Orð dagsins

Uppgjörslegu lesendur.

Dagur bollunnar. Dagur sprengingarinnar. Dagur öskunnar. Dagur elskenda. Dagur konunnar. Dagur á Þverá. Dagur borgarstjóri. Dagur tíminn. Dagur dómsins. Dagur bloggfærslunnar þegar Einar Haf tilkynnir brotthvarf sitt af öldum ljósvakans. Nei þetta er ekki svo góður dagur. Dagur minn. Rosalega eru dagarnir margir og misjafnir en allir eru þeir merkilegir út af fyrir sig. Dagur merkis. Mikið ofboðslega er þetta flottur inngangur, hannaðir þú hann sjálfur? Ég rata út. Og inn.

Landsréttardómarar hafa nú komist að þeirri niðurstöðu að Landsréttardómarar séu hæfir til að gegna störfum Landsréttardómara. Dómari sem fékk ekki að vera með í Landsrétti kærði þá ákvörðun til Landsréttar og komust Landsréttardómararnir að samhljóða niðurstöðu um eigið ágæti.

Vetrarólympíuleikarnir í PjongJang í Suður Kóreu standa nú sem hæst. Þar hefur verið brunagaddur undanfarið, sérstaklega í brunkeppninni. Í svigi var farið á svig við lög og því kom á óvart að Íslendingar náðu sér ekki á strik í þeirri grein. Svo var það víst einhver stór Svíi sem vann í stórsvigi. Annars er ég nú ekki alveg inn í þessu. Já og meðan ég man, sá sem vann í sleðakeppninni var víst ekki eins mikill sleði og álitið hafði verið. Keppni í skotfimi á skautum var frestað vegna skafrennings.

Dagarnir sem minnst var á í inngangi líða einn af öðrum. Daginn er nú tekið að lengja svo eftir er tekið en dagurinn hafði styst óhemju mikið fyrir áramótin eins og einhverjir muna. Nú virðist birtan hins vegar vera komin með yfirhöndina gegn myrkraöflunum en sú þróun hófst þegar ég átti afmæli. Það er ekki tilviljun. Hvernig mun þetta enda allt saman? Dagurinn lengist bara og lengist og skyrtan þrengist og þrengist. Lesandinn engist og engist og þvotturinn hengist og hengist…upp á snúru. Sérfræðingar spá því að dagurinn eigi eftir að lengjast alveg fram í júní en þá gæti allt farið aftur á verri veginn.

Þessa dagana eru hin ýmsu fyrirtæki og félagasamtök að gera upp árið 2017 á fjárhagssviðinu. Árið 2017 var auðvitað gert upp af mér í hinu víðfræga og árlega áramótaávarpi sem birt var hér á bloggsíðunni síðla á Gamlársdag eins og glöggir lesendur muna. Hið fjárhagslega uppgjör bloggsíðunnar liggur ekki fyrir að svo stöddu en gert er ráð fyrir áframhaldandi mígandi tapi og að verulegur vafi leiki á rekstrarhæfi. Ekki kvíða, tekjurnar eru allar andlegs eðlis. Spurningin er bara hversu vel gjaldkeri bloggsíðunnar heldur á spilunum. Ungmennafélagið Þorsteinn Svörfuður er líka kominn í uppgjörsferli. Helstu útgjöld ársins 2017 voru viðgerð á félagaskiptaglugganum en vegna bilunar í stormjárni gekk bölvanlega að opna gluggann eins og einhverjir fótboltaáhugamenn muna eftir. Sjoppa ungmennafélagsins skilar gróða líkt og hin fyrri ár enda er Einar Haf ennþá sjoppustjóri og er hann þar af leiðandi skuldbundinn til að kaupa að minnsta kosti 75% af öllu sínu sælgæti af sjoppunni, samkvæmt samningi þar að lútandi. Það er sem sagt útlit fyrir jákvæða rekstrarniðurstöðu enda ekki við öðru að búast. Spurningin er bara hversu vel gjaldkeri félagsins heldur á spilunum. Ungmennafélagið Atli er í uppgjörsferli sömuleiðis. Hið aldna samkomuhús félagsins, Höfði í Svarfaðardal fram, stendur fyrir sínu líkt og fyrri daginn þó svo að enginn sökkull sé undir húsinu. Það hefur staðið fyrir sínu síðan 1945 og stendur enn. Kaffihlaðborð og réttarball ársins 2017 komu afar vel út og eru væntingar um sambærilegan árangur árið 2018. Spurningin er bara hversu vel gjaldkeri félagsins heldur á spilunum. Ungmennasamband Eyjafjarðar er að sjálfsögðu líka í uppgjörsferli. Hið fornfræga héraðssamband stendur styrkum fótum þrátt fyrir að Einar Haf hafi verið þar gjaldkeri í 7 ár. Helsta álitamálið er sem fyrr skipting lottótekna og styrkveitingar en veitingar koma líka oft við sögu á fundum og þar kemur Einar Haf gríðarlega sterkur inn. Líkur eru á áframhaldandi jákvæðum rekstri. Spurningin er bara hversu vel gjaldkeri sambandsins heldur á spilunum. Úff. Síðast en ekki síst er Urðakirkja örugglega líka í uppgjörsferli. Engar áhyggjur, ég er ekki gjaldkeri þar. Hins vegar hef ég séð um slátt við kirkjuna í frístundum til fjölda ára og ég veit því vel að þar drýpur smjörið af hverju strái. Þess vegna þarf ég lítið sem ekkert að smyrja sláttutraktorinn.

Senn líður að úrslitum söngvakeppni Sjónvarpsins. Sumir telja söngvakeppnina vera vorboðann ljúfa ár hvert en í minningunni gat reyndar vorboðinn ljúfi sungið alveg þokkalega og það meira að segja lag sem greip mann við fyrstu hlustun. Ekki eitthvað bévítans uppstrílað gaul á bjagaðri íslensku sungið af ómálga áhrifavöldum úr snjallsímaveröldinni. Sem sagt ekki sáttur við þessi sex lög sem eru komin í úrslitin? Jú jú alveg eins – þetta er í lagi meðan Kúst&Fæjó er enn með í keppninni. Hinn óskapnaðurinn verður allur fluttur á ensku og því er verr. Það er eins og máltækið segir, allir vildu Sókrates sungið hafa.

Orðin velta fram um völl
víst má ekkert klikka.
Þórunn Erna þykir snjöll
hún þekkir Metallica.

Um daginn lenti ég í læk á facebook og blotnaði. Engar áhyggjur, það rennur af mér aftur.

Einar uppgerður.

Tilvitnun dagsins:
Allir: KÚST&FÆJÓ!!!

2 thoughts on “Orð dagsins”

  1. Ég skammast mín. Hélt að ég væri skuldlaus varðandi athugasemdir hjá þér kæri Einar. Tók mig alltof langan tíma að lesa þessa færslu.

Skildu eftir svar við Hákon Hætta við svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *