Greinasafn fyrir merki: lambatittlingar

Orðin súr og kæst

Þorralegu lesendur.

Já nú er hann runninn upp, þorri landsmanna. Eða svoleiðis. Þorrinn er í hugum flestra það sama og súrmeti, brennivín, blót, glaumur og gleði. Það er alveg rétt. Nema reyndar ef við erum að tala um minimalískan lífstíl og veganúar janúar. Sem betur fer er það ekki til umræðu hér.

Þetta Borgunarmál er nú frekar súrt. Og kæst. Jafnvel byrjað aðeins að þrána. Um hvað snýst þetta eiginlega? Tja, fyrir algjört klúður og óheppni seldi RíkisLandsbankinn eignarhlut sinn í einhverju ómerkilegu skúffufyrirtæki á spottprís – en sá sami hlutur var svo seldur aftur skömmu síðar á uppsprengdu verði. Ótrúleg óheppni. Ég hef ekkert meira um þetta mál að segja. Bara pjúra óheppni.

Nú er víðfrægur tælitæknir á leið til landsins. Ha? Já, það er frétt um það hér. Þið hélduð að ég væri að plata. Ó nei. Helsta aðferð þessara flagara er sú að taka „nei“ ekki sem gilt svar þegar kemur að kynferðislegum samskiptum við konur. Nei þýðir já og já þýðir já. Nei eða já, af eða á, farðu svo frá. Ég efast um að þessar aðferðir séu vænlegar til árangurs. Ég mun sennilega halda áfram við mína eigin aðferð þegar kemur að tælitækni, þ.e. að fara í kerfi, skríða undir borð og bíða morguns. Árangurinn lætur á sér standa, sennilega bara óheppni (sjá skilgreiningu á óheppni hér fyrr í bloggfærslunni).

Kári Stefánsson réðst í þá miklu aðgerð fyrir nokkrum árum að safna lífssýnum úr allri íslensku þjóðinni – enginn veit til hvers. Þetta dugði Kára hins vegar ekki. Nú er hann að vinna í því að safna undirskriftum allra Íslendinga. Hvað gengur manninum eiginlega til? Hann segist vera að bjarga heilbrigðiskerfinu. Er hin raunverulega ástæða kannski óstjórnleg söfnunarárátta Kára? Tja, það er spurning. Eins og með aðrar spurningar er borin von að svarið finnist hér í þessari bloggfærslu.

Íslendingar halda áfram að gera það gott á Evrópumeistaramótinu í handbolta þó svo að Íslendingar séu fyrir löngu fallnir úr keppni. Guðmundur Okkar Guðmundsson atti kappi við Dag Okkar Sigurðsson nú í kvöld í hreinum úrslitaleik um það hvort liðið héldi áfram í 4 liða úrslit mótsins. Dagur Okkar hafði betur að þessu sinni. Ísland keppir við Noreg í undanúrslitunum en Spánn mætir Króatíu í hinum leiknum. Þegar ég segi Ísland meina ég auðvitað Þýskaland.

Fréttamönnum þótti það fréttnæmt að kaldavatnsnotkun drægist marktækt saman meðan á sýningu þáttarins Ófærðar stæði. Sú ályktun hefur verið dregin að sjónvarpsáhorfendur haldi hreinlega í sér og margir hverjir láti sig hafa það að vera í spreng alveg þar til eftir þátt. Þetta er auðvitað hið versta mál. Næsta spennuþáttaröð sem sýnd verður í ríkissjónvarpinu; Óværð, fjallar einmitt um fólk sem reynir og reynir í hátt í klukkutíma að halda vatni yfir hinum og þessum sjónvarps- og útvarpsþáttum, með misjöfnum árangri. Sprengurinn hefur oft verið mikill, en sjaldan eins mikill og núna.

Nýir búvörusamningar eru nú í burðarliðnum og sýnist sitt hverjum. Breyta á hinu svokallaða mjólkurkvótakerfi, reynt verður að lækka mjólkurverð til bænda ef mögulegt er auk þess sem hampræktun í dreifðum byggðum verður gefin frjáls – svo eitthvað sé nefnt. Ær og kýr bænda verða þó áfram þeirra ær og kýr nái nýir samningar í gegn, nema ef vera skyldi hjá kjúklinga- og svínabændum. Ekki náðist í talsmann samninganefndar bænda, Gísla á Uppsölum, við gerð þessarar bloggfærslu.

Þorrablót Svarfdælinga fer fram nú um komandi helgi. Margt verður um manninn og mikið um dýrðir og þétt verður setinn Svarfaðardalur. Einar Haf hefur látið í veðri vaka að hann standi fyrir einhvers konar atriði á þessari skemmtun, en er það alls kostar rétt? Þið munið hvað ég sagði um spurningar og svör þegar kemur að þessari bloggsíðu. Allt kemur þetta í ljós á laugardagskvöldið. Verið hrædd. Verið mjög hrædd!

Einar sér gerir glaðan dag
og mætir á blót af skyldurækni
hann virðist sko kunna vel sitt fag
með Bs. gráðu í tælitækni.

Þess má geta að þessi bloggfærsla var að mestu unnin úr léttreyktum lambatittlingum auk þess sem hráefni á borð við súrsaða selshreyfa og rakaða hrútspunga komu við sögu.

Einar alþjóðaflagari.

Tilvitnun dagsins:
Svarfdælingar: Gaaaamaaaaann!!!