Greinasafn fyrir merki: saur

Orðin tekjuhá

Vel launuðu lesendur.

Nú er komið að því að Einar Haf birti sinn árlega lista yfir tekjuháa einstaklinga, skóstærðir, hárlit, blóðflokk og trúarskoðanir viðkomandi – en allar þessar upplýsingar og fleiri til má lesa út úr álagningarskrá ríkisskattstjóra sem hann hefur nú soðið saman í stóra grautarpottinum sínum og birt. Aðeins örfáir aðilar mega horfa á skránna á sama tíma og það má bara hafa hana opinbera í örfáa daga á ári – annars gæti einhver misst sjónina, minnið og vitið. Álagningarskránna verður að geyma á köldum og rökum stað og þar sem börn ná ekki til.

Blaðamenn hafa síðustu daga keppst við að skrifa fréttir um nýbirta álagningarskrá og kennir þar ýmissa grasa. Davíð Oddsson er sem fyrr tekjuhæsti fjölmiðlamaðurinn og jafnframt sá fyndnasti. Gunnar Nelson er tekjuhæsti og jafnframt best kýldi bardagamaðurinn. Allsherjargoðar blóta á laun og blóta einnig laununum sínum. Einar Haf kemst sem fyrr ekki á lista yfir tekjuhæstu bloggarana sem verða að teljast mikil vonbrigði fyrir hann – en í ljós kom að öfugt við helstu lífstíls- og tískubloggara landsins þarf Einar Haf að borga með hverri bloggfærslu sem hann skrifar auk þess sem að greiða himinháar dagssektir í ríkissjóð, pokasjóð og stílbrotasjóð.

Tekjur eru ekki það sama og tekjur. Ekki eru allar tekjur tekjur, sumar tekjur eru styrkir og sumar tekjur eru meðlög, framlög, dægurlög, lottótekjur, dúntekjur, fjármagnstekjur, svartir tíuþúsundkallar, reiðufé, reitt fé og pókerpeningar, svo dæmi sé nefnt. Þó það komi fram í tekjublaðinu að einhver sé með þessar og hinar tekjurnar gefur það ekki rétta mynd af stöðu mála þar sem það er heill hellingur af tekjum sem ekki kemur fram þarna. Hvað er hægt að gera í því? Það ætti auðvitað að gefa út framtöl einstaklinga í kilju fyrir hver jól með viðaukum og útskýringum – þá fyrst væri komið eitthvað bitastætt til að kjamsa á.

Komast einhverjir minnihlutahópar í tekjublöðin? Ég hef að minnsta kosti ekki séð neina umfjöllun um tekjuhæstu feitu örvhentu kventransmennina ekki með yfirvaraskegg sem ættleitt hafa barn með hálfum útlendingi sem jafnframt er tónlistarkona. Hver er tekjuhæsta feitabollan? Nei ég meina feitilíusinn? Eða fituhjassinn? Eldri borgarinn? Hver er tekjuhæsti minnihlutahópurinn? Hvað er greitt fyrir að berjast gegn líkamssvívirðingu? Er niðrandi að segja að einhver sé tekjuhár? Hvernig lifir Manúela Ósk af með 219.618 kr. á mánuði? Það er rosalega mörgum stórum og áleitnum spurningum ósvarað út af þessari tekjuumfjöllun.

Drulluboltinn á Ísafirði er nú kominn með harða samkeppni og það af höfuðborgarsvæðinu. Nokkrir sjósundmenn voru orðnir dauðleiðir á að svamla alltaf um í sama kalda og hreina sjónum og ákváðu því að gera þetta aðeins meira spennandi og „dörtí“. Ekki eru allir á eitt sáttir vegna þessa en það er svo sem heldur ekkert sanngjarnt að Ísfirðingar sitji einir að drullubaðinu. Hver er það samt sem er raunverulega í djúpum ferðamannaskít? Ætli það séu ekki allir feitu örvhentu kventransmennirnir ekki með yfirvaraskegg sem ættleitt hafa barn með hálfum útlendingi sem jafnframt er tónlistarkona. Alltaf skulu það vera minnihlutahóparnir sem fá á baukinn, dæmigert.

Peningar fara í vasana fína
fjörið og stemmningin taka öll völd
á fræga og fallega sólin mun skína
en flest allir hinir greiða sín gjöld.

Þess má til gamans geta að Einar Haf fékk greiddar 370 milljónir í bónus frá gamla Landsbankanum fyrir það eitt að ganga ekki örna sinna við hliðina á Reykjanesbrautinni – enda hefði það getað valdið stórkostlegri umferðarteppu, ef ekki hægðateppu.

Einar með skítnóg af tekjum.

Tilvitnun dagsins:
Allir: PENINGAR!!!