Orðin næstum æst og kæst

Þorralegu lesendur.

Velkomnir í þessa gallsúru og kæstu bloggfærslu, beint upp úr troginu. Hvort sem þið engist af rengi, svíður af sviðum eða bindið ykkar lundabagga ekki sömu hnútum og aðrir þá ættu allir að geta fundið eitthvað við sitt hæfi hér. Ekki vera svona súr á svipinn, súrmaturinn er bara svona eins og hann er.

Þorrablót Svarfdælinga fór fram á Rimum síðastliðið laugardagskvöld. Blótið fór að mestu vel fram og náðu Svarfdælingar að hlæja, syngja og dansa saman án vandkvæða langt fram á nótt. Þorrablótsnefndin tók sundfataklædd á móti blótsgestum en þema kvöldsins var Sundskáli Svarfdæla. Sú sögulega bygging verður 90 ára í ár. Hver veit nema haldið verði upp á afmælið með því að setja vatn í skálann svo hægt verði að stinga sér þar til sunds á ný? Það er önnur saga. Skemmtiatriði þorrablótsins voru í nokkuð föstum skorðum – og bar annállinn þar hæst. Einar Haf náði að troða sér inn á skemmtidagskránna með lymskulegum hætti en það er svo sem ekkert sem þarf að koma á óvart. Athyglissýkin og framapotið ríður ekki við einteyming á þeim bænum. Upptökur af herlegheitunum hafa nú verið gerðar aðgengilegar á youtube myndbandaveitunni og er það vel, enda um ómetanleg menningarverðmæti að ræða. Ólíkt því sem tíðkast í dag var þessi upptaka ekki leynileg heldur gerð með vilja og vitund þorrablótsnefndarinnar. Takk fyrir mig.

Þau eru æði mörg samsærin. Nýjasta samsærið ku beinast gegn Jóni Baldvini Hannibalssyni en svo virðist sem stór hópur fólks hafi tekið sig saman gegn honum og ætli sér að knésetja bæði hann og fyrirhugað afmælisrit hans – sem hefði eflaust orðið að metsölubók ef ekki væri fyrir allt þetta vesen sem er á manninum. Þetta samsæri er næst í röðinni á eftir samsærinu gegn Klausturþingmönnunum, samsærinu gegn Íslendingum í Júróvísíjón keppninni, samsærinu gegn íslensku sauðkindinni og samsæri lífstílsbloggara og áhrifavalda gegn bloggaranum Einari Haf. Svo er bara spurning hvert er ykkar uppáhalds samsæri? Maður er bara kominn með hælsamsæri af þessu öllu saman.

Það er nokkuð fyrirsjáanlegt að nú byrji ég að tala um innflutt pálmatré í plasthólkum úti á torgi í Reykjavík. Sum mál eru bara of augljós til að hægt sé að taka þau fyrir. Dagur Braggi Eggertsson borgarstjóri mun þó varla falla í sömu gildru og síðast og ekki eyða morðfjár í höfundarréttarvarinn erlendan garðagróður. Það er miklu skynsamlegra fyrir Reykjavíkurborg og borgarsjóð að smygla þessu inn í landið framhjá tollayfirvöldum, til dæmis í einni ferðinni heim frá Kanaríeyjum – það eru jú alltaf að falla til ferðir þangað suðureftir. Þökk sé Jóni Baldvin, innfluttu pálmatrjánum, óminnishegra Gunnars Braga og Hatara allt í platara í Júróvísíonkeppninni þá eru allir fyrir löngu búnir að steingleyma þessum bragga. Ég tala nú ekki um stráin.

Nú er til umræðu á Alþingi og jafnvel víðar að taka upp vegtolla vítt og breitt um landið svo hægt verði að fjármagna lífsnauðsynlegar framkvæmdir í vegakerfinu. Skiptar skoðanir eru um þessar hugmyndir innan þings sem utan. Sumir telja að það sé í hæsta máta ósanngjarnt að þeir sem keyra ákveðnar vinsælar og stórhættulega umferðarþungar leiðir borgi toll en þeir sem kjósi að fara aðrar leiðir og ótroðnar slóðir þurfi ekki að borga neitt. Gott og vel. Það verður aldrei hægt að gera öllum til geðs. Samkvæmt nefndaráliti samgöngunefndar munu þeir sem keyra á Guðs vegum þurfa að borga tíund í toll en þeir sem ferðast á eigin vegum þurfa ekki að borga neitt. Það hefur oft verið dýrt spaug að vera úti að aka en þó sjaldan eins dýrt og núna…rétt bráðum. Vegtollarnir munu ekki ná út um allt land og sums staðar verða útfærslurnar öðruvísi gangi hugmyndir samgöngunefndar eftir. Til að mynda mun enginn borga vegtoll ætli hann sér fram í Svarfaðardal eða Skíðadal. Aftur á móti mun Vegagerðin þurfa að borga hverjum og einum ökumanni fyrir að leggja það á sig að keyra þessa vegi þegar þeir eru upp á sitt besta síðsumars og á haustin. Það á eftir að útfæra nákvæmlega hvernig þetta muni gagnast við tekjuöflun ríkissjóðs.

Eins og áður segir tókst mér að komast inn á skemmtidagskrá þorrablótsins á Rimum. Hér koma nefndarvísur 2019.

Nefndarvísur 2019, samdar við lagið 
"Bráðum koma blessuð jólin".

Kynningunni fer að kvíða
kárna tekur gamanið.
Drekkjum sorgum, dettum íða,
þegar drattast nefnd á svið.


Nefndarkjörið hræddist Kalli
kveið að Erla færi burt -
Hennar bað er kom að balli,
bljúg hún varð að vera um kjurt.


Didda og Gummi dalinn byggja
dunda sínar skepnur við.
Lyf með fölskum tönnum tyggja,
tvísýnt finnst mér ástandið.

Hygg að undir uggum velgi
ástin heita fyrst í stað.
Á Ytra-Hvarfi er alltaf Helgi
Þórhildur hún elskar það.

Næturbrölt á nóttu einni
nefndarbarnið sett'af stað.
Kannski fáum burð í beinni
Björk og Rúnar sjá um það.

Jón og Björk til blótsins hlakka
bæði gerast æst og ör.
Hippar tveir á Húsabakka
hokra þar við kröppust kjör.

Dátt að eigin fyndni flissa
fráleitt er að heyra um.
Ásrún hlær sem öldruð hryssa
Addi lokar eyrunum.

Sigurhjört á sviðið kynni
svei mér hvort ég treyst'onum,
arkar um í afréttinni
allt á sokkaleistunum.

Klár er nefndin komin saman,
kæst er hennar gamanmál.
Ekki vera fýld í framan,
fögnum, syngjum, segjum skál!

Hægt er að horfa á skemmtatriði þorrablótsins á youtube. Góðar stundir.

Þess má til gamans geta að ég skrifaði þessa bloggfærslu dulbúinn sem erlendur ferðamaður. Þess vegna er þetta allt svona ill skiljanlegt.

Einar á hleri.

Tilvitnun dagsins: Allir: SKÁL!!!

2 thoughts on “Orðin næstum æst og kæst”

  1. Ég er enn að jafna mig reyndar, hlýt að fara að ná mér aftur á strik 🙂

Skildu eftir svar við Einar Haf Hætta við svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *