Vísur fluttar af Kristjáni Hjartarsyni veislustjóra á þorrablóti Svarfdælinga á Rimum 30. janúar 2016. Einar Haf (gjörningalistamaðurinn E. Haf) setti saman, Kristján Hjartarson snyrti til texta og „útsetti“.
Á Þorra hrökkva Svarfdælir hvarvetna í kút
og kófsveittir þeir rifja upp barnatrúna
því þorrablótsnefndin lítur gjarnan illa út
en aldrei þó eins herfilega og núna.
Skáldalækjar Ógga Sigga er fremst í þessum flokk
furðuleg hún er í stórum dráttum
í hunangi og fíflamjöð hún mýkir upp sinn skrokk
mikið er hún undarleg í háttum.
Litlu skárri er bóndinn, sem er við hennar hlið
hjólbeinóttur, útskeifur og gleiður
í frystihúsi Samherja fimur er hann við
flesta daga að draga ýsur, Eiður.
Sigurður frá Hreiðarsstöðum keikur kemst á blað
kuldalegur er og fúll á svipinn
í Sæplasti hann vinnur en ég veit ekki við hvað
voða erfitt er að hemja gripinn.
Elísa hans kona, er hjúkka herfileg
sem hrellir sjúklinga og gamalmenni
fas hennar og ásjóna er ansi gervileg
eins gott er að passa sig á henni.
Frá Urðum Halla kerlingin, grimm er hún og grá
og gerir óleik sama hvar hún kemur
karlinn geymir heima, já minna má nú sjá
og misnotar og klórar hann og lemur.
Klaufabrekkna-Jóna Heiða klækjarefur er
kankvís læðist um og fer með veggjum
í háttum er hún ódæl og illskeytt því er ver
og upp úr þurru grýtir fólk með eggjum.
Næstur Sökkubóndinn, er klúr með klám og glott
kristnar Svarfdæli með fési sposku
að þjóna sínum Guði er Gunnsteins mark og plott
í gjótu bak við hús hann reisir mosku.
Dagbjört, eftir getu, glöð sinn styður mann
og gasprar um hans mátt um lönd og álfur
erfitt getur verið fyrir hana að verja hann
því hún er ekkert skárri en Gunnsteinn sjálfur.
Á Hrafnsstöðum er Zophonías kindarlegur kall
kauði safnar ull í pokaskjatta
á haustin leitar kinda frá fjöru upp á fjall
af fjármunum hann á víst nokkurn slatta.
Kalli bóndi í Brekku er klikkaður og snar
kartöflur hann stundum fær í skóinn
plægir, sáir, rúllar og plastar tuggurnar
í pásum gjarnan kastar sér í sjóinn.
Begga frúin hans er hörð og býsna fylgin sér
börn og mann og hund fær til að hlýða
í þröngum leðurbuxum á baki oft hún er
besta skemmtun hennar er að ríða.
Hér í einum flokk er þessi ljóti kynjakór
kominn til að gleðja Svarfdælinga
en til þess að það lukkist er best að drekka bjór
og blóta Þorra, dansa, hlæja og syngja!
Flutningurinn er kominn inn á jútjúb, hvað annað.
Þess má til gamans geta að úthlutunarnefnd listamannalauna varð enn harðari í afstöðu sinni gagnvart því að úthluta Einari Haf aldrei nokkurn tímann listamannalaunum eftir að hún komst yfir þennan kveðskap.
Glæsilegur kveðskapur Einar.
Takk lesandi nr. 1 🙂