Borin orðin

Góðu lesendur.

Inngangur er fyrir plebba. Áfram með smjörið.

Er sauðburði þá lokið? Nei, það er ein eftir.

En hvað eru margir forsetaframbjóðendur eftir? Þeir ku vera níu. Samt fá bara tveir til fjórir að mæta í umræðuþætti og skiptast á skoðunum. Það er svo sem ágætt að grisja aðeins úr þessum fjölda. Ekki viljum við eyða okkar dýrmæta tíma í eitthvað rugl. Tja…nema ef vera skyldi að lesa bloggin hans Einars Haf. Lesendaþrautin að þessu sinni er: hvaða níu manns eru í forsetaframboði? Rétt svör óskast í athugasemdum.

Hlutlausasti fjölmiðillinn þegar kemur að forsetakosningunum er bloggsíða Einars Haf og næst þar á eftir kemur Morgunblaðið. Öll viljum við jú faglega og hlutlausa umfjöllun þegar kemur að þessum málum og skal þá á engan hallað.

Eldhúsdagsumræður fóru fram á Alþingi í gærkvöldi, eldhúskvöldsumræður sem sagt. Umræðunum var útvarpað og sjónvarpað í þráðbeinni línulegri útsendingu Rásar 2 og Ríkissjónvarpsins lögum samkvæmt og var áhorf töluvert – sérstaklega á þeim heimilum þar sem ekki nást aðrar sjónvarpsstöðvar. Hvað kom fram í umræðunum? Auðmýkt og hreinskilni? Minnisleysi? Ég man það ekki, ég ákvað að fara út í vorið í staðinn og telja kindur. Sem endaði auðvitað með því að ég sofnaði.

Íslenskt íþróttafólk gerir það gott þessa dagana. Strákarnir okkar í fótboltanum, stelpurnar okkar í sundinu, vöðvabúntin okkar í Krossfittinu, fituhlunkurinn okkar í málþófinu. Allt þetta og meira til eykur hróður lands og lýðs um veröldina. Hvernig stendur eiginlega á þessum svakalega góða árangri? Er það skyrið? Lýsið? Náttúrufegurðin? Eða eru það öll gömlu góðu húsráðin? Nei held ekki. Held þetta sé fyrst og fremst heppni. Já og auðvitað höfðatalan.

Ég var að lesa hérna í Mogganum nafnlausa frétt þess efnis að Guðni Th. hafi sagt eitthvað í hálfum hljóðum við eldhúsborðið heima hjá sér fyrir sjö árum síðan sem stenst enga skoðun og verða að túlkast sem afar óheppileg ummæli í ljósi forsetaframboðs hans. Skamm Guðni.

Ef þið voruð að velta því fyrir ykkur í hvað hin svokallaða „skuldaleiðrétting“ fór þá er svarið hér. Hún fór sem sagt í það að leiðrétta laun starfsmanna skattsins. Spæling.

Hneyksli vikunnar er hið árlega klósetthneyksli. Ferðamannastraumurinn ætlar að slá öll met og hvað gerum við? Setjum við upp klósett eða ferðakamra? Nei, við setjum upp skilti um að það sé bannað að ganga örna sinna hér og þar. Vandamálið hverfur varla við það. Ég þarf alveg jafn mikið að kúka þó það standi á einhverju skilti að ég megi það ekki. Og næsta klósett víðsfjarri. Svo um leið og eitthvað verður bannað og forboðið verður freistingin enn meiri. Hi, I’m John and this is my wife Sarah. We are from America. And we just pooped next to Gullfoss under the blue summer sky. Spectacular! Ég segi nú bara sjitturinn titturinn.

Vorboðinn ljúfi laumast í var
og lætur allt gossa á ósnortið land
á hælunum hangandi nærbuxurnar
hræðist ég mjög þetta fljótandi hland.

Þess má til gamans geta að nú á að einkavæða viðskiptabankana almennilega og í eitt skipti fyrir öll, ekki í einhverju svona flippi og hálfkæringi eins og í síðasta góðæri. Sjúkket – ég sem var farinn að óttast að þetta væri allt að fara úr böndunum hjá okkur aftur.

Einar genginn örna.

Tilvitnun dagsins:
Ferðamenn: Where is the next toilet?

One thought on “Borin orðin”

  1. Svarið við spurningu bloggsins er:

    Andri Snær Magnason
    Ástþór Magnússon (King Ástþór)
    Davíð Oddsson
    Elísabet Kristín Jökulsdóttir
    Guðni Th. Jóhannesson
    Guðrún Margrét Pálsdóttir
    Halla Tómasdóttir
    Hildur Þórðardóttir
    Sturla Jónsson

    Þakka annars fyrir mig.

Skildu eftir svar við Gunnar Þórir Hætta við svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *