Greinasafn fyrir merki: wow

Orð að nýju

Hleruðu lesendur.

Já enn einu sinni héldu allir og þar á meðal ég að bloggsíða Einars Haf og þar með bloggarinn Einar Haf hefði dáið drottni sínum en mörgum til mikillar gremju virðist það ekki vera raunin. Sama gamla tuggan og sama gamla svartnættisrausið heldur áfram og leitin að sannleikanum snýst upp í andhverfu sína og breytist í flóttann frá sannleikanum. Eða flótta lesenda frá Einari Haf. Það er pínlegt að þurfa að horfa upp á þetta en svona er þetta nú samt.

Vá er borgið. Iceland er land þitt. Hmm, ég ætlaði ekki að hafa þetta svona. Nei ég átti við að WOW Air væri borgið. Kannski. Icelandair er ekki lengur á þeim buxunum að kaupa flugfélagið en það eru góðhjartaðir útlendingar sem hyggjast hlaupa undir bagga. Vonandi fær málið farsæla lendingu og vonandi fá allar flugvélarnar farsæla lendingu því það væri nú ekki á það bætandi ef ferðamannaiðnaðurinn brotlenti í orðsins fyllstu merkingu. Ég virðist því miður ekki ætla að ná mér á flug hér í þessari efnisgrein en það gengur kannski betur næst.

Kaupmenn standa í ströngu þessa dagana við að pranga inn á almenning alls kyns dóti sem nauðsynlegt er að einhver kaupi. Fyrst var það dagur einhleypra með ómótstæðilegum tilboðum, svartur föstudagur með enn ómótstæðilegri tilboðum og stafrænn mánudagur með allt að 50% afslætti af ómótstæðilegu svartaföstudagstilboðunum. Á aðventunni verða jólasveinatilboð, Betlehemskertisafslættir og Leppalúðaútsala en allt endar þetta auðvitað með Þorláksmessurýmingarútsölugeðveiki þar sem fólk mun ekki aðeins skripla á skötunni heldur kokgleypa hana ásamt restinni af jólapakkaflóðinu sem kaupir sig ekki sjálft. Veðurstofan hefur lýst yfir óvissustigi í Ólafsfjarðarmúla og víðar vegna yfirvofandi jólabókaflóða. Gætið ykkar á Arnaldi og Yrsu, þau geta skotið upp kollinum þegar síst skyldi og truflað nætursvefninn með einhverjum glæpasögnum og draugagangi. Verða þau nokkuð undir jólatrénu þínu? Úbbs.

Það kemur fyrir að ég neiti mér um áfengi…hmm, ég meinti það kemur fyrir að ég neyti áfengis. Þá er það yfirleitt undir þeim kringumstæðum að skemmtun, glaumur og gleði séu á næsta leyti. Ég hef reyndar stundum freistað þess að starta eins manns gleðskap og vona það besta en það endar yfirleitt á því að ég leggst einn til hvílu eftir tvo eða þrjá öllara og græt beiskum tárum yfir grimmd örlaganna og óréttlæti heimsins. Segir fátt af einum. Ef ég ætti fleiri vini er vel hugsanlegt að ég myndi fara með þeim á krá eða skemmtistað á dæmigerðu þriðjudagskvöldi, setjast þar niður að góðu sumbli eins og góðra vina er gjarnan siður og taka til við að úthúða fólki sem mér er í nöp við og jafnvel fólki sem ég þekki ekki neitt, svona þegar málbeinið loksins losnar og gríman fellur. Heppinn er ég að þurfa ekki að hafa áhyggjur af þessu, það býður mér aldrei neinn á kránna. Er munnsöfnuður skárri en enginn söfnuður? Ekki ef það er upptökutæki í gangi á næsta borði.

Eftir langan vinnudag er fátt betra en að komast í gott algleymi, láta allt flakka og njóta stundarinnar. Þá er ég ekki að tala um fjölmiðilinn. Það er gaman að sprella með félögunum. Með strákunum. Upphefja sig og láta ekki gera sig hornreka endalaust. Sýna að maður sé nú alvöru karl í krapinu, engin veimiltíta. Í þessu samhengi má nefna að ég hef nú alltaf litið frekar stórt á mig, sérstaklega þegar ég horfi í spegil (af því að þá kemst ég ekki hjá því). Svo stíg ég á vigtina og rek upp stór augu og angistarvein. Það er önnur saga. Strákagrínið nær hámarki þegar konur (kellingar), hommar, fatlaðir (þrollar og korter í dáns) og hvers konar minnihlutahópar fá á baukinn, eitthvað lið sem heldur að það hafi eitthvað um hlutina að segja. Iss piss, ég skal sko gjalda þeim rauðan belg fyrir gráan – því þessir minnihlutahópar hafa örugglega gert eitthvað á minn hlut. Timburmennirnir eftir svona algleymisþriðjudagskvöld geta að vísu verið frekar slæmir hef ég heyrt, sérstaklega ef maður er alþingismaður – og afleiðingarnar jafnvel verið meira en viku að koma fram. Það er samt engin ástæða til að hætta að drekka. Ekki frekar en að það er engin ástæða fyrir mig að hætta að blogga þrátt fyrir áskoranir frá lesendum. Ég segi ekki af mér. Ég segi helst ekki neitt yfirhöfuð, ég skrifa það bara. Og þessi efnisgrein var auðvitað bara tilbúningur af minni hálfu, þeir atburðir sem ég lýsti hér gerast ekki í alvörunni. 🙂

Það er allt í lagi þó það sem ég segi og skrifa hér sé tekið upp, tekið út, því illa tekið og því svo illa lekið til DV og Stundarinnar. Öll mín beiskja, heift og úthúðun á sér hvort eð er stað hér á bloggsíðu allra landsmanna, eða þeirra landsmanna sem viðurkenna það. Það þarf ekki að fara í grafgötur með eitt eða neitt. Sumt hefði ég sjálfsagt betur látið ósagt eins og þegar ég var brjálaður yfir nóvemberjólunum þarna um árið. Og þó. Ég sé reyndar ekki eftir neinu þegar ég lít til baka. Já og hvernig er það, á ekkert að fara að kveikja í þessari risavöxnu eldfimu jólageit? Á maður ekkert að fá að komast í jólaskap í ár, ég bara spyr?

Það var eitt kvöld á Klausturbar
kræfir þingmenn settust þar
og tæmdu allar bokkurnar.

Í stríðum straumum ölið rann
svo rann á konu og á mann
þau sögðu allan sannleikann.

Á næsta borði í leyni lá
mannlufsa sem hlustaði á
og síma hafði tvo og þrjá.

Skrásett var þar hvert eitt orð
sem hafði haus og búk og sporð
og féll við þetta eina borð.

Í fjölmiðlana froðan lak
hið fjandsamlega tungutak
nú gert þau höfðu upp á bak.

Apakettir, aumingjar
asnakjálkar, kerlingar
kuntur einnig voru þar.

Þjóð í sárum eftir sat
og sorgmædd lítið annað gat
en sagt að þetta væri frat.

Af þessu lærdóm draga má
ekki drekka vit þér frá
allra síst á Klausturkrá…
….þegar einhver hlustar á.

Æi, ég steingleymdi því að rakka einhverjar opinberar persónur niður í svaðið í þessari bloggfærslu. Jæja, ég geri það þá bara næst.

Einar upptekinn.

Tilvitnun dagsins:
Allir: WOW!!!