Ár við orðin móta

Góðir Íslendingar.

Það er til siðs og raunar alveg sjálfsögð kurteisi að staldra við um stund á tímamótum eins og þeim sem við nálgumst nú brátt. Af hverju að staldra við? Nú auðvitað til að horfa um öxl, horfa í eigin barm, horfa í annarra manna barma, barma sér, horfa í gaupnir sér og horfast í augu við þá staðreynd að aftur og enn á ný er árið um það bil liðið í aldanna skaut og aldrei það kemur til baka. Árið sem nú er næstum því liðið var kannski ekkert svo vel liðið þegar ég hugsa um það en þó verður maður að þakka fyrir liðið enda áliðið. Bloggarinn Einar Haf hefur haft það til siðs í fjölda mörg ár að kveðja árið með áramótahugvekju og er hugvekjan raunar orðinn fastur liður í fagnaðarhöldum margra landsmanna þegar húmar að áramótum. Venju samkvæmt byggir hugvekjan á áramótahugvekjum forseta Íslands, forsætisráðherra og nýárspredikun biskups en þó hef ég reynt að gæta þess að gantast ekki um of. Látum hina sprellarana um það.

Íslendingar eru þrautseig þjóð. Þjóð sem í gegnum árhundruðin hefur lifað af plágur og hörmungar, bægt burtu svarta dauða, berklum og kýlapest og unað sæl við sitt í náinni samvist óblíðra náttúruafla. Það er út af fyrir sig afrek að landið skuli hafa haldist í byggð öll þessi ár sé horft til þess hvað þjóðin hefur gengið í gegnum. Þetta hefur verið rætt í hverri einustu áramótahugvekju sem skrifuð hefur verið og alltaf kemur þetta fólki jafn mikið í opna skjöldu. Hvernig stendur á þessu? Er það óspillt fjallavatnið? Er það erfðasamsetningin og víkingablóðið? Er það landslagið? Eða er það menningararfurinn, Íslendingasögurnar og hin kyngimagnaða sagnahefð? Trúlega er þetta sambland af þessu öllu. Hvað með Jónas Hallgrímsson? Já hann kemur auðvitað sterkur þarna inn líka. En Ragnar? Nei, #ekkiveraRagnar.

Á því ári sem er næstum því alveg að hefjast verða liðin 100 ár frá því Ísland öðlaðist fullveldi. Enginn veit hvað þetta fullveldi þýðir í raun og veru og eflaust erum við búin að glata því þökk sé Evrópusambandinu en það má engu að síður halda upp á þessi tímamót með alls kyns gleðskap, kokteilboðum og ræðuhöldum. Ég mun að minnsta kosti taka þátt í því eins og hægt er. Jónas Hallgrímsson hefði orðið ótrúlega gamall á árinu sem er að líða og hann hefði orðið enn eldri á næsta ári hefði hann lifað. Hann hefði ekki slegið hendinni á móti gleðskap og kokteilboðum.

Ólafur Ragnar? Nei Ólafur ragnar ekki neitt. #ekkiveraRagnar.

Óheyrilega margar byltingar hafa átt sér stað á árinu sem er alveg við það að renna sitt skeið. Þessar byltingar eiga það flestar sameiginlegt að þeir þjóðfélagshópar sem mátt hafa þolað ofríki og kúgun hafa risið upp og haft hátt. Fyrr var oft í koti hátt…eða kátt. Smám saman hefur það komið í ljós að nánast hver ein og einasta kona hefur einhvern tímann orðið fyrir einhverju sem kalla mætti kynferðisleg áreitni, ofbeldi, kúgun eða einelti. Þetta er auðvitað hryllilegt ástand sem virðist eiga sér rætur djúpt í menningu okkar. Hvernig stendur á þessu? Er það óspillt fjallavatnið? Er það erfðasamsetningin og víkingablóðið? Er það landslagið? Eða er það menningararfurinn, Íslendingasögurnar og hin kyngimagnaða sagnahefð? Trúlega er þetta sambland af þessu öllu…….. Hmm…eitthvað var nú bogið við þetta. Jæja skítt með það. Þess má til gamans geta að á bloggsíðu Einars Haf er ekki mismunað eftir kyni, stétt eða stöðu. Allir lesendur eru settir undir sama hatt og fá yfir sig sömu leðjuna úr iðrum Einars Haf. Það er staðreynd. Nema náttúrulega Ragnar #ekkiveraRagnar.

Það ríkir góðæri í landinu. Að meðaltali. Aldrei hefur þjóðin haft það eins gott. Að meðaltali. Hagvöxtur hefur verið framar öllum vonum á árinu sem er næstum því alveg liðið. Að meðaltali. Laun hafa aldrei verið hærri og við höfum aldrei verið ríkari. Að meðaltali. Íslendingar hafa aldrei verið eins góðir í fótbolta. Að meðaltali. Hitastigið hefur aldrei verið eins hátt. Að meðaltali. Aldrei hafa tækifærin blasað eins mikið við okkur Íslendingum og nú á sviði menntunar, tækni og vísinda. Að meðaltali. Aldrei hafa meðaltöl verið notuð eins mikið til að sýna fram á hversu mikið lukkunnar velstand ríkir hér á landi. Að meðaltali.

