Orð án stuðla og höfuðstafa

Góðu lesendur.

Já, eflaust eru margir pirraðir núna. Kannski brjálaðir. Sennilega alveg bandsjóðandi hoppandi vitlausir af bræði. Hvers vegna í ósköpunum? Út af stóra eggjamálinu? Stjórnarmynduninni? Donald Trump? Aktíveganistunum? Verðlaginu? Nei, alls ekki. Bara út af því að enn einu sinni ætlar Einar Haf að fara að tjá sig um öll þessi mál. Eins og fólk hafi ekki mátt þola nóg?

Stjórnarmyndunarviðræður standa nú yfir. Óformlega. Ýmsar þreifingar hafa átt sér stað síðustu sólarhringa. Óformlega. Ég hef viðað að mér ýmsum upplýsingum um þetta mál. Óformlega. Enginn er neinu nær og alltaf styttist árið í annan endann. Formlega. Hver ætlar að flytja ávarpið á Gamlárskvöld? Formlega. Ég bíð spenntur. Óformlega.

Stjórnmálamennirnir hugsa sitt ráð
sitjandi gljáfægðum rökstólum á
ef ríkisstjórn mynda þeir ekki í bráð
mun Dabbi Grensás berja þá.

Hmm…eitthvað var þetta nú skrítið. En hvað með íþróttamennina okkar? Eru þeir ekki að gera góða hluti? Efla sál og líkama og styrkja ungmennafélagsandann?

Í krossfit margir keppast um
að komast æðsta stallinn á
en hætti þeir ekki á sterunum
mun Dabbi Grensás lemja þá.

Æi, ekki fór þetta nú vel. Við getum þó glatt okkur við blómlega verslun hér á landi og nú stefnir í að jólaverslunin slái öll met. Það er þó jákvætt. Hvernig var þetta með blökkufössarann?

Versla fýrar tækin flest
föstudögum svörtum á
það var sem mér þótti verst
er Dabbi Grensás kýldi þá.

Já, kannski var þetta nú ekki alveg nógu gott. Ef verslunin klikkar þá höfum við þó að minnsta kosti ferðamennina til að stóla á. Þeir hafa nú aldeilis hlaupið undir bagga með okkur Íslendingum síðan í fjármálahruninu og létt verulega undir öllum efnahag. Við eigum þeim mikið að þakka – og þeir vonandi okkur fyrir góðan viðgjörning.

Ferðamenn um landið flakka
fjöldinn sækir okkur heim
ef fyrir sig þeir ekki þakka
mun Dabbi Grensás stúta þeim.

Já, þetta er sennilega frekar brothættur iðnaður þessi ferðamannaiðnaður. Hvað með hænsnabransann?

Verpa hænur eggjum enn
vistvænt eins og geta má
spældir eru margir menn
mun Dabbi Grensás spæla þá?

Ó nei, þetta var slæmt. Ég ylja mér allavega við það að nú er aðventan gengin í garð og jólin nálgast með öllum sínum kærleik og friði. Vonandi mun jólastressið ekki ná tökum á þjóðinni.

Í IKEA er geitin gamla dauð
úr ausunni var ekki sopið kálið
jólastressið upp úr sauð
og Dabbi Grensás gekk í málið.

Úpps. Mér er nú alveg hætt að lítast á blikuna. Hvað skyldu þeir nú segja við þessu í henni Ameríku? Hvað með ameríska drauminn?

Í Ameríku algjört prump
ógnar landi snauðu,
ef ekki róast Dónald Trump
mun Dabbi Grensás „skila auðu“

Ég skil. Djöfull væri ég til í eina pylsu núna til að gleyma þessum vandræðum öllum. Er það ekki bara sjálfsagt?

Grasbítarnir öskra á
sláturhússins glugga
hlaupi þeir ekki okkur frá
mun Dabbi Grensás við þeim stugga.

Ég skil…það má ekkert lengur.

Mér sýnist alveg sama hvert litið er. Allt er í uppnámi og óvissu og lausnin er alls staðar sú sama. Ofbeldi.

Vísnagerðin nú til dags
víst mun ríða mér á slig
hætti ég þessu ekki strax
mun Dabbi Grensás berja mig.

Hmm…nei ofbeldi leysir engan vanda. Ég ætla að forða mér. Bless.

Af gefnu tilefni er rétt að taka það fram að ég get unnið á breiðum grundvelli þvert á pólitískar línur. Ég hef sterkt bakland og er með breiða skírskotun en ég vil auðvitað reyna að auka samtalið við þjóðina og ná fram þjóðarsátt í fjölmörgum málum með beinu lýðræði, þingræðislegri umræðu og láréttu grasrótarstarfi.

Einar á flótta….undan sannleikanum.

Tilvitnun dagsins:
Allir: ÉG ER BRJÁLAÐUR….EÐA BRJÁLUÐ.

2 thoughts on “Orð án stuðla og höfuðstafa”

  1. Fínasta blogg hjá þér Einar. Gaman að sjá gamlan kunningja mæta aftur í vísurnar.

Skildu eftir svar við Gunnar Þórir Hætta við svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *