Orðin á skjálftavaktinni

Góðir lesendur.

Maðurinn sem reiðir ekki vitið í þverpokum. Maðurinn sem bindur bagga sína ekki sömu hnútum og aðrir. Maðurinn sem gengur ekki heill til skógar. Maðurinn sem teflir iðulega á tvær hættur. Maðurinn sem kastar allri skynsemi fyrir róða. Maðurinn sem lætur aðra finna til tevatnsins. Maðurinn sem veit hvar Davíð keypti ölið. Maðurinn sem allar dauðar lýs detta úr höfðinu á. Maðurinn sem flýtur sofandi að feigðarósi. Maðurinn sem ætti sennilega ekki að fá að halda úti bloggsíðu. Já, þið eruð kannski farin að átta ykkur á þessu.

Það getur verið afar hvimleitt að fá sínu ekki framgengt. Þetta veit ég mætavel – ég fékk því til dæmis ekki framgengt að fá aðstoðarmann til að sjá um að skrifa fyrir mig bloggfærslurnar þegar ég nennti því ekki. Því fór sem fór fyrir þessari síðu. Ég hef ekki þorað að sækja endurnýjað umboð lesenda til að halda áfram með þessa bloggsíðu – því ég veit alveg hvernig það myndi enda.

Það er vægt til orða tekið að segja að væst hafi um ákveðna stjórnmálamenn og stjórnmálaflokka undanfarið. Díses væst. Fréttamenn kjamsa á hverju málinu á fætur öðru, enda stendur til að halda alþingiskosningar í lok mánaðarins. Kjamsi kjamsi kjams. Átök í stjórnmálaflokkum fyrir opnum tjöldum eru eins og tertuhlaðborð fyrir ljósvakamiðla – og það er nóg til handa öllum. SDG vs. SIJ hefur verið fyrsta frétt nú um langt skeið; báðir þeir aðilar kannast eflaust vel við tertuhlaðborð. Af hverju segi ég það? Engin ástæða. Já en hvar á þessi feiti að vera? Í formannssætinu kannski? Veit ekki.

Vonandi tekst duglegu alþingismönnunum okkar að afgreiða öll stóru og mikilvægu málin núna fyrir kosningarnar. Hvaða stóru og mikilvægu mál? Nú málin sem er alltaf verið að tala um á þinginu? Hvaða mál eru það eiginlega? Jú það eru annars vegar starfsáætlun Alþingis og hins vegar fundarstjórn forseta. Vonandi tekst að afgreiða þessi mál nú í vikunni til hagsbóta fyrir almenning í landinu. Ég bíð.

Umtalsverðrar skjálftavirkni hefur orðið vart á mælum Veðurstofu Íslands undanfarna daga. Í fyrstu var talið að skjálftavirknin ætti upptök sín nálægt Kötlu en sérfræðingar hallast nú einna helst að því að um afar öflugan kosningaskjálfta hafi verið að ræða – og við munum víst enn eiga eftir að súpa seyðið af eftirköstunum.

Nú fögnum við átta ára afmæli hinna fleygu orða Geirs Haarde „Guð blessi Ísland“. Í sögubókum framtíðarinnar…eða öllu heldur þegar komandi kynslóðir gúggla þetta þá komast þær að raun um hvers konar vofeiflegir atburðir áttu sér stað í kringum þetta sjónvarpsávarp þáverandi forsætisráðherra. Fjármálakerfið bara spilaborgin ein og búið að hafa landsmenn, já og heiminn allan, að fíflum. Guði sé lof að svona er þetta ekki í dag – allt slétt og fellt og uppi á borðum nú þegar búið er að gera upp hrunið. Emmm….já, segjum það allavega.

Það er merkilegt með svokallaðar raunveruleikastjörnur, þegar raunveruleg vandamál steðja að þá trúir þeim enginn. Talandi um hana Kim okkar Kardashian Íslandsvin með meiru. Raunveruleikastjarnan knáa var rænd á hótelherbergi í París, bundin og kefluð og skilin eftir mörgum skartgripunum fátækari. Fólk er ekki fullt vorkunnsemi vegna þessa, öðru nær. Mörgu fólki virðist þvert á móti bara standa á sama og talar um að þetta hafi verið sviðsett og plat hjá Kim til að fá meiri athygli. Ég leyfi mér að efast, þetta fólk er nú ekki vant öðru en að vera jarðbundið, leysa úr sínum málum án þess að það krefjist mikillar athygli og koma til dyranna eins og það er klætt. Ef það er þá klætt yfir höfuð.

Frammar, Sjallar, Píratar
Þjóðfylking, Dögun og Kratar
Alþýðufylking, Húmanistar
Samfó, Björt Framtíð, VG-atar
Flokkur fólks, Viðreisn, hver platar?

Nei, ég held það gangi aldrei upp að vera með svona pólitískar vísur – þetta eru einfaldlega alltof mörg framboð til þess að þetta geti gengið upp.

Brátt skal kjósa um kosti óljósa
ei ég hrósa stöðunni.
Mun Katla gjósa og sverta ósa?
japlar Rósa á töðunni?

Tjah..pólitískar vísur eða ekki. Þetta verður sennilega aldrei upp á marga fiska.

Þess má til gamans geta að þessi bloggfærsla var rituð án þess að nokkur starfsáætlun þar að lútandi lægi fyrir. Það útskýrir allt þetta málþóf.

Einar yfir marklínuna…….eða ekki.

Tilvitnun dagsins:
Allir: Kjóstu mig!

One thought on “Orðin á skjálftavaktinni”

Skildu eftir svar við Gunnar Þórir Hætta við svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *