Orðin sjaldséðari en hvítir hrafnar

Fráhverfu lesendur.

Það er svo sannarlega óhætt að segja að ég, sem geng undir nafninu bloggarinn Einar, Einar Haf(sjór) af fróðleik, Einar einstaklega einstaki, Einar út í horni eða það sem konur vilja ekki vera hafi uppfyllt heitustu óskir margra síðasta mánuðinn eða svo og grjóthaldið kjafti hér á öldum ljósvakans. Þetta þykir mörgum hafa verið ágætis tilbreyting en ekkert varir að eilífu og ekki þessi þögn heldur. Engar áhyggjur, þessi inngangur varir heldur ekki að eilífu. Held ég.

Ársþing Ungmennasambands Eyjafjarðar var haldið í gærkvöldi. Samkvæmt skýrslu stjórnar var þetta 98. ársþingið sem haldið er frá upphafi vega – sem þýðir annars vegar að upphaf vega var fyrir ansi löngu síðan og hins vegar að ég hef setið sem gjaldkeri stjórnar UMSE á yfir 10% allra ársþinga sem haldin hafa verið. Einhverjir myndu segja að nú væri mál að linni og komið nóg. Ég var kominn á þá skoðun sjálfur en þegar ég hafði klárað að gera ársreikning ársins og séð neikvæða rekstrarniðurstöðu í fyrsta sinn í lengri tíma ákvað ég að axla ábyrgð og neita að segja af mér – heldur láta kjósa mig sem gjaldkera í tvö ár til viðbótar. Aukinheldur höfðu margir komið að máli við mig í aðdraganda þingsins og ég fann afar mikinn meðbyr. Ársþingið gekk með ágætum, nokkuð var um ræður og umræður og þá var kjötsúpan hreint afbragð. Nú þegar ég hef endurnýjað umboð mitt geri ég ráð fyrir að spreða með fjármuni sambandsins líkt og verið hefur og bera svo í bætifláka fyrir óráðsíuna þegar það er borið undir mig. Ég bý mig að vísu undir það að nú harðni á dalnum og sultarólin herðist, áður en að eyða þarf peningum á ný til að halda upp á 100 ára afmæli UMSE sem er yfirvofandi. Næsta verkefni mitt verður að leggja fram ársreikning Umf. Þorsteins Svörfuðar. Þar er myljandi gróði og bullandi hagnaður og ef að líkum lætur mun ég axla ábyrgð á því einnig með því að sitja áfram sem gjaldkeri. Hvað með samkomuhúsið Höfða? Jú ég setti saman ársreikning þar og yppti svo öxlum án ábyrgðar. Þess má geta að gerviaxlirnar frá Össuri eru allar með 7 ára ábyrgð.

Ríkissáttasemjari stendur í ströngu þessa dagana þar sem leitað er lausna á hinum fjölmörgu kjaradeilum sem tröllríða þjóðfélaginu. Illa hefur gengið að ná aðilum málsins að samningaborðinu. Það var fyrirséð fyrir lifandi löngu að semja þyrfti um kaup og kjör en svo virðist sem það sé fyrst núna að eitthvað sé farið að ræða þau mál af alvöru. Engin augljós lausn virðist í sjónmáli. Verkföll og vinnudeilur virðast vera veruleg vá og voðalegt væl og ég má víst ekki vamm mitt vita. Hve mörg vöff eru í því? Samkvæmt heimildum bloggsíðunnar gera VR og Efling kröfu um að Hatrið muni sigra en Samtök Atvinnulífsins geta ekki elskað neinn. Ríkissáttasemjari er All out of luck og þjóðin spyr; Is it true? Margir vildu Nínu kveðið hafa. Málið fer þó fyrst í hund og kött ef dýralæknar fara í verkfall, af augljósum ástæðum.

Nú á enn einu sinni að reyna að fá það samþykkt á Alþingi að koma bjór og léttvíni í matvörubúðir. Vitleysan ríður ekki við einteyming á þeim bænum og ekki reiða þeir vitið í þverpokum þingmennirnir sem heillast svona af þessum vafasama málstað. Veit þetta lið ekki að það á að þurfa að hafa fyrir því að kaupa áfengi? Það á að þurfa að fara í sérstakan verslunarleiðangur í þar til gerða vínbúð til þess og það á að vera vandlega undirbúin aðgerð að versla áfengi. Fólki á ekki bara að detta það sí svona í hug þegar það er statt í einhverju búðarrápi að kaupa í matinn að nú sé rétt að kaupa áfengi. Verði aðgengi að áfengi aukið verður það upphafið af endinum. Vitið þið til. Þjóðfélagsskipanin fer öll á skjön. Þið hélduð að þetta væri slæmt nú þegar en ekki mun það batna. Einkaneysla mun aukast, skuldir heimilanna vaxa og verðbólgan fara af stað. Mælirinn verður bókstaflega fullur. Bara að hugsa um þetta gerir mig sótsvartan….af bræði. Svona fyrst ég er byrjaður þá mætti líka koma öllum svona líkamsræktarvörum á borð við próteinduft, orkustykki og gagnslausa vítamínbelgi í sérstakar verslanir og burt úr matvörubúðunum. Þá er þetta ræktarlið ekki alltaf að þvælast fyrir manni þegar maður er að reyna að komast í sælgætisrekkann.

Verði vín leyft í matvörubúðum er það sjálfsögð krafa okkar stuðningsmanna vínbúðanna að matvara verði seld í vínbúðunum til að vega upp á móti þessu. Skór eiga að vera í skóbúðum, sumar í sumarbúðum og fangar í fangabúðum. Röð og regla á öllu. Það er draumurinn.

Um síðustu mánaðarmót vantaði mig far úr vinnunni á Akureyri og heim í Svarfaðardal. Ég reddaði mér með því að taka rútuna frá menningarhúsinu Hofi og áleiðis til Dalvíkur seinni part föstudags. Á leiðinni var að vísu stoppað í rúma sex klukkutíma í bruggsmiðju Kalda á Árskógsströnd og smakkað á öllum mögulegum tegundum bjórs en síðan var ferðinni haldið áfram eins og nánast ekkert hefði í skorist. Ef þið trúið mér ekki þá getið þið bara skoðað alla helstu fréttatíma og sjónvarpsþætti frá þessum degi en ég kom fyrir í þeim öllum. Minnir mig. Í kvöldfréttum Stöðvar 2 var ég edrú, í kvöldfréttum RÚV var ég orðinn mildur en í föstudagsþættinum á N4 var ég farinn að drafa. Við komuna til Dalvíkur hitti ég fyrir nokkra af helstu dag-, kvöld- og næturdrykkjumönnum byggðarlagsins og voru það fagnaðarfundir á vissan hátt. Þeir voru alveg sammála mér um það að skerða þyrfti aðgengi að áfengi en það varð reyndar ekki niðurstaðan fyrr en komið var á flöskubotn eða þar um bil.

Um síðustu helgi var messað í Urðakirkju. Fyrirfram var það sérstaklega auglýst að negrasálmar yrðu sungnir í messunni og dró það að nokkra guðhrædda Svarfdælinga og nærsveitamenn. Preis þe lord. Einhver sóknarbörnin komu gagngert til að komast í messukaffi húsfrúnna á Urðum en fleiri komu þó til að hlýða á hringingu varahringjara Urðakirkju, þ.e. þess er þetta ritar. Innhringingin í messuna þótti takast vel en um klassískan innhringitón var að ræða. Úthringingin var svona lala en með æfingunni þá kemur þetta allt saman. Þökk sé símafyrirtækinu mínu þá hringdi ég frítt á sunnudaginn var og þetta kom þar af leiðandi ágætlega út fyrir mig fjárhagslega.

Kræfur ég ákaft klukkum hringdi
kyrrð í dalnum engin var
prestur ótt og títt sig signdi
kórinn söng við gráturnar
sveif svo heim í terturnar.

Þess má til gamans geta að þegar loðnu sjómennirnir fóru í klippingu breyttust þeir í venjulega sjómenn.

Einar á kirkjuloftinu.

Tilvitnun dagsins:

Allir: VERKFALLL!!!

One thought on “Orðin sjaldséðari en hvítir hrafnar”

Skildu eftir svar við Gunnar Þórir Hætta við svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *