Greinasafn fyrir merki: Þorskur

Orð á akureyri.net enn og aftur

Góðir lesendur.

Eftir síðasta pistil gætuð þið eflaust haldið að ég væri með fitu á heilanum. Það er rétt ályktun. En ég er líka með margt annað á heilanum. Svo sem útlitsdýrkun. Augljóslega.

Í dag er enginn maður með mönnum eða konum nema vera helköttaður, skorinn, massaður, sólbrúnn og jafnvel íklæddur þveng. Þetta eru ekki ný vísindi. Það sem eru hins vegar ný vísindi er sú staðreynd að útlitsdýrkunin nær nú einnig til ævintýrapersóna og auglýsingafígúra. Kötturinn Klói hefur auglýst Kókómjólk frá árinu 1990. Frá upphafi hefur Klói verið frekar eðlilegur köttur, malandi og þybbinn heimilisköttur sem lapið hefur sína dísætu Kókómjólk eins og enginn sé morgundagurinn. Hann vildi ekki mýs, hann át bara kökur og rjómaís. Nú er Klói hins vegar orðinn að vaxtarræktartrölli með stinna kálfa og harðar loppur eins og sést hefur í nýjustu auglýsingum hans. Klói fær sér ekki eins mikla Kókómjólk og áður, en hann borðar þeim mun meira af vaxtarhormónum og tekur kreatín svo að vöðvauppbyggingin verði tilkomumikil og kötturinn köttaður. Í ljósi þessa má spyrja sig: hvað næst? Mikki mús með sixpakk? Dolli dropi sólbrúnn? Þorskurinn á Lýsispillunum kominn með stinna ugga? Kóka kóla jólasveinninn kominn með kúlurass? Ég hreinlega veit það ekki; útlitsdýrkunin er hvort eð er komið út í tóma vitleysu.

Ég er ekki bara með útlitið á heilanum, heldur einnig ofbeldi. Ofbeldi hefur notið sívaxandi vinsælda undanfarin misseri og virðist ekkert lát vera þar á. Í dag er ekkert óvenjulegt við það að í fréttatímum birtist myndir af ofbeldi og misþyrmingum. Stjórnvöld eru sökuð um að beita öryrkja og eldri borgara ofbeldi, íþróttir eru fullar af ofbeldi, allir sjónvarpsþættir sem eitthvað varið er í sýna ofbeldi og síðast en ekki síst einkennist íslenskt næturlíf fyrst og fremst af ofbeldi, þar sem eitthvað næturlíf er yfir höfuð að finna. Íslendingar eru farnir að fatta að framamöguleikar eru fyrir hendi þegar kemur að ofbeldi og bardögum og fylkja sér því að baki Gunnari Nelson – sem snýr andstæðinga sína niður og lúskrar á þeim hverjum af öðrum, nema reyndar þeim síðasta. Ég hef gaman af ofbeldi og bardögum eins og hver annar; en ég meina, hvaða dagar eru ekki bar-dagar? Sérstaklega nú þegar Októberfest stendur yfir.

Ég er ekki bara með fitu, útlit og ofbeldi á heilanum; heldur líka hagræðingu. Stundum þarf ég jú að hagræða mér, svona eins og gengur. Hagræðingarhópur ríkisstjórnarinnar vinnur nú hörðum höndum að útfærslu  fjölmargra tillagna sem eiga að miða að því að ná fram hagræði í rekstri hins opinbera – og ekki veitir af. Að vísu er ekki búið að sýna fram á hvort eitthvert hagræði náist með þessum tillögum, en það er sennilega aukaatriði. Meðal þess sem stefnt er að er að fækka hljóðfæraleikurum í Sinfóníuhljómsveitinni, draga úr hljómagangi og leggja bann við notkun fleiri en þriggja tóntegunda. Skógrækt ríkisins verður sameinuð ÁTVR á næstunni, enda talið nóg að hafa timburmenn á einum stað í opinbera kerfinu. Endurskoða á fyrirkomulag bókhalds og greiðslu reikninga í sendiráðum. Með öðrum orðum, það á að hagræða bókhaldinu og sleppa því að greiða reikningana sem berast sendiráðunum og spara þannig umtalsverða fjármuni – því greidd skuld er jú glatað fé. Ríkisstyrkt íþróttasambönd á borð við KSÍ munu hætta að selja miða á helstu íþróttaviðburði gegnum viðurkennd opinber miðasölukerfi og þess í stað selja alla miða á svörtu – enda seljast þannig miðar alltaf á mun hærra verði en hinir og þá er ekki hætta á að miðasölukerfið hrynji, eins og gerist alltaf á Íslandi þegar fleiri en 10 manns langar á sama viðburðinn á sama tíma. Að síðustu hefur hagræðingarhópurinn það á stefnuskrá sinni að skipta út öllum ráðherrum ríkisstjórnarinnar og ráða aðstoðarmenn í þeirra stað – enda á mun lægra tímakaupi.

Talandi um ríkisfjármál; Sigurður Ingi Jóhannsson sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra stendur nú í október fyrir landssöfnuninni Bleiki ugginn. Kaupi fólk bleika uggann leggur það sitt af mörkum svo hægt verði að borga starfsmönnum Fiskistofu fyrir að flytja til Akureyrar, en það þykir borin von að nokkur heilvita maður flytji af höfuðborgarsvæðinu og út á land nema gegn vænni greiðslu.

Síðasta lag fyrir fréttir er ekki lengur síðasta lag fyrir fréttir, heldur meira svona síðasta lag fyrir síðustu auglýsingar fyrir fréttir. Enn teflir dagskrárstjóri Rásar 1 á tæpasta vað, með því að breyta dagskrárlið sem verið hefur eins frá landnámi Ingólfs árið 874. Ég meina, kommon. Það eiga að vera lesnar tilkynningar, svo kemur lag sem oftast er í dúr eða moll og sungið af Stefáni Íslandi og svo kemur Broddi Broddason með fréttirnar kl. 12:20. Ég hélt að þetta væri ekki bara í útvarpslögum heldur í landslögum einnig. En hvert var síðasta lag fyrir réttir? Nú, auðvitað Blessuð sértu sveitin mín. Hvað annað?

Höfundur tók sig saman í andlitinu samhliða gerð þessa pistils og er nú óþekkjanlegur.