Orðin afar jólaleg og þá meina ég sko afar

Jólalegu lesendur.

Stekkjarstaur kom fyrstur, hann spilaði á hristur og gerðist síðan þyrstur. Giljagaur var annar, í amstri jólaannar hann sagði sögur sannar. Stúfur hét sá þriðji og ég á í vandræðum með að ríma við það.  Já nú streyma þeir heldur betur til byggða, úfnir og uppivöðslusamir með afar undarlegan ásetning í huga. Hverjir? Jólasveinarnir? Nei reyndar ekki, ég var að tala um þá sem ætla að semja um kaup og kjör fyrir verkalýðinn eftir áramót. 

Ég gleymdi að skrifa innganginn, mér var svo mikið mál að hefjast handa í þessari jólabloggfærslu. Eins og þið hafið eflaust tekið eftir hef ég látið afar lítið fyrir mér fara undanfarið; ég hef ekki birt neinar djarfar sjálfsmyndir á samfélagsmiðlum til að fá læk, þó svo að ég hafi meira en nóg af umframholdi til að flíka. Ég hef ekki verið áhrifavaldur í jólagjafainnkaupum landsmanna gegnum lífstílsbloggið mitt, enda er minn lífstíll ekki viðurkenndur í samfélagi lífstílsbloggara líkt og margoft hefur komið fram. Ég hef ekki sagt brandarann um að sjaldan sé ein báran stök til að falla í kramið hjá góða fólkinu, enda búið að segja þann brandara einum of oft – jafnvel á minn mælikvarða. Ég hef ekki kveikt í jólageitinni þrátt fyrir ótal mörg tilefni og ærnar ástæður. Loks hef ég  varla verið með öllum mjalla að kalla alla aðventuna en það er að vísu ekkert nýmæli. Nú er hins vegar komið að því að ég helli mér yfir lesendur í strangheiðarlegum jólaanda og þá er kannski rétt að fara að biðja Guð að hjálpa sér. Gangi ykkur vel með það, Guð er frekar mikið upptekinn á þessum árstíma.

Jólastúss landsmanna ríður ekki við einteyming. Eftirsókn eftir vindi er sjaldan meiri en einmitt núna og sumir hreinlega ganga af göflunum. Fáir þó meira en þeir sem versla í gaflabúðinni á Skólavörðustíg.  Sú búð er ekki til en mér fannst þetta bara passa svo vel inn í þessa efnisgrein. Jólagjöfin í ár ku vera upplifun og jólabókin fylgir þar fast á eftir. Jólagjafabréfin á einarhaf.is eru fullkomin í jólapakkann, það eina sem þið þurfið að gera er að opna Microsoft Word forritið, skrifa „Gjafabréf á bloggsíðuna einarhaf.is, gildir til 31.12.2019“, prenta skjalið út og setja í jólapakkann. Bréfið kostar aðeins 9.990 kr., ég tek bæði við klinki, seðlum og greiðslukortum. Búum Einari Haf áhyggjulaust ævikvöld. 

Hvað er svo að frétta af Grýlu og Leppalúða? Grýla gamla er býsna ern miðað við aldur og hún er ennþá óskaplega hrifin af börnum. En Leppalúði? Hann hefur verið töluvert mikið erlendis undanfarið þar sem hann var óvænt kosinn forseti Bandaríkjanna. Enginn veit sína ævina fyrr en öll er.

Svartasta skammdegið er kolsvartara en nokkru sinni fyrr í rigningarsuddanum og golunni. Glerhálir skaflar og svell endurspegla sálina. Jólaboðskapurinn varð undir Kóka kóla lestinni. Jesúbarnið kúrir í jötunni hjá innflutta nautakjötinu. Jólageitin glottir við tönn þar sem hún starir eins og naut á nývirki á ósamsettu húsgögnin í pappakössunum. Gjafapappírinn bíður eftir því að komast í óflokkaða ruslið og helst beint út í óspillta náttúru. Fiskikóngurinn skriplar á skötunni og Völundur er ennþá týndur og tröllum gefinn. Einar Haf fór á námskeið í skapandi skrifum á árinu en hann þarf greinilega að halda áfram að æfa sig sé horft til þessarar skelfilegu efnisgreinar sem nú er senn á enda. 

Nú standa yfir tilhleypingar í fjárhúsum landsmanna, sem segja má að sé nokkuð kindarlegt. Mér ber skylda til að greina frá þessu þrátt fyrir fjárleysi á mínu heimili enda ætla ég ekki að fara að brjóta einhverjar hefðir hérna. Svo er það líka í lögum bloggsíðu Einars Haf að það þurfi að greina frá fengitíma Íslands einu vonar; sauðkindarinnar, sama hvað það kostar. Gjálíf kindanna er fyrirboði stórhátíðanna sem framundan eru þó vissulega sé lágt risið á þeim hrútum sem hefur verið skipt út fyrir aðkeypt og kynbætt ofurmódel í stráum sæðingamanna. Hinir óheppnu og afskiptu hrútar farast úr greddu meðan sæðingarnar fara fram en sumir bændur hafa leyst þetta skemmtilega vandamál með því að láta hrútana lesa bloggsíðu Einars Haf. Fjölmargar rannsóknir hafa sýnt að óhóflegur lestur bloggsíðunnar drepur alla kynhvöt og hefur svæfandi áhrif.  Þessi lýsing gæti reyndar átt við Einar Haf sjálfan en það er önnur saga. 

Nú styttist í stysta dag ársins, vetrarsólstöður 21. desember. Það verður sem sagt jafn stutt gaman og vanalega þegar ég á afmæli. Vonir einhverra bjartsýnna standa til þess að ég muni koma til með að þroskast andlega með hækkandi aldri en ég tel að þessi bloggfærsla sýni fram á hið gagnstæða. Þó er aldrei að vita hvað gerist. 

Að lokum bið ég ykkur lengstra orða um að klæða ekki jólaköttinn. Hann er svo hryllilega vandlátur á föt og skapbráður í ofanálag, það fer honum ekki hvað sem er. Þess má geta að jólalagið hugljúfa ‘Klæddu jólagleði í þínu hjarta’ fjallar einmitt um þetta. 

Ég hlakka svo til að fá kerti og spil
og hám’í mig steikur og smjör
þar til að boðskapinn bljúgur ég skil
og bæst hefur á mig um kíló af mör. 
 
Að endingu óska ég ykkur öllum gleðilegra jóla og vona að nægjusemi og náungakærleikur muni einkenna allt ykkar hátíðarhald. Áramótahugvekja Einars Haf verður á sínum stað í lok árs enda er varla hægt að enda þetta ömurðarár öðruvísi. Hugvekjan verður unnin í samstarfi við virka í athugasemdum enda hafa þeir mest vit á flestu því sem gerst hefur á árinu sem er að líða. 
 
Jóla Einar.
 
Tilvitnun dagsins:
Skrámur: Jóli, þetta er ekkert fyndið hjá þér lengur!

3 thoughts on “Orðin afar jólaleg og þá meina ég sko afar”

  1. Frábært. Ég er virkur í athugasemdum… sá eini reyndar á einarhaf.is.

    Verður vonandi gott samstarf hjá okkur í kringum áramótin.

  2. Vel gert frændi. Að byggja nýtt fjós gæti gjörbreytt öllu hjá þér. Veit dæmi til þess fram til dala

Skildu eftir svar við Sigurvin frá Skeiði Hætta við svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *