Greinasafn fyrir merki: versla

Orðin einu sinni einu sinni enn

Góðu krúttbombulegu faðmgjörnu lesendur.

Verið velkomin í þessa hressilegu erfidrykkju bloggsíðu Einars Haf. Hér verða á boðstólnum hnausþykkar hnallþórur, djúpsteiktir gullsnúðar, vel uppáhellt prestakaffi, DJ HAF OCEAN þeytir skífum, fáklæddar dansmeyjar skemmta gestum, eldgleypar og línudansarar sýna listir sínar og þá verður að endingu dansaður trylltur dans í kringum Costco fílinn fram undir miðmorgun. Allt þetta tilstand til þess eins að kveðja bloggarann ljóta og leiðinlega sem í svo mörg ár hefur hrellt lesendur með lopateygingum sínum, skoðanaofforsi og aulabröndurum. Það er svo sannarlega tími til kominn að gleðjast og fagna því að vitleysan sé loks að baki….. HAHA – GABBAÐI YKKUR!!

Þetta er engin ekkisens grefilsins erfidrykkja. Þetta er opnunarpartíið hjá Costco. Þar sem allt fæst á magnafslætti og allt er stærra, betra, amerískara og ódýrara en annars staðar. Gamli góði íslenski einokunarverslunarbransinn á nú verulega í vök að verjast og kaupmaðurinn á horninu er kominn út í horn. Ég heyrði því meira að segja fleygt að í Costco væri hægt að kaupa amerískar bloggfærslur sem eru helmingi lengri, helmingi fyndnari og helmingi sætari en þær sem Einar Haf hefur boðið upp á hingað til og á helmingi lægra verði. Hvað mun þessi bloggsíða gera til að bregðast við aukinni samkeppni? Trúlega mun bloggsíðan annað hvort leggja endanlega upp laupana eða þá að bjóða upp á enn persónulegri þjónustu en áður. Það má til dæmis alveg ræða það að ég fari heim til fólks og lesi bloggfærslurnar fyrir það augliti til auglitis. Svoleiðis þjónustu munu verslunarrisarnir aldrei geta boðið upp á.

Sauðburði er nú nánast alveg hér um bil lokið all víða. Á Urðum er ein ær óborin en hún er að hugsa um að draga það fram að Hvítasunnu. Gróður er í miklum blóma þessa dagana og skepnur una hag sínum vel úti í haga, þær sem haga sér vel það er að segja. Sláttur mun eflaust hefjast tímanlega þetta árið. Sláttur við Urðakirkju og í Urðakirkjugarði er löngu hafinn. Það kemur ekki á óvart enda er það vitað mál að hinir helgu staðir eru grasgefnastir. Slátturinn í kirkjugarðinum gengur vel að sögn sjálfs míns – ég get að minnsta kosti sagt að það hefur enginn kvartað ennþá.

Það er heldur betur skollið á góðæri í landinu, raunar svo heiftarlegt góðæri að margt fólk er í stökustu vandræðum með hvað það eigi eiginlega að gera við peningana. Það er sama hvert litið er, alls staðar eru menn græðandi á daginn og grillandi á Webernum á kvöldin. Eflaust grillandi nýsjálenskt niðurgreitt lambakjöt í íslensku dulargervi. Krónan styrkist og styrkist og kaupmátturinn er kraftmeiri en dæmi eru um. Þeir sem telja sig standa höllum fæti eru eflaust bara að misskilja hlutina. Svona eins og þeir sem segjast vera vegan eða stunda mínimalískan lífsstíl. Allt augljós misskilningur. Það sem við þurfum núna er komugjöld í Costco sem renna til uppbyggingar ferðamannastaða og þá er okkur og massatúrismanum borgið.

Síðasta fimmtudag var Uppstigningardagur haldinn hátíðlegur. Um næstu helgi er það svo Hvítasunnan sjálf þegar þess er minnst að heilagur andi sveif á postulana. Þessir hátíðisdagar kirkjunnar falla vel í kramið hjá almenningi enda þýðir þetta fleiri almenna frídaga. Fær kirkjan einhverjar sérstakar þakkir fyrir þetta? Ó nei, vanþakkláta trúleysingjapakk. Þeir sem segjast ekki trúa ættu þá heldur ekki að trúa á þessa kristilegu frídaga. Viðkomandi ættu bara að skammast sín og vera áfram í vinnunni.

Hvenær á eiginlega að opna fyrir forsölu á Jólagesti Björgvins? Sissel Kirkebo er að jarða hina jólatónleikana í samkeppninni. Verður hægt að kaupa miða á jólatónleika á magnafslætti í Costco? Það er allavega eins gott.

Á risavöxnu bílaplani
bilast fólk í stressi og spani
eins og gamall rámur hani
hrópandi í tómið kalt.
Staldrið við og hugsið málið
enn er ekki sopið kálið
bensíni ég helli´á bálið
fer svo inn og kaupi allt.

Þess má til gamans geta að þrátt fyrir allt er ódýrasta útrunna sælgætið selt í sjoppu Ungmennafélagsins Þorsteins Svörfuðar en ekki í Costco – hafið þaið hugfast.

Einar undir iðagrænni torfu…….eða ekki.

Tilvitnun dagsins:
ALLIR: VERSLA!!!