Tæpu lesendur.
Líður nú senn að kosningum. Af þeim sökum hafa málfrelsi mínu verið settar afar þröngar skorður undanfarið – enda þarf þessi vefsíða eins og aðrir ábyrgir fjölmiðlar að beygja sig undir jafnræðisreglu og gæta þarf hlutleysis í hvítvetna þegar kemur að opinberri umræðu í aðdraganda kosninga. Sagði enginn. Aldrei. Sjóðheitt slúður, rógburður um menn og málefni, svikabrigsl og samsæriskenningar hér rétt handan við hornið – auk glórulauss pólitísks áróðurs…..en fyrst auglýsingar.
Kjósendur athugið – hin margrómaða og sívinsæla loforðasúpa er nú loksins fáanleg aftur. Tilbúin á örfáum mínútum. Ekki samt sjóða hana of mikið, þá hleypur allt í kekki. Knorr, kemur með pólitíska bragðið.
Talandi um auglýsingar. Nú er auglýst að jólamandarínurnar séu komnar í búðir. Þetta er ekki rétt. Það er 28. október, þetta eru mandarínur – ekki jólamandarínur. Það er líka komið svokallað jólaöl í búðir. Þetta er afar villandi. Það er 28. október, þetta er öl í vitlausum umbúðum – ekki jólaöl. Ónafngreindar búðir auglýsa: skreytum fyrir jólin. Það er um að gera. Eftir svona mánuð kannski. Í dag er 28. október og ég finn hvernig háræðarnar eru farnar að tútna út og ég er byrjaður að vera pínu brjálaður út af ástandinu.
Nokkrir jólasveinar eru nú þegar komnir til byggða, tæpum tveimur mánuðum fyrir jól. Ástæðan er ekki bara græðgi kaupmanna heldur líka alþingiskosningarnar sem eru á morgun. Bæði þurfa jólasveinarnir að kjósa eins og aðrir og eins skipa nokkrir þeirra sæti á framboðslistum – sumir jafnvel mjög ofarlega.
Hneyksli vikunnar: Hin ameríska hrekkjavaka, halló vín, virðist vera að ryðja sér til rúms….eins og ástandið hafi ekki verið nógu hryllilegt fyrir. Líkt og ég hef áður sagt mega kaupmenn troða þessu Halloweeni beinustu leið upp í Hrekkjavökuna á sér – og einbeita sér að því í staðinn að efla hinn íslenzka Öskudag. Annars kvíði ég þeim degi þegar jólasveinarnir verða farnir að auglýsa grasker til sölu í Kostkó um miðjan október – en það virðist vera þróunin haldi fram sem horfir. Það er líklega það sem þið viljið, fíflin ykkar.
Stjórnmálamenn og frambjóðendur lofa öllu fögru nú fyrir kosningar. Bætt heilbrigðiskerfi, betra menntakerfi, bætt kjör aldraðra og öryrkja, meiri umhverfisvernd, meiri jöfnuð og minna sukk. Enginn flokkanna hefur hins vegar sett það á oddinn að banna gengdarlausa markaðssetningu jólanna í október. Forgangsröðunin í þessu þjóðfélagi er algjörlega galin.
Jólalandið í Blómavali er kjörinn staður fyrir börnin þessa helgina þar sem það verður boðið upp á ókeypis ís á laugardaginn. Einhverjir voru orðnir smeykir um að jólalandið myndi bara alls ekki opna þetta árið en það opnaði reyndar um síðustu helgi. Fyrsta vetrardag. Einmitt. Ég held það dugi ekkert minna en lagasetning á þessa vitleysu. Já og meðan ég man, þessi pistill er enn í fullu gildi – þetta verður því miður bara enn fyrr á ferðinni í ár ef að líkum lætur 🙁
Góðærið er svo sannarlega komið aftur. En er það komið til að vera? Ég treysti því ekki. Svona til að tryggja að ég fengi minn skerf er ég búinn að fara í tvær utanlandsferðir á þessu ári (sturluð staðreynd!), ég er búinn að skreppa til Parísar og Lissabon og vera samtals í 5 daga (önnur sturluð staðreynd). Og ég verslaði ekkert í H&M. Ég læt þessa erlendu kaupmenn sko ekkert plata mig, frekar kaupi ég fatalufsurnar á mig dýrum dómum hér á landi (að vísu erlend föt yfirleitt) og læt ekki bjóða mér neitt annað.
Fjöldinn faldar alda öld
galdra gjöldin gjalda
Völdin valdar tjalda tjöld
kaldra kvöldin kvalda.
Jólin þín byrja ekki í IKEA, þau byrja þegar kviknar í jólageitinni utan við IKEA.
Einar auður og ógildur.
Tilvitnun dagsins:
Allir: Kjóstu mig, annars………