Orðin mín, orðin mín og þín

Jólageitarlegu lesendur.

Þá er hún hafin. Biðin. Endalaus bið. Sem bara styttist ei neitt. Aðventan. Aðventan sem felst í því að bíða eftir því að IKEA jólageitin brenni. Þessi uppstrílaði og afar eldfimi hálmrisi sem stendur nú fyrir framan eitt helsta vígi mammons á Íslandi og hreinlega bíður eftir því að fuðra upp. Þangað flykkjast æstir kaupendur og dansa hrunadansinn í kringum gullgeitina, vitandi það að bráðlega fer allt í kalda kol á nýjan leik. Jólin þín byrja í IKEA, mörgum mörgum vikum of snemma. Hvað annað.

Þessi málflutningur minn er á afar gráu svæði. Það mætti túlka þetta sem svo að ég sé að hvetja til ólöglegs athæfis. Þannig er það auðvitað alls ekki. Ég er bara að vonast til þess að geitin kveiki í sér sjálf svona eins og hún gerði með góðum árangri fyrir nokkrum árum. Svo hafa veðurguðirnir líka stundum séð um að tortíma geitinni. Auðvitað skiptir það ekki öllu máli hvernig þetta er gert heldur hvenær.

Ég var að fá þær upplýsingar að forsvarsmenn IKEA hafi fengið það í gegn nú rétt í þessu hjá sýslumanni að sett verði lögbann á frekari umfjöllun mína um IKEA jólageitina. Það gengur bara betur næst.

Kosningaskjálftar mælast nú á jarðskjálftamælum Veðurstofu Íslands. Skjálftavirknin er nokkuð stöðug og mælist allt frá Öreigum… eða Öræfum til Innviða. Vegna þess hversu stórt svæðið er eiga sérfræðingar í erfiðleikum með að rekja hvar upptökin eru. Líklegast þykir að skjálftavirknin eigi rætur að rekja í Leyndarhyggjufelli en nokkur kvikusöfnun hefur einnig verið í Trúnaðarbrestsbungu síðustu daga. Hvað mun þessi skjálftavirkni leiða af sér? Nú auðvitað gýs allt og springur í loft upp 28. október. Og við taka Móðuharðindin hin síðari. Mögulega. Kannski.

Bogi Lögbann….Logi Bergmann er nú kominn í eins árs lögbann samkvæmt úrskurði sýslumanns. Fram kemur í úrskurði sýslumanns að Logi hafi brotið gróflega af sér þegar hann vogaði sér að skipta um vinnu án þess að spyrja kóng eða prest. Í fréttum er þetta helst. Skamm skamm Logi.

Sláturtíð er nú langt komin. Og tókst að leysa bráðavanda sauðfjárbænda? Já það var nú ekkert mál, ríkisstjórnin var einfaldlega sprengd í loft upp og allt málið fór út um þúfur. Stundum er betra að gera ekki neitt og vona að vandamálin hverfi af sjálfu sér. Það hef ég gert í áratugi…með misjöfnum árangri reyndar. Hafið þið smakkað kjöt af nýslátruðum bændum? Það þarf ekki að bíða lengi eftir því.

Eins og fram hefur komið er gríðarlega erfitt að kaupa sína fyrstu íbúð. Ég er fyrir löngu búinn að benda á að fólk eigi þá bara að sleppa því og fara beint í það að kaupa sína aðra íbúð en það er eins og það sé ekkert hlustað á mig. Samt tel ég mig finna mikinn meðbyr og ég hef traust bakland sem ég er tilbúinn að taka samtalið við alveg eins og kom fram í síðasta bloggi.

Sjófarendur athugið. Varið ykkur á þráðlausu netunum. Vaktstöð siglinga.

Sálin glampar eins og gler
ég gleypi þetta þvaður.
Ofan í kassann krumpaður fer
kjörseðill útstrikaður.

Þess má til gamans geta að nú rétt í þessu setti sýslumaður lögbann á alla frekari umfjöllun um lögbönn sem tekið hafa gildi á Íslandi síðustu sólarhringa. Hvernig veit ég það? Ég las það í Samúel.

Einar gjósandi kjósandi.

Tilvitnun dagsins:
Allir: LÖGBANN!!!

2 thoughts on “Orðin mín, orðin mín og þín”

  1. Hvenær má búast við því að Einar Haf verði á lista flokks í kosningum?

  2. Maður veit aldrei, ég er því miður ekki í náðinni hjá lífstílsbloggurum og öðru svoleiðis valdamiklu fólki – eins og ég hef auðvitað margoft komið inn á í bloggfærslum mínum 🙂

Skildu eftir svar við Gunnar Þórir Hætta við svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *