Líður senn að orðum

Líður senn að lesendum, kæru lesendur.

Líður senn að Skerplu. Skerplan. Eins og Skerplan deyr. Skerpluskapur. Er það til? Nei. Skerplan. Mánuðurinn sem hefur gegnum aldirnar skipt sköpum þegar kemur að lífsafkomu Íslendinga og skorið úr um ástand þjóðarinnar. Hvernig vorar? Hvernig gengur sauðburður? Hversu gjöful eru fiskimiðin? Nær sprettan sér á strik? Bloggar Einar oft í mánuðinum? Hvernig gengur Íslendingum að jafna sig eftir Júróvísíjón-skellinn? Það hefur oft munað mjóu að illa fari á þessum árstíma en ævinlega hefur þetta þó blessast. Það er kannski ekki alveg rétt. Þetta hefur alls ekki alltaf blessast. Í gegnum tíðina hefur mannfall verið töluvert þegar vorin eru hörð; vosbúð, sultur, pestar, prestar og hallæri fóru illa með landann fyrr á árum. Hmm, var ekki eitthvað bogið við þetta? Skiptir ekki máli. Vonandi verður vorið blítt og sumarið líka. Og sem fæstar bloggfærslur frá mér.

Líður senn að sveitarstjórnarkosningum og eru ýmsir með hnút í maganum yfir því. Mis harkalega er tekist á í aðdragandanum en í grunninn eru nú allir sammála að mestu. Nema kannski þeir sem þrátta um löngu sprungið vegakerfi í Reykjavík. Hvað svo sem gerist eftir kosningar í Dalvíkurbyggð vona ég að það náist samstaða um það að hrófla ekki við hinum fornfræga malarvegi fram í Svarfaðardal. Holurnar eru eins og vinir manns og ekki vill maður fylla vini sína. Tja…eða hvað? Eitt helsta umræðuefnið fyrir kosningarnar almennt er sú staðreynd að þú getur flutt lögheimili þitt hvert á land sem er og inn á hvaða heimili sem er án þess að húsráðandi eða eigandi viðkomandi heimils hafi hugmynd um það. Ég komst til dæmis að því áðan að það eru tuttugu og sjö manns skráðir með lögheimili hér á bloggsíðu Einars Haf. Það þýðir bara eitt. Auknar útsvarstekjur fyrir mig. Jibbí.

Líður senn að slætti í Urðakirkjugörðum þar sem grösin hafa tekið á mikinn sprett síðustu sólarhringa. Eins og ég hef áður fjallað um sprettur grasið best á svokölluðum helgiblettum og á þeim stöðum þar sem vígðir menn hafa blessað allt í bak og fyrir. Í gamla kirkjugarðinum á Urðum stóð einu sinni kirkja. Hún fauk út í buskann í kirkjurokinu sem reið yfir Svarfaðardal og næsta nágrenni í september árið 1900 og lét fáa ósnortna. Hermt er að bóndinn á Urðum hafi bjargað altaristöflunni úti í Urðaengi með því að leggjast ofan á hana og varna því að suðvestan stormurinn tæki hana með sér niður í sveit og á haf út. Kirkja var endurbyggð á Urðum og vígð í júlí árið 1902. Allar götur síðan hafa ábúendur á Urðum setið uppi með sóknarkirkju og tilheyrandi óðagrasvöxt á lóðinni allt í kring. Ég mun gera mitt besta við að halda ástandinu í skefjum þetta sumarið eins og mörg hin fyrri sumur en það er ekki eins og ég hafi eitthvað betra að gera. Þegar ég þeysi um kirkjulóðina á úr sér gengnum sláttutraktor syng ég hástöfum:

Allt eins og blómstrið eina
upp vex á sléttri grund
fagurt með frjóvgun hreina
fyrst um dags morgunstund,
á snöggu augabragði
af skorið verður fljótt,
lit og blöð niður lagði,
líf mannlegt endar skjótt.

Og ég kemst í gríðarlegt stuð. Sjáið þið þetta ekki fyrir ykkur?

