Greinasafn fyrir merki: takk fyrir allt Ari

Orðin dymbilleg

Sannkristnu lesendur.

Það hefur lengi verið vitað að ég, Einar Haf, svífst einskis þegar kemur að því að hrella lesendur. Nú hef ég í fleiri daga þagað þunnu hljóði hér á öldum ljósvakans. Þessi þögn er orðin vandræðaleg fyrir lifandi löngu síðan og staðan er orðin mjög þrúgandi fyrir lesendur. Það var einmitt ætlunarverk mitt. Svo þegar þögnin er ekki orðin eins vandræðaleg þá stekk ég inn á ritvöllinn að nýju, bara helmingi meira uppáþrengjandi og leiðinlegri en áður. Var það hægt? Það er allt hægt ef viljinn er fyrir hendi.

Það er svo sannarlega ekki tekið út með sitjandi sældinni að vera alþingismaður. Ekki einungis þarf að setja sig inn í alla skapaða hluti og vera vel að sér um hin og þessi málefnin heldur þurfa alþingismenn líka að fara í páskafrí mörgum dögum fyrir páska og sitja aðgerðarlausir vel fram yfir upprisu Jesú Krists. Djöfuls leiðindi. Rétt áður en þingmenn tóku sér hlé var gerð tilraun til að lækka kosningaaldurinn niður í 16 ár. Sem sagt, áður en fólk verður sjálfráða má það kjósa. Það er hugmyndin. Sumum er ekki sjálfrátt. Um þetta náðist ekki þverpólitísk samstaða. Það að vera þverpólitískur getur nefnilega þýtt að þú sért bæði þver og pólitískur og það er ekki endilega góð blanda. Það tókst sem betur fer að drepa þessu máli á dreif áður en komið var í óefni en á meðan fjölmenntu bólugrafin ungmenni á þingpalla og fylgdust spennt með því sem verða vildi. Ekki náðist í Þing-Palla við gerð þessarar efnisgreinar.

Borgarleikhúsið sýnir um þessar mundir hryllingsgamansöngleikinn The Rocky Horror Picture Show að erlendri fyrirmynd. Verkið fjallar um borgarstjóra í lítilli íslenskri borg sem dreymir um borgarlínu og húsaþyrpingu í Vatnsmýrinni en alls konar tröll, uppvakningar og ófreskjur koma í veg fyrir það með forneskjulegum hugmyndum um einkabíla og flugvelli á óheppilegustu stöðum. Já ég veit, ég er að plata. Rocky Horror fjallar ekkert um þetta, Rocky Horror fjallar auðvitað bara um Pál Óskar í korsilettu. Eða er það ekki annars?

Okkar maður Trump? Hann segir bólfarir sínar ekki sléttar. Hann er lentur í stormi. Ég ætlaði að afla mér upplýsinga um þessa knáu leikkonu, hana Stormy, og notaði til þess google leitarvélina. Síðan ég gerði það hefur google ekki látið mig í friði heldur bent mér á hina og þessa snótina sem ég ætti nú að skoða aðeins nánar með nánari kynni í huga, með eða án klæða. Hot Russian wife for you. Google sér svo sannarlega um sína, gott að einhverjum er umhugað um mann. Og Facebook auðvitað líka. Vinir litla mannsins. Da.

Nú er skollið á nýtt og ískalt kalt stríð þar sem hver Evrópuþjóðin á fætur annarri sniðgengur Rússa á alþjóðavettvangi og kallar sendiherra heim frá risanum í austri. Íslendingar taka þátt í samstöðu Evrópuþjóða gegn Rússum og hafa nú gefið það út að enginn stjórnmálamaður muni sækja Heimsmeistaramótið í knattspyrnu í sumar. Skellur fyrir Pútín og félaga. Annars skil ég stjórnmálamennina okkar vel, það verður ekkert gaman þarna á HM í Rússlandi hvort eð er – það má ekki einu sinni segja HÚH lengur án þess að þurfa að borga fyrir það.

Samkvæmt fréttum var sett met í hjónaskilnuðum hér á landi árið 2017. Hjónaskilnaðarvísitalan hefur ekki verið svona há síðan árið 2007 og skyldi engan undra. Í dag er bullandi góðæri og fólk hikar ekki við að skila og skipta ef því líkar ekki eitthvað. Aldrei hefur jafn miklu verið hent á haugana og gildir það bæði um mat, raftæki, bíla og maka. Meira að segja gulli er hent í stórum stíl. Úreltum, gömlum og úrsérgengnum módelum er einfaldlega hent og nýjar og óslitnar týpur keyptar í staðinn. Þetta neysluæði ríður ekki við einteyming og mun væntanlega ganga af lífi á jörðinni dauðu áður en yfir lýkur í þeirri mynd sem við þekkjum það. Mannskepnan reiðir ekki vitið í þverpokum frekar en fyrri daginn. Já skammist ykkar bara. Það ætla ég allavega að gera. Fyrsta skrefið verður þegar ég, fullur iðrunar eða bara fullur, mun sækja guðsþjónustu í Urðakirkju að kveldi Skírdags þar sem séra Magnús Gamalíel Gunnarsson þrumar yfir söfnuði sínum og tekur sóknarbörnin til altaris. Blóð Krists, bikar lífsins, blogg allra landsmanna. Einar, alveg Einar alla páskana.

Nú um páskana fer fram íþróttamót kristinna í prestaköllum víða um land. Keppt verður í hinum ýmsu greinum og ættu allir að geta fundið eitthvað við sitt hæfi. Sjálfur er ég einna spenntastur fyrir 25 kílómetra altarisgöngu með frjálsri aðferð, predikun án atrennu og krossfitt en sú grein er í boði Límtré Vírnet.

Í kirkju hljóður bænir bið
til bjargar samviskunni.
Sigurjón er ekki við
hann svaf hjá Hildigunni,
nýskilinn við Unni.

Þess má til gamans geta að Google og Facebook vita hluti um þig sem þú vissir ekki einu sinni sjálf(ur).

Þess má til gamans geta að Jesús Kristur Jósepsson náði ekki samræmdu prófunum á sínum tíma, enda var um að ræða krossapróf.

Einar, tvennar, þrennar, fernar og kemst svo ekki hærra.

Tilvitnun dagsins:
Allir: GAGGALA GÚGÚ GÚGGLA!!!