29. lesendur.
Hlaupársdagur er dagur sem aðeins kemur á fjögurra ára fresti. Hann er sem sagt sjaldgæfur – alveg eins og góðar bloggfærslur frá Einari Haf. Hvers vegna er þetta svona? Þá er ég að tala um hlaupársdaginn en ekki bloggfærslurnar. Eigum við að athuga málið?
Heimildum á internetinu ber ekki að fullu saman um hvers vegna í ósköpunum verið er að troða inn á okkur aukadegi fjórða hvert ár. Sumar heimildir telja að þennan dag megi rekja allt aftur til ársins 46 fyrir Krist, þegar Rómverjum datt það snjallræði í hug að endurbæta hjá sér tímatalið. Einmitt, eins og einhver hafi verið að spá í því árið 46 fyrir Krist. Voru menn á þeim tíma ekki frekar uppteknari að því að telja niður þar til Kristur kæmi loksins? Bara 46 ár, ég hlakka svo til! Varla færu þeir að fjölga dögunum og lengja með því biðina? Rökréttara hefði verið hefðu þeir fækkað dögunum til að stytta biðina eftir Kristi. Skrýtið.
Önnur tilgáta um þennan dag er þannig að um mánaðarmótin febrúar/mars árið 1243 hafi komið gríðarmikið hlaup í Svarfaðardalsá í óvenjulegum leysingum sem þá urðu. Hlaup þetta olli ekki miklu tjóni og stóð aðeins yfir í einn dag. Samtímasöguritun var verulega ábótavant á þessum tíma enda voru bændur uppteknir við að skrifa lygasögur af frændum sínum og forfeðrum, svokallaðar Íslendingasögur, og fór allt kálfskinn sem til féll í að hýsa þá skáldsagnaritun. Ekkert pláss var eftir fyrir skrif um atburði líðandi stundar. Þegar frá leið fóru menn að deila um hvort þetta mikla og óvenjulega hlaup hafi orðið í febrúar eða mars mánuði. Til að sætta stríðandi fylkingar og koma í veg fyrir Sturlungaöld (sem varð að vísu ekki umflúin) ákvað þáverandi Hólabiskup að skjóta inn aukadegi og kalla daginn hlaupárdag – sem síðar varð að hlaupársdegi. Þar sem um sjaldgæft hlaup væri að ræða yrði þessi dagur þó aðeins á fjögurra ára fresti. Engin á hefur nokkru sinni hlaupið á þessum degi síðan þessir atburðir urðu, sem er nokkuð kaldhæðnislegt.
Ein söguskýring í viðbót um tildrög þessa dags er sú að höfundi vísunnar um lengd mánuðanna, Ólafi Guðmundssyni frá Sauðanesi, hafi vantað einhvern krassandi botn á vísuna. Hann var kominn með mjög góða byrjun, það er að segja Ap, jún, sept, nóv þrjátíu hver, einn til hinir kjósa sér. Febrúar tvenna fjórtán ber og …… svo komst hann ekki lengra. Ólafur vissi að hann væri með efnivið í höndunum sem myndi rata inn í allar dagbækur sem prentaðar yrðu á Íslandi næstu árþúsundin þannig að mikið var í húfi fjárhagslega að botna vísuna. Ólafur átti valdamikinn frænda sem á þessum árum sá um prentun almannaks Háskóla Íslands. Þannig að nú brá Ólafur á það ráð að tala við frænda sinn og fá hann til að hleypa einum aukadegi inn í almannakið – svokölluðum hlaupársdegi – en hafa daginn bara fjórða hvert ár til að þetta plott yrði minna áberandi. Frændi Ólafs lét til leiðast gegn því að fá 5% af höfundarrétti vísunnar um ókomna tíð. Vísan, með botninum „frekar einn þá hlaupár er“ kom fyrst út í dagbók þjóðvinafélagsins árið 1604 og lifðu þeir frændur í vellystingum alla tíð eftir þá birtingu. Eftir að hlaupársdagurinn hafði verið prentaður inn í almannak Háskóla Íslands í nokkur skipti fór sú trú að verða útbreidd á Íslandi að þessi dagur væri til í alvörunni. Því fór sem fór.
Engin þeirra söguskýringa sem raktar hafa verið hér á undan koma heim og saman við raunveruleikann. Það að þetta sé alþjóðlegt samsæri vísindamanna sem telja sig vita allt um sólarganginn og lengd hans á ársgrundvelli og sjái sig því knúna til að skjóta inn aukadegi á fjögurra ára fresti. Svona þegar málið er skoðað nánar kemur í ljós að þessi skýring er ekkert trúlegri en hinar sem voru taldar upp hér áðan. Þannig að lesendur fá bara að ráða því hvaða skýring er sú rétta.
Lesendaverðlaun bloggsíðu Einars Haf voru haldin hátíðleg í gærkvöldi, 28. febrúar. Um látlausa og fallega athöfn var að ræða þar sem Gunnar Þórir Björnsson var sá eini tilnefndi og hirti raunar öll verðlaun sem í boði voru. Því miður féll þessi uppskeruhátíð nokkuð í skuggann af Edduverðlaununum og Óskarsverðlaununum – þrátt fyrir álíka mikið skemmtanagildi fyrir hinn almenna borgara.
Talandi um skemmtanagildi, þátturinn hjá Gísla Marteini hefur oft verið góður en aldrei þó eins góður og síðasta föstudagskvöld þegar botninn var sleginn í skemmtunina með hugljúfum flutningi Reykjavíkurdætra – sem er svipuð hljómsveit og Borgardætur – á hinu angurværa og melódramatíska lagi Ógeðsleg. Aldrei í manna minnum hefur annar eins herskari kvenna ruðst inn í beina sjónvarpsútsendingu og tekið Gísla – og ekki einu sinni farið fram á lausnargjald.
Aukadagur dúkkar upp
ég dreg fram sparibrosið
eina rímið hér er Rupp
rassgatið er frosið.
Í tilefni dagsins ákvað ég að hlaupa á mig, augljóslega. Lesandi síðunnar er beðinn velvirðingar á því en hann getur þó að minnsta kosti huggað sig við lesendaverðlaunin.
Einar árhlaup.
Tilvitnun dagsins:
Reykjavíkurdætur: SO WHAT? Ég owna þetta ittybittytittycommitty, No pitty!
Oscar Wilde myndi shje´nga mig er svo helvíti witty
Galdrandi ólikum línum á varhugaverðum timum
í no djóki ég er Alfreð Flóki
Ég vil þakka höfundi síðunnar fyrir kosninguna en fyrst og fremst vil ég þakka fjölskyldunni minni sem hafið staðið á bakvið mig undanfarin ár og hvatt mig áfram í leið minni að því að verða lesandi númer eitt án hennar hefði þetta aldrei orðið að veruleika.
Takk fyrir mig.