Árangur Íslendinga er eftirtektarverður. Í Langtíburtistan og öðrum útlöndum er fólk forviða vegna þess hversu vel þessi litla þrautseiga þjóð norður í ballarhafi hefur komið ár sinni fyrir borð. Héðan koma sterkustu manneskjurnar, fallegustu manneskjurnar og gáfuðustu manneskjurnar. Hér er orkan sú vistvænasta í heimi og hér er vagga nýsköpunar og tækniframfara. Erlendir útlendingar setja svo sannarlega upp öfundaraugu þegar þeir renna mishýrum augum hingað norður eftir og botna hvorki upp né niður í því hvernig þetta í ósköpunum er mögulegt. Ekki mun öfund og agndofun (er það orð?) útlendinga minnka þegar Íslendingar verða orðnir heimsmeistarar í fótbolta eins og allt stefnir í árið 2018. Hvernig stendur á þessu? Er það óspillt fjallavatnið? Er það erfðasamsetningin og víkingablóðið? Er það landslagið? Eða er það menningararfurinn, Íslendingasögurnar og hin kyngimagnaða sagnahefð? Trúlega er þetta sambland af þessu öllu. Hvað með Jónas Hallgrímsson? Já hann kemur auðvitað sterkur þarna inn líka. En Ragnar? Nei, #ekkiveraRAgnar. Hmm…mér finnst ég vera farinn að endurtaka mig. Jæja, þetta er hvort eð er alltaf sama tuggan.

Talandi um tuggu, sauðkindin verður að fá að vera með í þessari hugvekju því annars væri þetta auðvitað ekki alvöru áramótahugvekja hvað mig áhrærir. Þessi stolta og tignarlega skepna sem spígsporar léttfætt um fjöll og firnindi og fær fólk til að gapa í forundran. Að vísu getur enginn lifað á því lengur að stunda sauðfjárbúskap og hér á Urðum kemur síendurtekið upp riðuveiki sem veldur niðurskurði og depurð meðal mannanna en engu að síður mun sauðkindin koma okkur til bjargar þegar á þarf að halda. Ullariðnaður og þjóðlegar heimaslátranir björguðu okkur í síðasta hruni og ég er viss um að það mun gerast aftur.

Góðir Íslendingar. Það má öllum vera það ljóst að það eru forréttindi að fá að upplifa enn ein áramótin og geta enn einu sinni lofað sjálfum sér og öðrum bót og betrun. Áramót eru tími uppgjörs við hið liðna og tími framsýni og hugdirfsku gagnvart hinni ókomnu tíð. Hvað boðar nýárs blessuð sól? Skáldið Matthías spurði sig að þessu fyrir svakalega mörgum árum síðan. Enginn veit hvað komandi ár ber í skauti sér. Það eina sem er víst í þessu lífi er dauðinn og skattar. Já og svo það að Bjarni Benediktsson er aldrei forsætisráðherra um áramót og fær þar af leiðandi aldrei að flytja þjóðinni áramótaávarp á Gamlárskvöld. Ekki frekar en Ragnar #ekkiveraRagnar.

Munu stafrænir áhrifavaldar, ómæld neysluhyggja, markaðsvæðing, matarsóun, ógætileg framkoma við náttúruperlur, eyðing regnskóga, persónudýrkun samfélagsmiðla, firring nútímamannsins, yfirvofandi kjarnorkustyrjöld, úrkynjun og sundurlyndi á tækniöld stuðla að hnignun og tortímingu nútímamannsins og jarðarinnar eins og við þekkjum hana? Já alveg örugglega. Vonandi mun það þó ekki gerast árið 2018. Það er margt verra en að fljóta sofandi að feigðarósi. Við skulum því bara gera einmitt það og láta okkur þetta allt í léttu rúmi liggja. Troðum stórsteikunum í smettið á okkur í kvöld, horfum á fréttaraupið og áramótaskaupið og mengum svo lofthjúpinn rækilega þegar líður að miðnætti í kvöld því ekki sprengja þessir flugeldar sig sjálfir. Skítt með afleiðingarnar, þær eru seinni tíma vandamál og verða því eflaust óþrjótandi efniviður í áramótahugvekjum framtíðarinnar.

Far vel gamla fúna ár
fer úr flösku tappinn.
Glöggt má greina á hvörmum tár
grætur Einar kappinn.

Að endingu þakka ég lesendum sem og öðrum landsmönnum til sjávar og sveita (og hvað sem þeir heita) fyrir árið sem er næstum því alveg liðið undir lok með von um að þið öll eigið ánægjuleg áramót í vændum og að nýtt ár færi ykkur öllum farsæld og frið.
Góðar stundir.

Forstofan á Bessastöðum 31. desember 2017.
Einar Okkar Hafliðason

2 thoughts on “Ár við orðin móta”

  1. Sem betur fer gleymdist ekki sauðkindin. Ég var farinn að hafa áhyggjur þegar líða tók á lesturinn.

Skildu eftir svar við Einar Haf Hætta við svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *