Greinasafn fyrir merki: tekjur

Orðin fram úr áætlun

Yfirdrifnu lesendur.

Það er til siðs hér á landi að fara fram úr áætlun. Öllu heldur, það er til siðs að búa til áætlanir sem vitað er að muni ekki standast. Alltaf virðist þetta koma hinum almenna borgara jafn mikið á óvart, sem er frekar furðulegt. Menningarhús, náðhús, einbýlishús, fjölbýlishús, gleraugnahús og sjúkrahús. Allt langt fram úr áætlun. Öll jarðgöng fara langt fram úr áætlun, útgjöld opinberra stofnana fara fram úr áætlun, braggar, strá og meira að segja áætlunarbílar fara fram úr áætlun. Þessi inngangur átti bara að vera ein setning en er löngu farinn fram úr áætlun.

Íslendingar eru hneykslanlega hneykslunargjarnir en það stendur yfirleitt frekar stutt yfir. Það er nefnilega skammt stórra högga á milli. Dagur B. (B. stendur fyrir Bragga augljóslega) og félagar hans í Reykjavík hugðust endurbæta bragga í Nauthólsvík fyrir um 150 milljónir króna en kostnaðurinn er kominn vel yfir 400 milljónir króna og ballið ekki búið enn. Óheyrilegur kostnaður hefur farið í hönnun og úttektir og allra handa dútl en steininn tók þó úr þegar það fréttist að við braggann hefðu verið gróðursett höfundarréttarvarin dönsk stingandi strá sem eru ekki endilega á næstu grösum og kostaði sú aðgerð yfir 1 milljón króna. Höfundarréttarvarin strá. Sem sagt, strásett vörumerki. Fólk spyr sig; hvers vegna? Hvers vegna þessi framúrkeyrsla? Hvers vegna dönsk strá? Af hverju ekki íslensk puntstrá sem nóg er til af? Af hverju var ekki bara gróðursettur íslenskur úr sér sprottinn njóli við braggann? Það er nú fátt þjóðlegra en sú illvíga planta sem engin skepna étur og stendur af sér allar plágur og hörmungar, rétt eins og íslenska þjóðin. Það hefði jafnvel mátt blanda saman njóla, kerfli, lúpínu og íslenskum túnfíflum. Þar værum við komin með blöndu sem endurspeglar vel þá flóru borgarstjórnarfulltrúa sem situr í ráðhúsi Reykjavíkur.

Ríkisstjórnin hefur nú snúið frá villu síns vegar og hyggst koma til vegar nýrri heildstæðri áætlun í vega- og samgöngumálum sem fer vonandi ekki veg allrar veraldar. Áætlun þessi verður væntanlega sama marki brennd og aðrar hérlendar áætlanir sem ég hef nú þegar minnst á, án þess þó að ég ætli mér að færa allt til verri vegar. Samgönguráðherra hefur veg og vanda af áætluninni enda fjallar áætlunin bæði um veg og vanda. Samkvæmt áætluninni er áætlað að fara ótroðnar slóðir jafnt sem troðnar slóðir og mögulega hefla þessar slóðir. Vegakerfið þarf að vega og meta og það má ekki koma í veg fyrir það. Annars vegar verður hafist handa við byggingu annars vegar og hins vegar verður hafist handa við byggingu hins vegar. Svo má heldur ekki alveg gleyma Alveg, tala nú ekki um Kjölveg sem kemur í kjölfarið. Fari allt á versta veg verður farið í það að endurbyggja versta veg. Nokkur jarðgöng eru á dagskránni sem og nefgöng en engin ormagöng verða grafin að þessu sinni. Loks gerir áætlunin ráð fyrir því að hver vegur að heiman sé vegurinn heim. Varla þarf að taka það fram að malarvegirnir fram í Svarfaðardal og Skíðadal verða áfram hafðir holóttir en þó verður þess gætt að smyrja vel af leir og drullu á bestu kaflana ef það er spáð rigningu.

Íslenska karlalandsliðið okkar í knattspyrnu heldur áfram á sömu braut undir stjórn hins sænska Erik Hamren. Nú er liðið án sigurs í 11 leikjum í röð og því er þess varla langt að bíða að farið verði að uppreikna úrslit leikja strákanna okkar miðað við höfðatölu. Með því móti unnust sterkir sigrar bæði á Argentínu á heimsmeistaramótinu og svo á heimsmeisturum Frakka nú um daginn á þeirra eigin heimavelli. Þegar næsti styrkleikalisti FIFA verður birtur þarf sennilega að uppreikna hann með sömu aðferð, svona til að okkur líði aðeins betur.

Allt stefnir í átök á vinnumarkaði á vetri komanda. Fjöldi kjarasamninga losnar um áramót og á nýju ári og hefur verkalýðsforystan komið fram með hinar og þessar kröfur sem atvinnurekendur eru krafðir um að ganga að. Ís fyrir alla, mamma borgar. Yngri konur, eldra viskí, meiri pening. Allt sem við viljum er friður á jörð. Landhelgina út í 12 mílur. Ísland úr Nató, herinn burt. Hækkun lægstu launa, hækkun persónuafsláttar og styttri vinnuvika. Styttri vinnuvika? Já, vinnuvika verður stytt í vinnuvi. Sniðugt. Afar ólíklegt er að atvinnurekendur gangi að þessum kröfum enda telja þeir að slíkt muni riða hinu fremur brothætta atvinnulífi á slig. Fari allt á versta veg verða Pólverjar, Tælendingar og róbótar ráðnir til að sinna þeim störfum sem sinna þarf meðan þjóðin fer í verkfall á nýja árinu. Engar áhyggjur, bloggsíða Einars Haf mun starfa áfram enda þarf hún enga starfsmenn – bara nokkra vel valda algóryþma frá google.

Um síðustu helgi prófaði ég vörur frá fyrirtæki sem kallast Víking brugghús. Ég hafði heyrt vel af þessum vörum látið og ég verð að segja að ég varð fyrir verulegum áhrifum af þessum áhrifavaldandi vörum. Raunar varð ég mun rakari eftir neyslu þessara vara heldur en ég varð af nýja rakakreminu frá Nivea í síðasta bloggi. Til að sannfærast endanlega um þessar vörur væri ágætt að fá nokkrar dósir sendar heim fljótlega, þá get ég gefið endanlega umsögn sem verður alveg örugglega mjög jákvæð. Virðingarfyllst, ykkar einlægur. Einar áhrifavaldur.

Áætlunin aldrei stenst
frekar slæmt en þetta venst,
grátklökkur ég stari á
innflutt visin braggastrá.

Þess má til gamans geta að á vefnum tekjur.is er hægt að lesa sér til um allar dúntekjur Íslendinga árið 2017. Vefurinn er nú þegar orðinn mun vinsælli en bloggsíða Einars Haf og skyldi engan undra.

Einar yfir áætlun.

Tilvitnun dagsins:
Allir: BRAGGINN!!!

Orðin tekjuhá

Vel launuðu lesendur.

Nú er komið að því að Einar Haf birti sinn árlega lista yfir tekjuháa einstaklinga, skóstærðir, hárlit, blóðflokk og trúarskoðanir viðkomandi – en allar þessar upplýsingar og fleiri til má lesa út úr álagningarskrá ríkisskattstjóra sem hann hefur nú soðið saman í stóra grautarpottinum sínum og birt. Aðeins örfáir aðilar mega horfa á skránna á sama tíma og það má bara hafa hana opinbera í örfáa daga á ári – annars gæti einhver misst sjónina, minnið og vitið. Álagningarskránna verður að geyma á köldum og rökum stað og þar sem börn ná ekki til.

Blaðamenn hafa síðustu daga keppst við að skrifa fréttir um nýbirta álagningarskrá og kennir þar ýmissa grasa. Davíð Oddsson er sem fyrr tekjuhæsti fjölmiðlamaðurinn og jafnframt sá fyndnasti. Gunnar Nelson er tekjuhæsti og jafnframt best kýldi bardagamaðurinn. Allsherjargoðar blóta á laun og blóta einnig laununum sínum. Einar Haf kemst sem fyrr ekki á lista yfir tekjuhæstu bloggarana sem verða að teljast mikil vonbrigði fyrir hann – en í ljós kom að öfugt við helstu lífstíls- og tískubloggara landsins þarf Einar Haf að borga með hverri bloggfærslu sem hann skrifar auk þess sem að greiða himinháar dagssektir í ríkissjóð, pokasjóð og stílbrotasjóð.

Tekjur eru ekki það sama og tekjur. Ekki eru allar tekjur tekjur, sumar tekjur eru styrkir og sumar tekjur eru meðlög, framlög, dægurlög, lottótekjur, dúntekjur, fjármagnstekjur, svartir tíuþúsundkallar, reiðufé, reitt fé og pókerpeningar, svo dæmi sé nefnt. Þó það komi fram í tekjublaðinu að einhver sé með þessar og hinar tekjurnar gefur það ekki rétta mynd af stöðu mála þar sem það er heill hellingur af tekjum sem ekki kemur fram þarna. Hvað er hægt að gera í því? Það ætti auðvitað að gefa út framtöl einstaklinga í kilju fyrir hver jól með viðaukum og útskýringum – þá fyrst væri komið eitthvað bitastætt til að kjamsa á.

Komast einhverjir minnihlutahópar í tekjublöðin? Ég hef að minnsta kosti ekki séð neina umfjöllun um tekjuhæstu feitu örvhentu kventransmennina ekki með yfirvaraskegg sem ættleitt hafa barn með hálfum útlendingi sem jafnframt er tónlistarkona. Hver er tekjuhæsta feitabollan? Nei ég meina feitilíusinn? Eða fituhjassinn? Eldri borgarinn? Hver er tekjuhæsti minnihlutahópurinn? Hvað er greitt fyrir að berjast gegn líkamssvívirðingu? Er niðrandi að segja að einhver sé tekjuhár? Hvernig lifir Manúela Ósk af með 219.618 kr. á mánuði? Það er rosalega mörgum stórum og áleitnum spurningum ósvarað út af þessari tekjuumfjöllun.

Drulluboltinn á Ísafirði er nú kominn með harða samkeppni og það af höfuðborgarsvæðinu. Nokkrir sjósundmenn voru orðnir dauðleiðir á að svamla alltaf um í sama kalda og hreina sjónum og ákváðu því að gera þetta aðeins meira spennandi og „dörtí“. Ekki eru allir á eitt sáttir vegna þessa en það er svo sem heldur ekkert sanngjarnt að Ísfirðingar sitji einir að drullubaðinu. Hver er það samt sem er raunverulega í djúpum ferðamannaskít? Ætli það séu ekki allir feitu örvhentu kventransmennirnir ekki með yfirvaraskegg sem ættleitt hafa barn með hálfum útlendingi sem jafnframt er tónlistarkona. Alltaf skulu það vera minnihlutahóparnir sem fá á baukinn, dæmigert.

Peningar fara í vasana fína
fjörið og stemmningin taka öll völd
á fræga og fallega sólin mun skína
en flest allir hinir greiða sín gjöld.

Þess má til gamans geta að Einar Haf fékk greiddar 370 milljónir í bónus frá gamla Landsbankanum fyrir það eitt að ganga ekki örna sinna við hliðina á Reykjanesbrautinni – enda hefði það getað valdið stórkostlegri umferðarteppu, ef ekki hægðateppu.

Einar með skítnóg af tekjum.

Tilvitnun dagsins:
Allir: PENINGAR!!!

Orðin gróðvænleg

Hagnaðardrifnu lesendur.

Meðan enn lifir von um skjótfenginn gróða held ég áfram leit minni að honum….já og sannleikanum í hjáverkum. Það er góðæri og ég ætla að vera með. Ég lifi enn í þeirri blekkingu að bloggskrif séu til þess fallin að raka saman seðlum – og framtíðin byggir öll á því. Það er skammt á milli gulls og grænna skóga annars vegar og hugmyndafræðilegs gjaldþrots hins vegar. Á hvorn veginn skyldi þetta fara í mínu tilviki? Ég leitast að sjálfsögðu við að draga fleiri niður í svaðið með mér þegar (ekki ef) þar að kemur að allt fari í þrot og þess vegna heldur þessi farsi áfram í beinni útsendingu.

Það að kaupa hlut í og eiga hlut í fyrirtækjum er ein leið til að komast yfir skjótfenginn gróða. Það allra besta er að komast yfir fyrirtækin fyrir lítinn eða helst engan pening, til dæmis með því að fá þau í afmælisgjöf, í skóinn eða þekkja rétta fólkið og fá umbun fyrir. Svo fara þessi sömu fyrirtæki að skila methagnaði alveg upp úr þurru, jafnvel eftir að hafa skitið upp á bak og verið bjargað fyrir horn af hinu opinbera og almennum skattgreiðendum fyrir örfáum misserum. Þegar þannig háttar er eina ráðið að greiða sér út nógu mikinn arð, því af arðinum skuluð þið þekkja þá. Hverja? Veit ekki. Skítt með þá sem hlupu undir bagga þegar illa gekk, þeir geta bara samglaðst með eigendunum og fagnað þeim merkilega áfanga að eigendurnir skuli virkilega geta borgað sér út svona mikinn arð.

Stundum gengur það ekki upp að fá fyrirtæki á silfurfati, þá getur þurft að taka lán. Lang best er að taka nógu hátt lán með veði í fyrirtækinu sjálfu, með því móti þarftu aldrei að hafa áhyggjur af því að þurfa að endurgreiða lánið – þú þarft heldur ekki að eiga nokkurn skapaðan hlut, nema ef vera skyldi vin sem á góðan penna, þannig að hægt sé að undirrita helstu formsatriði.

Það er líka hægt að sleppa þessu fyrirtækjabrölti og kaupa bara lottómiða. Það er aldrei að vita nema heppnin snúist á sveif með þér. Ég bendi lesendum á að þeir geta nú á eftir lagt inn á mig 5 þús. kall – þá fer nafn þeirra í pott og það verður mögulega dreginn út vinningshafi fyrir páska. Miði er möguleiki……fyrir mig. Endilega takið þátt.

Það er auðvitað gleðiefni að góðærið sé komið aftur og að nú séu það gróðasjónarmiðin sem ráða ríkjum. Hugsunin á auðvitað að vera; hvernig get ég gert minna og grætt meira? Stundum liggur þetta ekki í augum uppi. Í mínu tilfelli gengur þetta þannig fyrir sig að ég blogga minna og sjaldnar en fæ helmingi meira borgað, þar sem ég get einfaldlega hækkað skylduáskriftina hvort sem lesendum og almenningi líkar það betur eða verr.

Forsetaframbjóðendum fjölgar nú stöðugt. Ég veit ekki hvort það séu gróðasjónarmið sem knýja þá hina sömu áfram, eða einhverjar aðrar mis annarlegar kenndir, en ljóst er að baráttan verður hörð. Sumir hafa legið undir felldi og liggja þar jafnvel enn – og það væri kannski best ef þeir lægju þar bara fram yfir kosningar og létu okkur hin í friði. Ég veit svei mér ekki, en ef ég ætti að velja í dag myndi ég frekar taka hana Hillary á Bessastaði heldur en Trumparann.

Þessa dagana er verið að setja á svið í Borgarleikhúsinu gróðærissýninguna Mamma mía – og þar er auðvitað sungið um peninga og aftur peninga. Monní monní. Ást og svo meiri peninga. Sólbrúnt fólk, ást og peninga. Ævintýrið gerist á grískri eyju – sem er viðeigandi þar sem Íslendingar „kaupa“ nú pakkaferðir til suðrænna landa í massavís, fyrir „peninga“. Ekki veitir suðrænum vinum okkar af norrænum „gjaldeyri“ beint í vasann. Þegar uppselt var orðið í allar sólarlandaferðirnar og pakkaferðirnar tóku neysluóðir Íslendingar til við að kaupa upp miða á allar sýningar á Mamma mía og nú þegar er orðið uppselt á allar sýningar fram til októberloka 2019. Kemst Helgi Björnsson söngvari til sólarlanda, nú þegar hann er upptekinn við að syngja um peninga í Mamma mía? Já örugglega, en hann á að vísu bara miða aðra leið. Það er að segja, ef hann verður ekki farinn á Landróvernum sínum frá Mývatni á Kópasker.

Nýverið var konum í Svíþjóð ráðlagt að vera ekki Einar á ferð. Þetta er nokkur skellur fyrir mig persónulega, en ég reyni að vera ekki mikið á ferðinni þessa dagana. Gætið ykkar konur, ekki vera ég á ferð.

Hún kemur til mín aftur, gróðavonin góð
gæli ég við vín og villtar meyjar
hagsældin er hafin, ég feta forna slóð
ferðast þjóð um hlýjar draumaeyjar.

En engu má þó treysta, víst er gengið valt
vesöld tekur við án fyrirvara
aftur kemur nóttin og næturhúmið kalt
niður kúldrast ég og jórtra þara.

Þessi bloggfærsla var skrifuð með veði í bloggfærslunni sjálfri. Ég fékk kúlu á hausinn en tók kúlulán og er þar af leiðandi í ágætis málum.

Einar auðfenginn auður.

Tilvitnun dagsins:
Lt. Frank Drebin: Looks like the cows have come home to roost.