Líður senn að konunglegu brúðkaupi hjá bresku konungsfjölskyldunni. Auðvitað ætlar allt um koll að keyra vegna þess en ég kæri mig kollóttan. Þau Harry og Meghan munu ganga í hnapphelduna á laugardaginn og allt verður það sýnt í beinni sjónvarpsútsendingu um víða veröld. Eflaust er það gert gegn þeirra vilja því ekki kærir þetta fólk sig nú um mikla athygli. Vonandi verður Beta gamla í stuði og þá ætti ekkert að geta komið í veg fyrir gott partí. Þess má til gamans geta að sjónvarpsútsendingin frá brúðkaupinu er styrkt af Royal karamellubúðingi.

Líður senn að Hvítasunnunni, einni þriggja höfuðhátíða kirkjunnar, og taka því margir fagnandi. Blómaunnendur í Svarfaðardal gleðjast því væntanlega munu þeir geta keypt Hvítasunnublómvendi af Ungmennafélaginu Þorsteini Svörfuði á tombóluverði. Allt fyrir gott málefni auðvitað. Lengi má á sig blómum bæta og lengi er hægt að troða rós í hnappagatið þó lífið sé ekki alltaf dans á rósum. Vöndurinn kostar 2.000 krónur. Vinsamlegast hafið veskin klár.

Líður senn að heimsmeistaramótinu í knattspyrnu karla sem fer fram í Rússlandi í sumar. Þar ætla Íslendingar að reyna sig meðal fremstu knattspyrnuþjóða heims og eflaust taka víkingaklappið þess á milli. Borgarstjórinn í Moskvu, Rúskí Karamba, hefur lofað því að taka vel á móti Íslendingum og öðrum sem ætla að sækja Rússa heim í sumar. Aðstoðarborgarstjórinn, Vladimir Smirnoff, er sama sinnis. Eigum við Íslendingar einhverja möguleika? Já auðvitað. Það er alltaf möguleiki. Íslendingar ætla að taka þátt í heimsmeistarakeppninni í Rússlandi í sumar þrátt fyrir margháttuð og ítrekuð mannréttindabrot Rússa gagnvart minnihlutahópum og smælingjum. Öðru máli gegnir um Júróvísíjón keppnina þar sem Íslendingar hafa nú þegar svo gott sem komið sér saman um að keppa ekki í Ísrael að ári liðnu þar sem það sé ekki siðferðislega verjandi að vera með í einhverri glanskeppni í landi þar sem geysar blóðugt stríð við Palestínu. Það er sem sagt í lagi að vera með í sumu en ekki öðru og sumt er siðferðislega verjandi en annað ekki. Aðalatriðið er samt ekki að einblína á einhvern tittlingaskít og hugsa um siðferði. Það eru of miklir peningar í spilinu til þess. Aðalatriðið er að vera með. Ég hef reyndar haldið þessu fram í áratugi þegar kemur að hinum og þessum íþróttum og margs konar keppni en ævinlega hefur þetta sjónarmið mitt verið skotið í kaf. Ég hef heimfært þessa hugmyndafræði á ýmislegt fleira en íþróttir og keppni. Ég sagði til dæmis yfirmönnum mínum í vinnunni að það væri ekki aðalatriðið að vinna heldur að vera með. Þeir voru því algjörlega ósammála.

Halldór býsna brattur var
er blístrað’ann á konurnar
þó lækkaði á honum risið
þegar læknirinn fjarlægði brisið.

Þess má til gamans geta að á vefsíðunni arfgerd.is getið þið komist í beint tölvusamband við Kára Stefánsson þar sem hann segir ykkur allt af létta um hvort þið séuð með BRCA2 gen, estrógen, halógen eða einhver önnur varasöm gen. Vefsíðan er styrkt af fjármálaráðuneytinu og Bjarna Gen.

Einar líður senn.

Tilvitnun dagsins:
Allir: Líður senn!!!

2 thoughts on “Líður senn að orðum”

  1. Einar í Eurovision og til Ísrael. Það er vænleg formúla til sigurs.

Skildu eftir svar við Gunnar Þórir Hætta við svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *