aðfarir.

Síðan ég lét Ríkissjónvarpið taka við mig persónulegt einkaviðtal í Sundskála Svarfdæla um bágborið ástand skálans (sjá síðustu bloggfærslu) hefur nákvæmlega ekkert gerst í skálanum, hvorki til hins betra né verra. Hins vegar virðist viðtalið hafa bjargað ferli mínum sem álitsgjafi og áhrifavalds þegar kemur að hinum ýmsu málum, að minnsta kosti um stundarsakir. Margir sem höfðu gleymt mér létu í ljós hrifningu sína á mér og þeirri staðreynd að ég væri spurður álits í fjölmiðlum, þessi frambærilegi og huggulegi maður (sé horft úr fjarska). Það er þó hætt við því að fljótt fjari undan fimmtán mínútna frægðinni og að brátt verði allt komið í sama farið aftur. Fylgjendum mínum á samfélagsmiðlum hefur ekki fjölgað og þeir hafa ekki fjölgað sér, aðdáendaklúbburinn er enn óstofnaður og skúffan með aðdáendabréfunum er farin að rykfalla verulega. Ég myndi gera næstum því hvað sem er fyrir frægðina, nema kannski að koma nakinn fram í Sundskálanum…eða í sundskýlu. Það fer svo svakalega illa með húðina og húðfellingarnar að velta sér um í köldu og tómu sundlaugarkarinu. Ég skil vel að það atriði hafi verið klippt út úr 10 fréttum Ríkissjónvarpsins.

Sumarið er tími ástar og hamingju. Sumarið getur reyndar líka verið tími haturs og hjónaskilnaða en ég vil frekar einblína á hið fyrrnefnda. Ást landsmanna í garð hvers annars blómstrar sem aldrei fyrr, þar sem það á við. Fjöldi giftinga er fyrirhugaður á næstunni í Svarfaðardal og næsta nágrenni og auðvitað er Urðakirkja vel í stakk búin að annast slíkar athafnir án verulegra vandkvæða. Í samtali undirritaðs við starfsmann kirkjunnar kom fram að heilagur andi hafi sjaldan verið heilagari, orgelið komi vel undan vetri og grassprettan á lóðinni sé með ágætum. Vissulega sé nokkuð af fíflum á lóðinni og í hlaðvarpanum en það verður bara að hafa það – ég get ekkert gert að því þó ég sé svona. Á staðnum er allt sem til þarf ætli fólk sér að halda vel heppnað brúðkaup….eða giftingu. Í júní býður Urðakirkja upp á sértilboð af þess konar kirkjulegum athöfnum; brúðarslör, ljóðræn giftingarheit, Magnús prest og fjórar hrísgrjónalúkur á aðeins 96.990 kr. Hægt að greiða með Netgíró. Athugið, ekki verður gefinn kostur á endurgreiðslum þó svo að viðkomandi hjónaband endi með skilnaði. Vegir Guðs eru órannsakanlegir, meira að segja samkvæmt Google maps.

Gríðarlegt bensínstríð skall á í Reykjavík nú fyrir skemmstu. Mannfall var óverulegt en verðfall töluvert. Atlantsolía hefur undanfarið auglýst bensínsprengju en slíkar sprengjur hafa reyndar ekki verið notaðar hér á landi síðan varnarliðið yfirgaf Keflavíkurflugvöll. Dælan auglýsir lægsta verðið sé tekið vegið meðaltal á hvern dældan lítra á höfuðborgarsvæðinu , Orkan er með ódýrasta heildarverð oktans ef notaðir eru lyklar, kort og afsláttarmiðar en Atlantsolía er með hæsta lægsta verðið á hvern ekinn kílómetra sé tekið meðaltal af bensín- og dísellítra ef viðkomandi á Skoda Octaviu og býr í Grafarvogi. Hvað með íbúa landsbyggðarinnar? Þeir fá að kaupa sitt eldsneyti á gamla góða svimandi háa lítraverðinu án afskipta þessara vitleysinga á höfuðborgarsvæðinu. Sjálfur þarf ég ekki á svona löguðu að halda mikið lengur þar sem ég er þessa dagana að þróa og hanna metantank á Súbbann. Ég sé fyrir mér að geta mokað nýskitnum kúaskít beint í tankinn og með smávægilegum efnahvörfum og prumpulykt keyrt á svokölluðu túrbó-metani vilt og galið um Svarfaðardal og nágrenni, áhyggjulaus og á nánast löglegum hraða. Engar áhyggjur, ef þetta tekst hjá mér læt ég taka annað viðtal við mig í Ríkissjónvarpinu og þá verður það sennilega birt í aðalfréttatímanum en ekki bara í 10 fréttunum.

Tómur skálinn fuss og svei
svekktur kjökr'í kvöldsólinni.
Fylgjendunum fjölgar ei -
fölur græt í annað sinni.

Þess má til gamans geta að í miðju bloggfærslunnar mældist loftþrýstingurinn 989 millibör. Í samtali við veðurfræðing kom fram að þetta væri hvorki merki um lægðir né hæðir heldur eitthvað þar mitt á milli, trúlega hægðir. Annars væri óþarfi að gera veður út af því.

Einar kappinn út um kvippinn og kvappinn.

Tilvitnun dagsins:

Allir: SÓLIN!!!

2 thoughts on “Orðin ný jú enda júní”

Skildu eftir svar við Gunnar Þórir Hætta við svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *