Greinasafn fyrir merki: Þögnin rofin

Orðin steindauð…….. og þó

Lesendur?

Fjölmargir hafa komið að máli við mig undanfarnar vikur og þakkað mér fyrir að hafa loksins hætt. Steinhætt. Fólk hefur varpað öndinni léttar þetta haustið og var fyrir lifandi löngu kominn tími til. Þessu sama fólki gef ég nú langt nef, því eftir afar flóknum krókaleiðum hefur nú tekist að vekja upp frá dauðum skrímsladeild bloggsíðu Einars Haf – þannig að allt það fúlasta og óferskasta er að nýju komið upp á yfirborðið. Þið hélduð að inngangarnir hefðu verið slæmir í eina tíð, bíðið bara!

Varðandi þetta langa nef sem ég var að gefa, er þetta ekki örugglega skattfrjálst? Þarf nokkuð að borga nefskatt af þessu?

September hefur einkennst af göngum og réttum. Þið vitið, labbi labbi labb og mememe. Síðan þegar heim var komið tók við trallala og glöggglöggglögg. Svo var réttarball á Höfða og þar var tvít tvít flottur jakki og gaman saman. Ég veit ekki hvort ég á nokkuð að vera að fara nánar ofan í saumana á öllu þessu. Allt er þetta partur af hinni stóru og stöðugu hringrás sem innifelur fengitíð, sauðburð, göngur, sláturtíð og húskarlahangikjöt. Sauðfjárbændur hafa auðvitað ekkert upp úr krafsinu nema ánægjuna en aðalmálið er auðvitað að verslunin komist þokkalega frá þessu rugli. Eru ekki danskir aukaefnasprautaðir kjúklingar frá Tælandi örugglega á niðursettu verði núna? Nammi namm.

Samkvæmt umræðuþætti Ríkissjónvarpsins sem sýndur var í þráðbeinni línulegri útsendingu núna rétt áðan þá ætla heilir tólf flokkar að bjóða fram í þingkosningunum sem á að halda 29. október næstkomandi. Iss piss. Bara tólf? Þetta er ekkert úrval. Helstu mistökin sem gerð voru nú síðsumars, eins og réttilega hefur verið bent á, voru þau að gefa það út opinberlega hvenær kosningarnar ættu að fara fram – það gerði öllu þessu liði kleift að skipuleggja sig og smala saman fólki á framboðslista. Tólf framboðslistar og hvað er það stór hluti þjóðarinnar? Hver á að borga fyrir þetta allt saman? Er það ekki örugglega ég. Vonandi.

Þar sem það eru kosningar í farvatninu hefur urmull prófkjöra farið fram undanfarið. Þeim sem hefur fundist of mikið kellingaraus á Alþingi á þessu kjörtímabili ætti að vera skemmt, enda hafa konur átt afar erfitt uppdráttar í þeim prófkjörum sem farið hafa fram. Ég er auðvitað mikið upp á kvenhöndina og harma þessa stöðu sem upp er komin. Ef ég ætti framboðslista myndi ég fylla hann af kvenmönnum. Hvað með transfólkið? Jújú, auðvitað er það með í baráttunni líka. Þið vitið hvað máltækið segir. Konur eru menn. Þar af leiðandi eru menn líka konur. Nema hvort tveggja sé.

Nú er komin í kvikmyndahús myndin Eiðurinn. Um hvað fjallar hún, klám, ofbeldi, eiturlyf og óráðsíu? Nei, hún fjallar um Eið Guðnason og allar stafsetningarvillurnar og ambögurnar sem hann hefur leiðrétt í gegnum tíðina. Einn maður, eitt markmið, haugur af málfarsvillum.

Bloggið liðast langt og mjótt
gegnum leiðslur netsins
einn í keng með slæma sótt
svitna af angan fretsins.

Kjósendur athugið, vorum að taka upp fullt af nýjum kosningaloforðum en eigum einnig lítið notuð eldri loforð í úrvali. Bjóðum upp á fjárlagaramma í mörgum stærðum, allir ættu að geta fundið eitthvað við sitt hæfi. Verðið skiptir ekki máli, það er til fullt af peningum. Atkvæðaveiðar ehf.

Einar enn á meðal vor.

Tilvitnun dagsins
Allir: Jess, hann er hættur að blogga. Eða…………NEIIIIIIIII!!!!!!!!