Orðin evrópumótuð

Innköstuðu lesendur.

Þá er stóra stundin loksins við það að renna upp. Íslenska landsliðið í knattspyrnu er á leið á sitt fyrsta stórmót. Það verður aldeilis gleði og gaman þá. Ég skal segja ykkur það.

Hmm…já en íslenska landsliðið í knattspyrnu hefur komist á stórmót áður, meira að segja tvisvar.

Já, en það voru kelling…..afsakið, það voru konur. Það telst þess vegna varla með. Ég meina, þetta hjá strákunum er miklu merkilegra. Þess vegna er hægt að horfa á æfingaleik Íslands og Lichtenstein í karlaboltanum í beinni útsendingu á aðalrás Ríkissjónvarpsins með tilheyrandi riðlun á línulegri dagskrá en kvennaleikur Íslands við Makedóníu í undankeppni Evrópumótsins fær sinn stað á Rúv 2 – svo að íþróttafréttir af íþróttakörlum á aðalrásinni fái nú að vera á sínum eðlilega tíma. Allt ósköp eðlilegt og eins og það á að vera.

Ungmennafélagið Þorsteinn Svörfuður lagði sín lóð á vogarskálarnar varðandi hlut kvenna í íþróttahreyfingunni þegar stjórn félagsins, á eftirminnilegan hátt, skipaði á aðalfundi konu í brennunefnd félagsins fyrir fáeinum árum. Þetta varð að vísu ekki til þess að fjölga konum í starfi félagsins – en það mátti reyna.

Alltaf þegar stórmót í fótbolta standa fyrir dyrum er barist hatrammlega um sýningarréttinn. Bloggsíða Einars Haf fór halloka enn eina ferðina. Stöð 2 átti ekki séns og RÚV strögglaði. Það var, öllum á óvörum, Síminn sem keypti sýningarréttinn. Hvern hefði grunað það á tímum sveitasímans að áratugum síðar væri Ísland að fara á stórmót og Síminn myndi sýna það í beinni útsendingu. Algjörlega galið.

Sauðburði er nú loks formlega lokið og líður þá að því að kindur haldi til fjalls. Þar verða þær vonandi flestar þar til þeim verður gefið leyfi til að koma heim aftur, um göngur. Kindurnar hafa verið látnar vita af því hvenær göngurnar eiga að vera og sættu þær sig flestar við þessa ráðstöfun – ég meina, ekkert sem kom á óvart svo sem. Önnur helgin í september, allt í lagi. Með því skilyrði að við fáum smá túnbeit í viðbót þegar við komum aftur….áður en börnin okkar fara á sláturhús. Þessi líking mun aldrei ganga upp.

Það er alltaf nóg um að vera í samkomuhúsinu Höfða. Nú um helgina var haldið sveitaball og mætti ég þangað að sjálfsögðu og stundaði mannlífsrannsóknir. Um næstu helgi standa svo velunnarar hússins fyrir sveru kaffihlaðborði þar sem öllu verður til tjaldað. Það verður sól og 15 stiga hiti og svei mér þá ef það verða ekki bara allir í hátíðarskapi. Ég geri ráð fyrir að þeir sem ekki eru staddir í Frakklandi að fylgjast með fótboltanum komi á kaffihlaðborðið – eðlileg krafa.

Og hvað er að frétta af forsetakosningunum? Ekki baun í bala held ég. Bara það jú að samsærið gegn Ástþóri Magnússyni heldur áfram að hans sögn. Og Davíð er með kosningaskrifstofu við Grensásveg. Það minnti á mig á ákveðinn Davíð sem hefur einmitt komið nokkrum sinnum fyrir hér í vísnahorninu. Skemmtileg tilviljun. Meira var það ekki.

Og svo veðrið maður.

Kosningarnar eru hlátur, grátur
kvíðinn sljóvgar tilfinningarnar
Dabbi er á Grensás, býsna kátur
skyldi hann kýla kjósendurnar þar?

Þess má til gamans geta að nánast allir flugumferðarstjórar lesa bloggsíðu Einars Haf í yfirvinnu.

Einar boltabulla.

Tilvitnun dagsins:
Allir: Bolti.

2 thoughts on “Orðin evrópumótuð”

  1. Eftir að hafa lesið þennan pistil þá fER maður bara´ð hUXa hvað það er sem skiptir máli í lífinu 🙂 🙂

  2. Glæsilegur Einar. Það er svo fínt að fá svona yfirlit um síðustu daga frá þér.

Skildu eftir svar við Gunnar Þórir Hætta við svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *