Greinasafn fyrir merki: káf

Orðin áþreifanleg

Djúpt snertu….snortnu lesendur.

Höldum gleði hátt á loft, því þetta gerist ekki oft. Einar heldur friðinn og strýkur á sér kviðinn. Jæja, það er sennilega best að rjúfa þögnina og stíga fram í dagsljósið. Eða öllu heldur, skýla mér á bak við tölvuskerminn og forðast dagsljósið. Einn sit ég yfir bloggi, aftaninn vetrarlangan. Ilmar af tölvuskjánum, hitunarlyktarangan. Æi þetta var nú kannski ekki alveg nógu gott. Hinn æsispennandi og átakanlegi flótti undan sannleikanum heldur áfram hér eftir smá stund á bloggsíðu allra landsmanna en fyrst auglýsingar.

Jólamaturinn er nú loksins kominn í IKEA, laufabrauðið og jólaölið. Raunar gerðist það fyrir löngu síðan en ég hef sem betur fer náð að sniðganga allt slíkt hingað til. Og enn er bara 8. nóvember. Ert þú ekki örugglega búinn að öllu fyrir jólin? Koma svo, drífa sig. Ekki viltu eyða aðventunni í einhvern jólaundirbúning er það? Þú átt auðvitað að klára allt núna og nýta tímann í desember í að gera og græja fyrir páskana svo hægt verði að nýta dymbilvikuna til að undirbúa Hvítasunnuna. Fávitar.

Nú ætlar dómsmálaráðherra að spila rassinn úr buxunum í eitt skipti fyrir öll og afnema helgidagafrið úr lögum. Ég hef rætt um þetta málefni áður enda helgidagafriður mér afar mikilvægur og kær. Nei auðvitað má það ekki vera í friði. Helgidagafriði. Auðvitað þarf að fara á dansiböll og spila bingó á föstudaginn langa. Haldið bara áfram að útrýma friðnum, mér er alveg sama. Ég ætla að fá að hvíla í friði eftir sem áður. Fávitar.

Það þarf að gera allt fyrir jólin. Allavega samkvæmt því sem maður heyrir í útvarpinu og sér í sjónvarpinu. Ekki öfugt. Það þarf að kaupa allt fyrir jólin. Það þarf að mála allt fyrir jólin. Það þarf að þrífa allt fyrir jólin. Það þarf að innrétta allt fyrir jólin. Það þarf að skreyta allt fyrir jólin. Það þarf að syngja allt og syngja alt fyrir jólin. Í ofanálag þarf að drekka allan jólabjórinn, borða allt laufabrauðið, gefa í alla skóna og fara á alla jólatónleikana. Svo þyrfti helst að kvikna í helvítis geitinni líka. Allt þetta þarf að gerast fyrir jólin. Það hefur aldrei verið mikilvægara en nú að hugsa um hinn raunverulega tilgang jólanna og leita innri friðar, fjarri mammonsdýrkuninni. Þegar þar að kemur. Hvað er þá betra en að koma við í Urðakirkju og kaupa sér heilagan anda og friðarjól af starfsmanni kirkjunnar á aðeins 9.990 kr. kílóið? Athugið, ég tek bara við seðlum – enginn posi á staðnum.

Ísland er hreinasta land í heimi. Það sama verður ekki sagt um þá Íslendinga sem landið byggja en þeir menga mest allra Evrópubúa samkvæmt nýjustu fréttum. Vel gert. Við gefum skít í Kyotobókunina og Parísarsamkomulagið og gefum loftslagsmálunum langt nef. Svo gefum við í og látum fínu og flottu bílana okkar eyða jarðefnaeldsneyti sem aldrei fyrr. Aldrei hefur flugvélaflotinn mengað meira en nú og skipaumferðin heldur sínu striki með öllum sínum banvæna og bráðdrepandi útblæstri. Um síðustu áramót settum við mengunarmet í flugeldaskothríð og með samstilltu átaki er vel hægt að gera enn betur nú. Menn spyrja sig; getur fólk ekki bara slappað aðeins af og verið heima hjá sér? Jú hvernig væri það. Æi nei, ég get það ekki. Ég þarf að skreppa til Kaupmannahafnar á morgun. Engar áhyggjur, ég mun kolefnisjafna mig með gróðursetningu trjáa og minni eigin jarðsetningu síðar meir. Síðan mun ég loka mig af við heimkomu og skammast mín.

Við eigum ekki bara Evrópumet í mengun heldur eigum við líka Evrópumet í vöxtum. Ekki bara vöxtum heldur vaxtavöxtum, dráttarvöxtum, skuldavöxtum, ávöxtum og hvers kyns vaxtarrækt ef því er að skipta. Þessu fylgja vaxtaverkir og munar nú um minna fyrir þá sem eru miklir vöxtum fyrir. Hmm, það var nú eitthvað bogið við þetta.

Í lok október hélt KPMG árshátíð á Akureyri. Ég sem starfsmaður hjá því fyrirtæki mætti á árshátíðina og lét til mín taka í mat og drykk. Fyrir árshátíðina hafði ég ásamt samstarfsfélögum mínum á Akureyri búið til árshátíðarmyndband sem sýnt var á árshátíðinni ásamt fleiri myndböndum. Viðtökurnar voru blendnar eins og við mátti búast en einhverjir höfðu þó gaman af og jafnvel mátti sjá glitta í stöku brosviprur. Þetta myndband féll þó gjörsamlega í skuggann á öðru og mun styttra myndbandi sem fór í dreifingu á samfélagsmiðlum vikuna eftir umrædda árshátíð en í því myndbandi lék einmitt veislustjórinn á árshátíðinni og sýndi lipra takta. Óþarfi er að fara nánar út í það mál allt saman. Ég ætla ekki að deyja drottni mínum á jarðsprengjuakri nettrölla og virkra í athugasemdum. Í myndbandi veislustjórans sannaðist enn á ný hið fornkveðna, það er í lagi að vera með þreifingar ef það fer ekki út í þukl. Káf er svo allt annað. Þess má til gamans geta að ég ætlaði mér að leita til sálfræðings út af þessu annarlega og vafasama hugarástandi mínu sem birtist hvað eftir annað í bloggfærslum mínum en ég leitaði óvart á sálfræðinginn og því varð ekkert úr þessu. Það gengur bara betur næst.

Yfir kaldan eyðisand
einn um nótt ég ráfa
kvennamálin sigla í strand
ég á mér sjálfum káfa.

Þess má til gamans geta að orðin í þessari bloggfærslu eru helmingi færri en fjöldi hola á malarveginum fram í Svarfaðardal.

Einar af landi brott.

Tilvitnun dagsins:
Allir: ÞUKL!!!