Orðið mun sigra

Leðurklæddu lesendur.

Svallið var hömlulaust og þynnkan er endalaus. Ágætlega lýsandi fyrir þær tilfinningar sem lesendur þessarar bloggsíðu upplifa núna. Er þetta allt eitt stórt samsæri? Svarið er já.

Nýverið fór 74. íþróttaþing ÍSÍ fram í Reykjavík. Ungmennasamband Eyjafjarðar átti þar einn þingfulltrúa og að þessu sinni var það gjaldkeri stjórnar, Einar Haf, sem var svo heppinn að fá að flugviskubitast suður yfir heiðar til að sitja sveittur undir umræðum, ályktunum og tillögum um framtíðarskipan íþróttamála hérlendis með helstu forkólfum íþróttahreyfingarinnar. Persónulega þótti mér skautað létt yfir nokkur mál, sérstaklega af hálfu Skautasambandsins. Aðrir létu kylfu ráða kasti, þá einkum og sér í lagi fulltrúar Golfsambandsins en málflutningur Knattspyrnusambandsins missti marks. Hvar var ég á meðan? Nú ég var bara úti að aka með fulltrúum Akstursíþróttasambandsins. Ekki var það nú úr háum söðli að detta, ekki frekar en hjá fulltrúum Landssambands hestamanna. Þinginu lauk með kosningum og pinnamat seinni part laugardags. Ég beið hins vegar ekki boðanna, kom mér burt úr umferðaröngþveitinu og stressinu og hélt aftur heim í Svarfaðardal – dal þann er þykir fegurstur dala á Íslandi.

Þessa dagana standa yfir framkvæmdir við nýjan upphitaðan gervigrasvöll á Dalvík. Fyrirhugað er að völlurinn verði tilbúinn síðar í sumar og mun hann kosta einhvers staðar á bilinu 200-300 milljónir króna þegar allt er talið. Þess er þá væntanlega ekki langt að bíða að nýr upphitaður og yfirbyggður knattspyrnuvöllur rísi við Rima í Svarfaðardal, á heimavelli hins fornfræga og glæsta félags Umf. Þorsteins Svörfuðar. Núverandi heimavöllur félagsins, hinn snarrótarskotni Glæsivöllur eða Field of Glory, er vissulega erfiður heim að sækja en hann er reyndar afar erfiður bæði fyrir heimaliðið og gestaliðið. Stjórn félagsins telur að hægt sé að koma upp nýjum velli sem standist allar nútíma kröfur á mun ódýrari hátt en fyrirhugað er á Dalvík. Notaður verður dúkur sem strengdur verður frá þakskeggi félagsheimilisins og hann festur í trén hinum megin vallarins – þar með er yfirbyggingin komin. Flóðlýsing verður í formi ljósastauranna sem standa við heimkeyrsluna í Húsabakka – þurfum bara aðeins öflugri perur. Grasið verður sennilega bara grænn sólpalladúkur úr Húsasmiðjunni. Kostnaðaráætlun gerir ráð fyrir að framkvæmdin kosti um 157 þúsund krónur og verður hún að fullu fjármögnuð með sjoppusölu á næstu dansleikjum auk smávægilegrar blómasölu um Hvítasunnuhelgina. Þó svo að vallaraðstæður verði bættar frá hinni gegnblautu og harðsnúnu snarrót sem nú prýðir völlinn er ólíklegt að keppnisleikjum á vellinum fjölgi enda er jú aðalmálið að vera með og vera með æfingar – en keppa ekki. Svona eins og við höfum gert í Júróvísíjón söngvakeppninni undanfarin ár. Það er hins vegar önnur og mun dýrari saga.

Duldar auglýsingar njóta sívaxandi vinsælda, bæði hjá fyrirtækjum, neytendum og ekki síst hjá þeim áhrifavöldum sem verða þeirrar gæfu aðnjótandi að fá gefins hinar duldu vörur og hina duldu þjónustu sem þeir greina frá á samfélagsmiðlum. #ad #samstarf. Ríkisskattstjóri hefur sérstaklega gaman af þessu enda er þarna kominn möguleiki á nýrri tekjuauðlind fyrir hinn sísvanga ríkiskassa. Skattleggja þessar gjafir og þennan dulda ágóða í drasl, það ætti að lækka rostann í þessu liði sem glennir sig berrassað framan í mann á Instagram drekkandi orkudrykki, keyrandi á nýjum bílum eða sólandi sig í útlöndum. Svei þessu öllu saman. Er ég öfundsjúkur? Kannski, en það er líka allt í lagi. Heiftin og öfundsýkin knýja mig áfram til góðra verka hér á bloggsíðunni. Það er ekki skattskylt.

Eitt umfangsmesta samsæri seinni tíma er vafalaust tilraun öryrkjans undirförla Báru Halldórsdóttur til að klekkja á þingmönnum Miðflokksins og raunar fleiri opinberum persónum. Ekki nóg með að hún hleraði samtal þeirra á Klausturbar án leyfis heldur eitraði hún fyrir Gunnari Braga þannig að hann týndi fötunum sínum og fór í 36 klukkustunda algleymi. Þá réði hún þrautþjálfaðan rússneskan njósnamjaldur til að leka upplýsingunum til óvina okkar í Evrópu. Trúlega tengist það umræðum um þriðja orkupakkann. Hversu lágt er hægt að leggjast eiginlega? Bára ætti bara að skammast sín fyrir að reyna að koma óorði á þingmennina okkar með þessum hætti, þeir sem vart mega vamm sitt vita. Bára var auðvitað ekki ein að verki, grunsamleg kona með skopparakringlu og ljóðabók kemur líka við sögu í þessu máli – bara spurning nákvæmlega með hvaða hætti og þá hvers vegna?

Yfir öli Bára við barinn lengi sat
upp tók klúrt og rotið drykkjuskvaldur.
Atburðirnir allir víst voru bara plat,
öllu stýrði norskur njósnamjaldur.

Þess má til gamans geta að búningar Hatara í Júróvísijón eru búnir til úr 100% íslensku höfuðleðri.

Einar keðjaður.

Tilvitnun dagsins:

Allir: SAMSÆRI!!!

2 thoughts on “Orðið mun sigra”

Skildu eftir svar við Gunnar Þórir Hætta við svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *