Orðin við gráturnar

Kristilegu lesendur.

Þetta er vissulega mjög sorglegt en sorglegasta degi ársins getur þó varla lokið (þó svo að tæknilega sé honum lokið) án þess að bloggarinn Einar Haf auki enn á þjáningar sínar og lesenda sinna og negli í eins og eina bloggfærslu – að þessu sinni í samvinnu við Biskupsstofu. Meðan áhrifavaldar Íslands fara til útlanda í boði ferðaskrifstofa og auglýsa hinn ýmsa bráðnauðsynlega varning sem varðar leiðina til betra lífs mun áhrifavaldurinn Einar Haf auglýsa Þjóðkirkjuna og kristin gildi. Blóð Krists, bikar lífsins, oblátur og með því hér rétt á eftir en fyrst þetta.

Páskahátíðin er mesta hátíð í kristnum sið, þegar við minnumst síðustu kvöldmáltíðarinnar, krossfestingarinnar, upprisunnar og sigurs lífsins yfir dauðanum. Hvernig fer þetta svo allt fram? Með stanslausum gleðskap, partístandi, sumarbústaðaferðum, tónleikum, bingóspilum og páskaeggjum. Ekki má þó gleyma kirkjuferðum, bænastundum og Passíusálmum. Sem vilja reyndar stundum gleymast – svona í neysluóðu samfélagi nútímans. Skammist ykkar bara heiðingjarnir ykkar. Upp upp mín sál og allt mitt geð – en ekki er víst að þið komið öll með.

Við sannkristnir menn stöndum oft frammi fyrir erfiðu vali í hinu daglega lífi; milli hins æskilega og hins óæskilega. Í gærkvöldi stóð ég til dæmis frammi fyrir erfiðu vali. Annað hvort að fara í messu í Tjarnarkirkju eða í Barsvar spurningakeppni í Menningarhúsinu Bergi. Á öðrum staðnum var ég með tryggingu fyrir oblátum og áfengu blóði Krists en á hinum staðnum var eftir meira áfengi að slægjast án tryggingar þó. Ég er bara mannlegur og fór því á óæskilegri staðinn – gegn betri kristilegri vitund. Samviskubitið beit þó ekki meira á mig en svo að fyrir rest urðum við Björn Snær frændi ásamt tveimur öðrum liðum í efsta sæti spurningakeppninnar og þökk sé óheppni minni í ástum var ég heppinn þegar kom að spilunum, dró hjartakónginn og viti menn….við unnum bjór, rauðvín og páskaegg. Hvernig held ég upp á þennan árangur? Nú auðvitað með því að loka mig inni og skrifa þessa bloggfærslu þar sem ég fordæmi hömlulausa skemmtun og stóðlífi annarra um páskahátíðina. Skammist ykkar bara heiðingjarnir ykkar. Upp upp mín sál og allt mitt geð – er þetta ekki lína sem ég var kominn með?

Fjölmargir létu krossfesta sig í dag til að minnast þjáninga Jesú Krists á Golgatahæð á sínum tíma. Þetta kemst alltaf í fréttirnar og fyrir vikið þjáist ég þegar ég sé þetta í sjónvarpinu. Ekki veit ég hvernig naglar eru notaðir við þetta í dag en mér skilst að á tímum Jesú hafi menn verið að vinna með fírtommu galvaníserað. Það minnir mig á það, hefur einhver séð naglaklippurnar mínar?

Pílagrímsferðir, passíur og píslargöngur eru partur af páskunum, hvað eru mörg pé í því? Vert er að halda í gamlar hefðir sem annars myndu glatast fyrir fullt og allt. Passíusálmar Hallgríms Péturssonar eru afar gott dæmi um þetta. Stórbrotinn kveðskapur í 50 hlutum um síðustu daga Jesú og þá dramatísku atburði sem áttu sér stað á þeim umbrotatímum sem þá ríktu. Hvers vegna var Jesú krossfestur? Grimm örlög besta töframanns allra tíma – og fyrsta áhrifavaldsins. Ég held að fólk hafi einfaldlega ekki verið tilbúið fyrir boðskap hans og fagnaðarerindi í þá daga – auðvitað allra síst ráðamenn eins og sagan sýnir. Hvernig yrði Kristi tekið í dag væri hann hér á meðal vor? Sennilega myndi hann því miður falla í skuggann af einhverjum flennifleygnum sólbrúnum varabólgnum rassafylltum áhrifavaldinum en þó hef ég trú á að hann næði yfir 100 þúsund lækum á instagram ef hann myndi setja inn mynd af sér gangandi á vatni. Það þykir alveg jafn flott í dag og það þótti í gamla daga.

Fyrir skemmstu fór ég í sauðfjárræktarferð ásamt fleiri kindarlegum Svarfdælingum og áhangendum þeirra sem flestir voru sauðir. Viðeigandi. Ferðin var hin ágætasta og menn bókstaflega drukku í sig fróðleikinn. Fyrst í litlum skömmtum en undir það síðasta úr hálfs líters glösum. Farið var í Fljótin og Skagafjörð og á heimleiðinni var komið við í bruggsmiðju Kalda á Árskógsströnd. Endapunkturinn var Göngustaðakot í Svarfaðardal. Hvað lærði ég svo í þessari ferð? Jú ég lærði það helst að áfengisneysla og gítarleikur fara ekki alltaf saman, allra síst þegar gítarleikarinn er drukknasti maðurinn í partíinu. Hvernig kemur það sauðfénu við? Æi ekki vera með þetta jarm alltaf hreint.

Vantar ykkur meiri heilagan anda og kristilega fyllingu í líf ykkar og vitið þið ekki hvað þið eigið að gera um páskahátíðina? Sækið þá Urðakirkju heim, fræðist um trúarleg gildi, svarfdælska kirkjubyggingarlist og úðið í ykkur piparhúðuðum oblátum. Varahringjarinn tekur slagara á borð við Ring my bell, Clocks og Klukknahljóm og þá verður hægt að leika á nýtískulegt rafmagnsorgel gegn vægu gjaldi. Þið leikið hins vegar ekki á mig; það sleppur enginn út án þess að borga. Trúin flytur fjöll en aðeins gegn sanngjarnri þóknun. Þetta hljóta allir að geta skilið.

Í dag var keppt í hinni árlegu kristilegu krossfit keppni á Golgata hæð – í boði Colgate. Keppt var í nokkrum greinum, þar á meðal krossfestingum, hreystigreip, píslargöngu og upphýfingu…….upprisu. Annie Mist vann keppnina, að launum fékk hún syndaaflausn og páskaegg sem mörgum fannst reyndar algjör synd. Sem betur fer er Annie synd og því verða engir frekari eftirmálar af þessari keppni.

Neysluóð er okkar þjóð
ei fær flúið háska.
Nammiflóð fær krakkastóð
verpi ég eggjum páska.

Þess má til gamans geta að Hallgrímur Pétursson hefði aldrei samið Passíusálmana hefði hann ekki verið á fullum listamannalaunum.

Einar trúaður trúmaður.

Tilvitnun dagsins:

Allir: DÍSES KRÆST!!!

One thought on “Orðin við gráturnar”

Skildu eftir svar við Gunnar Þórir Hætta við svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *