Greinasafn fyrir merki: passíusálmar

Orð í kristilegum skrúða

Dymbillegu lesendur.

Loksins loksins loksins. Ég hef tekið föstuna full alvarlega og hvorki æmt né skræmt hér á bloggsíðunni frá því í síðasta mánuði. Nú líður hins vegar senn að mestu hátíð kirkjuársins, hátíð upprisunnar – og þá get ég auðvitað ekki á mér setið. Við minnumst jú þess þegar lífið sigraði dauðann. Þegar svartnættið þurfti að lúta í lægra haldi fyrir ljósinu og öllu því bjarta og fagra. Þegar bloggsíða Einars Haf varpaði nýju ljósi á sannleikann. Tja, það passar nú kannski ekki alveg. Það má að minnsta kosti þakka fyrir að inngangurinn er ekki lengri en hann þó er.

Fermingar eru nú hafnar. Þá er ég ekki að tala um fermingar eða affermingar þegar skip koma til hafnar heldur fermingar þar sem bólugrafin ungmenni fermast til fjár – í anda páskanna. Öllu fer aftur, segja þeir sem eldri eru. Ég er alveg sammála því. Nú er valið orðið alltof mikið. Í fermingarbransanum er hægt að velja um kirkjulega fermingu, borgaralega fermingu, óborganlega fermingu eða enga fermingu. Fæstir velja enga fermingu því engin ferming jafngildir engum gjöfum. Viðkomandi segist ekki trúa en trúir samt á að fermast og fá fermingargjafir. Borgaraleg ferming er í tísku nú til dags, en ég veit því miður ekki hvað það er. Kannski þýðir það að þú þarft ekki að klæðast hvítum kirtli og hafa yfir trúarjátninguna en færð samt að halda veislu og þiggja gjafir að verðmæti hundruða þúsunda króna frá vinum og ættingjum. Bévítans trúleysingjar. Auðvitað er alltaf best að fermast í kirkju þegar verið er að standa í þessu á annað borð, tala nú ekki um þegar kirkjan er á hlaðinu heima hjá þér. Urðakirkja er kjörin til þess arna, hægt er fá afnot af kirkjunni á mjög góðum kjörum, ræðið bara við E.Haf starfsmann kirkjunnar og hann útbýr eitthvað mjög ásættanlegt fermingartilboð.

Páskalambið á sér langa sögu í kristinni trú. Ekki er vitað hvernig nýir búvörusamningar munu koma til með að hafa áhrif á afdrif páskalambsins í ár, en mögulega verður lambið flutt út til Ameríku sem hluti af allsherjarmarkaðsátaki sauðfjárbænda og talsmanns þeirra, Svavars Halldórssonar – með von um bætta afkomu sauðfjárbænda. Páskaeggin eru einnig í nokkurri óvissu þar sem nýir búvörusamningar ná einnig til alifuglabænda og annarra sem hafa eggjavarp á sinni könnu, eða í sínum varpkassa. Tilraunir með að gefa hænunum á Urðum súkkulaði og lesa fyrir þær málshætti með það að augnamiði að þær fari að verpa páskaeggjum hafa því miður engan árangur borið. Ástandið er raunar það slæmt að undanfarið hafa nánast engin egg orpst…orpist…varpast…æi ég veit ekki. Gefið mér séns, ég varð bara í 12. sæti í stafsetningarkeppninni þarna á Landsmótinu um árið. Áryð, á ég við. Vyð.

Nú þegar hyllir undir að Lönguföstu ljúki hugsa margir sér gott til glóðarinnar að troða sig út af páskasteikum og gotteríi. Ég er að sjálfsögðu þar á meðal. Sumir eru þó staðfastir og falla ekki fyrir freistingunum sem nú eru við hvert fótmál og hvern búðarkassa. Gufusoðið grænmeti í öll mál gefur heilbrigt útlit og góða heilsu. Ekki satt, Viktoría?

