Góðir lesendur.
Við Dorrit færum ykkur öllum okkar bestu óskir um farsæld og hamingju á árinu sem nú er nýhafið með þökk fyrir öll liðnu árin.
Það fór eins og sérfræðingar höfðu spáð; nýtt ár gekk í garð um áramótin og gamla árið sprakk í loft upp við dynjandi skothríð og fagnaðarlæti. Nýtt ár hefur í för með sér nýjar væntingar, nýja nálgun og nýja hugsun – nema auðvitað þegar kemur að Einari Haf sem virðist því miður hjakka í sama farinu og hann var í á síðasta ári. Aumingja hann. Og aumingja lesendur.
Skammdegið, þessi yndislegi tími drunga og svartnættis. Ótrúlega margir hafa gaman af dumbungnum og sortanum og geta ekki hugsað sér að berja sólina augum eða líta bjartan dag. Þarna er ég auðvitað ekki að tala um hinn almenna D-vítamínsnauða borgara heldur svokallaða uppvakninga, eða sombía. Það er minnihlutahópur sem hefur orðið algjörlega undir í samfélaginu, en virðist nú loks vera að vakna til lífsins.
Annar minnihlutahópur hefur líka átt undir högg að sækja, síþreyttir. Þreyta getur verið margskonar en ein tegund þreytu er svokölluð klukkuþreyta, sem hefur einmitt gert vart við sig nú í svartasta skammdeginu. Svoleiðis þreyta á ekki bara við um þá sem eru orðnir þreyttir á klukkunni og endalausum umræðum um hana heldur líka þá sem telja að klukkan hér á landi sé kolvitlaus. Sérfræðingar segja að klukkan sjö á morgnana sé klukkan í raun hálf sex. Hádegismaturinn ætti ekki að vera fyrr en hálf tvö og svo er kaffitíminn mjög nálægt kvöldmatnum í raunveruleikanum. Svo veit ég ekki hvaða áhrif þetta hefur á klukkubúðirnar, sem eru að vísu alltaf opnar. Þreyta ungmenna á morgnana er rakin til þessarar klukkuvitleysu. Mér detta fleiri ástæður í hug fyrir þeirri þreytu án þess að þær verði tilgreindar hér. Þess má geta að klukkan núna er það sama og hún væri á Grænhöfðaeyjum fyrir hádegi ef búið væri að flýta lágnætti um tvo klukkutíma. Ég ætla að hringja í klukkuna á eftir og reyna að komast til botns í þessu. Gangi mér vel.
Svo er það nú einn minnihlutahópurinn enn, en það er sá hópur fólks sem er með aðra löppina styttri en hina. Það er hópur sem hefur staðið verulega höllum fæti nú um langt árabil.
Sá hópur sem ekki er í minnihluta í samfélaginu; feitabollur eins og ég. Nú í upphafi árs nýta líkamsræktarfrömuðir, bútkamparar, krossfittarar, hottjógarar og allir hinir áramótaheit okkar íturvöxnu til hins ýtrasta og leggja sig alla fram um að lokka okkur til sín í púl og svitabað. Aukakílóin skulu fjúka, fitan skal brenna og nú skal taka þetta með trompi. Flagð er undir fögru skinni en bein er undir mögru skinni. Hvað gerist síðan? Jú, þorri fólks missir móðinn, að minnsta kosti á Þorranum en hinir staðföstu þrauka áfram, enda búnir að borga tugi þúsunda fyrir líkamsræktarkort. En hvernig ætlar Einar Haf að losa sig við sín aukakíló? Ekki endist hann í púlinu. Tja, ég bind miklar vonir við Þorrakúrinn sem tekur við síðar í mánuðinum. Í fyrra voru það megrandi hvalabjór og grennandi lífrænir lambatittlingar, hvað gerist nú?
Megrun
Kílóin koma í bútum
og konfekti öll verðum háð
akfeitum steikunum stútum
megrunin byrjar í bráð.
Um áramót auðmjúkur strengi
heit um að bæta mitt lag
hyggst lifa vel bæði og lengi
megrunin byrjar í dag.
Á þrettánda þvalur af svita
þenki um misrétti heims
fjallið á mér heitir fita
megrun er ekki til neins.
Þrjóskur þó reyni að vera
og þykist ef einhver mig spyr
fituna burt ætl’að skera
megrunin fær aukinn byr.
Þorrinn mun senn þreif’á okkur
hinni þrautseigu megrandi stétt
fitna þá fáir ef nokkur
megrunin þykir mér létt.
Því miður er margt sem að truflar
meira en vilja þarf til
sykurinn sálina hruflar
megrunin lendir í byl.
Hætturnar leynast víst víða
varla ég óhultur er
gourmet og sósur mig svíða
megrunaráráttan þver.
Freistingar fljótt taka völdin
fölnar hið nýstrengda heit
sætindi sækj’að á kvöldin
um megrun ég ekki neitt veit.
Á hilluna kortinu hendi
og hundsvekktur þerra burt tár
ræktin fékk rysjóttan endi
megrunin frestast um ár.
Engum aukakílóum var misþyrmt við gerð þessa pistils.