Greinasafn fyrir merki: trog

Orðans árið

Stæltu lesendur.

Já, það kom aldeilis aftan að mér þetta nýja ár. Eða svokallaða nýja ár. Ég held að þetta ár sé alls ekki eins nýtt og það vill vera af að láta. Allt sem hefur gerst á þessu svokallaða nýja ári er eitthvað sem hefur oft gerst áður, mörg hin fyrri ár. Sami grauturinn í sömu skálinni. Nýtt vín á gömlum belgjum. Nýr grautur í gömlum belg. Og ég er strax kominn með ógleði – eins og lesendur þessarar síðu.

Samkvæmt nýrri rannsókn eru Íslendingar ekki bara þybbnir, þeir eru beinlínis feitir. Þeir eru svo feitir að aðrar Norðurlandaþjóðir mega bara skammast sín. Hverju má þakka þennan góða árangur? Trúlega er það hreyfingarleysið. Snjalltækjadoðinn grúfir yfir eins og grá dula og fælir fólk frá því að hreyfa á sér rassgatið. Sem dæmi þá rétt náði ég að róa í spikinu hingað inn á bloggsíðuna – en auðvitað sit ég kjurr á mínum risavaxna afturenda meðan ég skrifa þessa bloggfærslu – og borða sykurhúðaðar franskar kartöflur með kokteilsósu og óblönduðu floti. Hvað drekk ég með þessu? Auðvitað Coke Zero…maður þarf jú aðeins að hugsa um línurnar líka.

Ekki nóg með það að Íslendingar séu svona blússandi akfeitir og sáttir með það; okkur hefur líka tekist að komast í efsta sætið á hinum eftirsótta slóða- og slúbertalista Global Footprint Network – sem eru eflaust einhver öfgaveganistasamtök. Niðurstaðan er ótvíræð, ef allar þjóðir væru eins neysluóðar og uppfullar af óráðsíu og Íslendingar þá væri jörðin trúlega ein stór Sahara-eyðimörk. Auðvitað þurfum við að lágmarki 2,5 bíla á hvern íbúa, ekki viljum við nota almenningssamgöngur. Auðvitað þurfum við að eiga nýjustu snjallsímana hverju sinni – ég fékk minn Iphone 7 bara núna rétt áðan og var að verða brjálaður á töfinni. Auðvitað þurfum við að brenna alveg fleiri þúsund tonnum af innfluttum kolum því ekki framleiðir þessi kísill sig sjálfur. Auðvitað þurfum við að kaupa miklu meira af mat en við getum torgað, það er jú betra að henda honum en að eiga það á hættu einn daginn að verða svangur. Auðvitað þurfum við að ferðast minnst þrisvar sinnum til útlanda á ári, svínfeit og ógeðsleg. Það þarf að breikka flugvélarnar svo við komumst fyrir í þeim og það mengar auðvitað meira. Og hvað varð um nýju ríkisstjórnina? Hún hefur ekki sést. Ekki frekar en skýrslan um Panamaskurðinn. Eða skjölin. Eða hvað þetta aflandseyjadrasl hét nú. Hverjum er ekki sama.

Íslendingar, helst karlmenn, streða þessa dagana við að kasta bolta í mark í Frakklandi í beinni sjónvarps- og útvarpsútsendingu. Misvel hefur þetta nú gengið en sama hvað á bjátar þá verða þetta alltaf og ævinlega strákarnir okkar. Það var þeim að þakka að bensínlítrinn var á 27 króna afslætti í gær, gleymið því ekki. Hvað með það þó við höfum á ögurstundu skriplað á skötunni og skotin geigað þegar síst skyldi. Það er jú aðalatriðið að vera með og við erum ennþá með. Ég ætti auðvitað að vera löngu búinn að taka leikhlé þegar hingað er komið í lestrinum en á einhvern óskiljanlegan hátt ákvað ég að halda áfram með sóknina. Svo fer auðvitað allt í vaskinn áður en yfir lýkur.

Dónald Trömp tekur brátt við sem forseti Bandaríkjanna. Það ætlar hann að gera á sjálfan Bóndadaginn, og eflaust mun hann gæða sér á súrsuðum selshreyfum, rengi og magál af þessu tilefni. Hann er reyndar í framan eins og útþynnt rófustappa en það er önnur saga. Gaman yrði að kíkja í trogið hjá kappanum þegar hann heldur upp á áfangann í Hvíta húsinu sínu annaðkvöld. Ekki slægi maður hendi á móti því að vera fluga á vegg í því samkvæmi, rétt eins og rússneska leyniþjónustan – sem er pottþétt með svona myndavélaflugu á sínum snærum.

Senn líður að Þorrablóti Svarfdælinga á Rimum í Svarfaðardal. Allt stefnir í að margt verði um manninn og þétt setinn Svarfaðardalur líkt og jafnan áður. Hvaða skemmtiatriði verður boðið upp á? Það verður lesinn hinn klassíski annáll, farið með gamanmál, fíflast, hlegið, drukkið og dansað. Mun Einar Haf koma eitthvað nálægt þessum skemmtiatriðum? Tja…tíminn einn mun leiða það í ljós og ég get raunar ekki sagt alveg til um þetta á þessu stigi. En ljóst er að oft var þörf á breiðri skírskotun, upplýstu samtali og traustu baklandi – en nú er nauðsyn. Og ég mun ekki skorast undan þeirri ábyrgð.

Upp til fjalla, inn til dala
glaður held á mannamót.
Á hún Halla baun í bala
heldur senn á þorrablót.

Þess má til gamans geta að samkvæmt nýrri rannsókn er Ísland eftir sem áður hreinasta og fegursta land í heimi og íbúarnir þeir gáfuðustu. Sú rannsókn tók að vísu hvorki mið af fitumælingum, neyslufrekju eða spillingu.

Einar í mörnum.

Tilvitnun dagsins:
Allir: SNJALLTÆKI!!!