Elsku lesendur.
Já nú verður ekki lengur orða bundist. Nú er komið að því að ekki verður við unað mikið lengur. Við svo búið má ekki standa. Mælirinn er fullur. Það er ekki lengur hægt að sitja hjá og láta eins og ekkert sé. Hvað er ég eiginlega að tala um? Stjórnmálaástandið? Karlrembuna í þjóðfélaginu? Stöðu sauðfjárbænda? Vaxtastigið? Fjörskyldu Jóns Jónssonar? Nei, ég er enn að tala um helvítis geitina. Ég hlýt að komast yfir þetta á endanum.
Ef einhver missti af því þá er rétt að greina frá því að Íslendingar gengu til kosninga um síðustu helgi með afar góðum árangri ef horft er til fjölda flokka sem fengu mann á Alþingi. Mann? Já, það fengu reyndar nokkrar konur að vera með en það var auðvitað í algjörum minnihluta. Hvað komust margir feitir örvhentir kventransmenn ekki með yfirvaraskegg sem ættleitt hafa barn með hálfum útlendingi sem jafnframt er tónlistarkona á þing að þessu sinni? Ég veit ekki um neinn slíkan en það gengur bara betur á næsta ári þegar það verður örugglega kosið einu sinni enn vegna þess að allt hefur sprungið í loft upp vegna nýjasta lekans, leyndarhyggjunnar, hneykslisins eða einhverrar eldgamallar uppreistrar æru. Hvernig myndar maður stjórn þegar flokkarnir eru átta? Ljósmyndarinn þarf örugglega að nota mjög breiða linsu.
Ég er vitaskuld ennþá tilbúinn til þess að taka samtalið við þjóðina þó svo að kosningarnar séu að baki. Ég er enn tilbúinn til þess að vinna þvert á pólitískar línur til hægri og vinstri og þvert yfir miðjuna. Ég er sem fyrr boðinn og búinn að ræða við mitt bakland og sækja umboð mitt til grasrótarinnar. Ég mun eftir sem áður sækjast eftir því að ná breiðri skírskotun og hefja umræðuna upp yfir pólitískar átakalínur. Það sorglega er auðvitað að það nennir enginn að spá í þessu nú þegar kosningarnar eru búnar.
Hinir svölu, lattelepjandi hippsterar og himpigimpi gleðjast þessa dagana þar sem hin útúrfríkaða tónlistarhátíð Iceland Airwaves er nú hafin. Allt iðar þá af lífi og fjöri, að þessu sinni ekki aðeins í Reykjavík heldur líka á Akureyri. Fjölmargir tónlistarmenn koma fram og leika og syngja fyrir æsta gesti og má reikna með því að óvenju mikið líf verði í tuskunum. Nánast annar hver viðburður verður utandagskrár, eða offvenjú eins og þessir málheftu tónleikahaldarar vilja kalla það. Þetta minnir mig nú á það þegar ráðherrann svaraði fyrirspurnum offvenjú á Alþingi þarna um árið, það er önnur saga.
Þeir sem þekkja mig vita auðvitað að helsti hvati minn til að setja bloggfærslu á veraldarvefinn akkúrat núna er að í dag er 1. nóvember og jólarásin er farin í loftið. Í dag er líka allra heilagra messa og hrekkjavakan nýliðin. Allt er þetta gott og blessað en ég segi það reyndar bara af því ég er orðinn dofinn af jólaáróðrinum eins og allir aðrir. Í gamla daga hefði fólk verið rasskellt fyrir það eitt að minnast á jólin fyrir 20. nóvember. Hinn ameríski kókþambandi Santi Kláus sem ryður sér til rúms á umbúðum landsmanna í byrjun október hefur ekki verið yfir og allt um kring frá örófi alda líkt og margir halda. Allt er þetta markaðssetning og auðvitað svínvirkar hún. Akkúrat núna langar mig óstjórnlega mikið í Sveinka-Nocco með jólakókómjólk, piparkökum úr IKEA og könglum. Er eitthvað að þér Einar? Já en það er efni í mun lengri pistil en þennan.
Íslensk ungmenni sem syngja svokölluð hipp hopp og rapplög virðast ekki kunna grunnatriði íslenskrar stafsetningar. Eða hvað á maður að halda? Slaggur að njódda og livva? BOBA? Það er augljóst að stafsetningarkennslu hefur hrakað gríðarlega frá því þegar ég var í grunnskóla. Aldrei hefði ég komist upp með þetta. Það sorglega er er að þó svo að textarnir séu rétt skrifaðir og málfarið í lagi þá geta þessir bévítans rapparar ekki komið textanum almennilega frá sér. Þetta þarf alltaf að vera flutt í belg og biðu, með kolröngum áherslum og með einhvers konar bjöguðum framburði. Svei þessu öllu saman. Ef einhver myndi tala með þessum hætti dags daglega væri sá hinn sami lokaður inni á stofnun.
Það styttist í dag íslenskrar tungu. Við skulum vernda tunguna, það veitir ekki af eins og dæmin sanna.
Konur vilja komast að
karlagerið veinar
kvenþjóðin fer hvöss af stað
því konur eru Einar.
Það var nú eitthvað bogið við þetta allt saman. Það gerir þó ekkert til, þessi bloggfærsla var öll skrifuð offvenjú.
Einar utandagskrár og utan flokka.
Tilvitnun dagsins:
Allir: STJÓRN!
Þú virðist vera að fá mikinn lestur miðað við athugasemdirnar á Facebook en eins og oft áður þá er lítið um að lesendur skrifi athugasemdir við færsluna sjálfa.
Já þetta er góður punktur hjá þér. Það ógnar þér a.m.k. enginn sem lesandi nr. 1 🙂
Þyrftir að vera með fasta pistla í einhverju blaði!