Orðin íslensk

Tungulegu lesendur.

Þann 16. nóvember síðastliðinn, á 210 ára afmælisdegi Jónasar Hallgrímssonar, var dagur íslenskrar tungu haldinn hátíðlegur víða um land. Af þessu tilefni fór menntamálaráðherra þess á leit við mig persónulega að ég myndi (gegn mjög hárri þóknun) rita hnyttna og sniðuga bloggfærslu sem bæri með sér þann boðskap að varðveita og efla skyldi íslenskuna og koma með því móti í veg fyrir að tungan yrði erlendum áhrifum að bráð. Ég gat því miður ekki orðið við þessari beiðni ráðherrans en þess í stað verður bara skrifuð sama gamla bloggfærslan og alltaf með einhverju blandi af þvættingi, ambögum, blaðri og tuði. Það gengur bara betur næst.

Enginn grætur Íslending einan sér og dáinn. Svona orkti Jónas Okkar Hallgrímsson á sinni tíð. Þarna hefði getað staðið Einar í staðinn fyrir einan en látum það liggja milli hluta. Jónas var gríðarlega magnað skáld og auk þess bjó hann til orð sem við notum enn þann dag í dag og finnst ekkert sjálfsagðara. Tölva er til dæmis Jónasi að þakka. Hefði hann ekki fundið það orð upp værum við sennilega enn stödd í gagnaúrvinnsluhýsingartækinu eða einhverju álíka gáfulegu og þá væri nú kompjúter búið að taka yfir. Þetta gerði hann meira að segja löngu löngu áður en tölvan var fundin upp. Hmm…það er nú eitthvað bogið við þetta. Æi skítt með það. Það er ekki ofsögum sagt að tungumálið okkar, þetta pínulitla og krúttaralega örtungumál, eigi svo sannarlega undir högg að sækja um þessar mundir. Alþjóðavæðing enskunnar hefur ekki látið okkur Íslendinga ósnortna og nú þykir það móðins og flott að slá um sig með enskuslettum í daglegu tali. Sumir kunna reyndar lítið annað. Fussumsvei. Ég reyni að falla ekki í þessa freistingu en lendi þó í því einstaka sinnum að verða engilsaxneskunni að bráð. Fokk itt moþþerfokkers. Einmitt. Hvað er hægt að gera til að sporna við þessari þróun? Efna til málhreinsunarátaks? Flest mín mál fara svo sem í uppþvottavélina, híhí. Leiðrétta stafsetningu og málfar í öllum íslenskum rapptextum? Svona þar sem rapparar fá mikinn heiður þessa dagana fyrir að „bjarga íslenskunni“… Tökum dæmi um texta eftir hina góðkunnu og grunsamlega vinsælu JóaPé og Króla.

Bish eg spreða sjitt og looka frekar fresh og fly
Rookie player krómaður beint útúr Garðabæ
Fokk wit me gucci belti og skór homie
Hringd i mig og ég legg a hold homie
Eg með stil mothafokka skarta fint ay
Hef ekki tima fyrir fokkers eins og þig ay
Peningar tala svo eg hlusta ekki a þig mane
Sama sjittið, sama tonlist etta sjitt lame

Á íslensku gæti þetta hljómað svona:
Tæfa ég dreifi skít og lít út fyrir að vera frekar ferskur og fljúgandi
nýliði krómaður beint út úr Garðabæ.
Ríddu með mér Gucci belti og skór heimalningur.
Hringdu í mig og ég set þig á bið heimalningur.
Ég skarta því að vera með þeim sem enn eru móðurriðlarar.
Hef ekki tíma fyrir afturkreistinga eins og þig.
Peningar tala svo ég hlusta ekki á þig maður.
Sömu hægðir, sama tónlist, þetta er skítlélegt.

Já, ég held að þetta sé nú kannski ekkert skárra. Reyndar þarf það að fylgja með að þýðandinn hefur ekki yfirgripsmikla þekkingu á því slangri og tungutaki sem viðgengst hjá þessum þjóðfélagshópi sem kallar sig rappara en það kemur kannski með tíð og tíma. Hómí.