Mörður Árnason, fyrrverandi alþingismaður, hefur nú á föstunni lesið upp Passíusálma Hallgríms Péturssonar eftir tíufréttirnir á Rás 1, einn sálm á kvöldi. Hefur lestur Marðar verið að mestu fumlaus og án hnökra, utan við sálm 23 – þar sem Mörður fékk hóstakast þegar kom að ítarlegri og rammstuðlaðri lýsingu á húðstrýkingu Krists í bundnu máli. Ég hef auðvitað hlustað á alla sálmana í beinni útsendingu, eins og fyrri ár, og alltaf fyllist ég jafn mikilli lotningu þegar ég hlýði á. Lýsingarnar í sumum sálmunum á meðferðinni sem Kristur mátti sæta eru afar sláandi og hryllilegar. Hryllingurinn nær þó nýjum hæðum, mögulega Golgatahæðum, á föstudaginn langa þegar Megas „syngur“ alla fimmtíu sálmana í einni beit í kirkju einhvers staðar nálægt ÞÉR. Já bíðið þið bara, enginn er óhultur. Það er önnur saga.

Talandi um hrylling, Ríkissjónvarpið bauð upp á æsispennandi niðurlægingu og pínlega útreið í beinni útsendingu síðastliðið föstudagskvöld þegar Menntaskólinn í Reykjavík flengreið Kvennaskólanum í Reykjavík í úrslitum í spurningakeppni óskýrmæltra framhaldsskólanema. Lokatölur urðu 40-13. Á sama tíma tóku Fræknir feðgar þátt í heimsmeistaramótinu í Brús á Rimum í Svarfaðardal og spiluðu þar rassinn endanlega úr buxunum við nokkur af þeim 10 borðum sem spilað var við í heimsmeistarakeppninni. Uppskeran varð nokkrar drepnar voganir og tvær jananir auk þriggja klórninga. Fyrir þennan fjölda klórninga fékk liðið sérstök verðlaun, sem verður að teljast afar vafasamur heiður, en förum ekki nánar út í það. Á laugardagskvöldið var ég svo rótari fyrir hljómsveit Hafliða sem spilaði undir hinum svarfdælska mars sem stiginn var af miklum móð á Rimum. Mjög hefðbundið.

Allt stefnir í æsispennandi forsetakosningar hér á landi í sumar. Forsetaframbjóðendurnir eru nú orðnir fleiri en guðspjallamennirnir og lærisveinar Jesú Krists. Nánar til tekið, þeir eru orðnir jafn margir og jólasveinarnir þrettán. Er það tilviljun? Ég er ekki viss. Ólíkt jólasveinunum þekkir þjóðin hér um bil engan þeirra þrettán sem boðið hafa fram krafta sína. Nema kannski Ástþór Magnússon og Þorgrím Þráinsson. Ástþór hefur að vísu leikið jólasvein en ég veit ekki með Þorgrím. Allir finna frambjóðendurnir mikinn meðbyr og allt er þetta eflaust ágætis fólk. Ég óttast bara vandræðalega augnablikið í pallborðsumræðum frambjóðenda þegar frambjóðendur við pallborðið verða fleiri en áhorfendur í sjónvarpssal. Geðveikt vandró.

Nú stefnir allt í að Sigmundur Jesús Davíð Gunnlaugsson Kristur verði krossfestur af Pírötum og öðrum siðapostulum á Golgatahæð nú á föstudaginn langa. Mun Sigmundur þar taka á sig syndir og peningalegar eignir eiginkonu sinnar og allra aflandsfélaga sem fyrirfinnast á hennar nafni og áttu kröfu á gömlu bankana. Kristnifræðingum og stjórnmálafræðingum ber ekki saman um hvernig þessi atburðarrás muni vinda upp á sig né heldur hvernig upprisu Sigmundar verði háttað eða hvenær hún muni eiga sér stað – fari allt eins og horfir. Ég mun mæta í messu í Urðakirkju að kvöldi Skírdags og reyna að komast að hinu sanna í málinu. Svörin eru jú öll í hinni helgu bók.

Á krossi mátti dúsa Jesú Kristur
kvalinn var hann vegna synda manna
karlanginn var hrærður bæði og hristur
og hér sit ég með málshátt milli tanna.

Enginn bauð sig fram til forseta meðan á gerð þessarar bloggfærslu stóð, en þónokkrir hugsuðu málið enda höfðu þeir fundið fyrir miklum meðbyr.

Einar páskaungi.

Tilvitnun dagsins:
Herbert the Pervert: Alright everyone but Chris keep your pants on and lets figure this out.