Bókmenntir munu stuðla að því að íslenskan lifi af og er þetta því hið besta mál, hvort sem fólk nennir svo að lesa allt það gríðarlega magn bóka sem kemur út eða ekki. Jólabókaflóðið skellur nú á okkur landsmönnum af miklum þunga líkt og stundum áður. Glæpasögur og reyfarar hvers konar eru sívinsælt lestrarefni og munu án efa koma margir Arnaldar og margar Yrsur undan jólatrjám landsmanna þetta árið. Hingað til hefur þó Hljóðritabók Seðlabankans notið mestra vinsælda en búið er að birta valda kafla úr bókinni í helstu fjölmiðlum undanfarna daga. Það sem er skemmtilegt við bókina er hið framúrstefnulega sjónarhorn þar sem lesandinn fær að verða vitni að afdrifaríkum, já og safaríkum einkasamtölum helstu ráðamanna þjóðarinnar og þeir vissu ekki einu sinni af því. Raunveruleikinn er oft lygilegri en skáldskapurinn sjálfur. Já og reyndar margfalt kostnaðarsamari fyrir skattgreiðendur. Það er aukaatriði samt.

Tölvur, snjalltæki og gervigreindarvélmenni framtíðarinnar munu vonandi koma til með að tala lýtalausa og góða íslensku. Vonandi mun okkur auðnast að vernda móðurmálið og hlúa vel að tungunni. Talandi um það, sóknarpresturinn hringdi hingað í Urði á degi hinnar íslensku tungu og spurði hvort hann gæti fengið að koma með eina tungu í reyk. Birtist prestur skömmu síðar með lafandi tungu sem var umsvifalaust sett í salt og hengd upp í reykingakofanum. Ég fór og athugaði með kjötið sem þar var og spurði hvað það væri að gera. Ekkert, sagði kjötið. Bara að hanga. Lengra varð það samtal ekki.

Samkvæmt útvarpsauglýsingu kom jólasveinninn í IKEA í gær og lét taka af sér sjálfur með saklausum og stjörfum börnum. Jólasveinninn? Með ákveðnum greini? Ég sem hélt að jólasveinarnir væru þrettán. Er kannski komið fram klofningsframboð, svona eins og þegar jólasveinarnir voru allt í einu orðnir einn og átta þarna um árið? Náðist kannski ekki ásættanlegur málefnasamningur? Þurfti sérframboð til að ná einhverjum sérstökum áherslum fram í jólagjafainnkaupunum? Eða er þetta bara enn eitt dæmið um græðgina í þjóðfélaginu? Allir jólasveinarnir þrettán vilja auðvitað fá að vera aðal. Ég hef þó hug á því að hafa samband við þennan sveinka með ákveðna greininum og segja honum að hundskast aftur í Grýluhelli og koma ekki aftur fyrr en um miðjan desember – og vera þá búinn að sameina jólasveinafylkinguna að nýju með málefnasamningi sem byggir á breiðri skírskotun, traustu baklandi og síðast en ekki síst þverjólitísku samstarfi og samstöðu.

Auður á kjörstaðinn mætti
með atkvæðisréttinn sinn.
Tilviljun ein því réði
að auður var kjörseðillinn.

Helgi á kjörstaðinn mætti
vatnið rann niður um svelgi.
Tilviljun ein því réði
að kosningin fór fram um helgi.

Einar á kjörstaðinn mætti
með hendurnar tandurhreinar.
Tilviljun ein því réði
að dömurnar kusu einar.

Þess má til gamans geta að það er alveg jafn árangursríkt að geyma tunguna í salti, súr eða reyk. Bara spurning um hversu mikið óbragð þú vilt fá á tunguna.

AlEinar konur hrímsyngja jólalögin í Hörpu alla aðventuna, bleslindar byllifyttur kveðast á í hléi. Ókeypis aðgangur.

Einar konur.

Tilvitnun dagsins:
Allir: ULLABJAKK!!!

One thought on “Orðin íslensk”

Skildu eftir svar við Gunnar Þórir Hætta við svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *