Greinasafn fyrir merki: jól

Jólasveinar orð og átta

Betlehemslegu lesendur.

Nú þegar hátíð ljóss og friðar nálgast óðfluga er ekki seinna vænna en að koma sér og lesendum í hátíðargír. Hvernig er best að gera það? Nú, með því sama og alltaf. Með því að leysa hinn heilaga anda úr læðingi og láta hann svífa frjálsan yfir vötnunum og yfir hausamótum landsmanna. Það skulu allir komast í hátíðarskap, hvort sem ykkur líkar það betur eða verr. Þú komst með jólin til mín…..og allt það.

Talandi um hátíðarskap, það voru margir í sannkölluðu hátíðarskapi um síðustu helgi þegar Gunnar okkar Nelson lét til sín taka í slagsmálabransanum í Las Vegas og þjóðin fylgdist spennt með vonarstjörnu sinni. Gunnar stóð sig vel eins og alltaf og var ekki kýldur í smettið nema um 200 sinnum í þremur lotum á móti einhverjum brasilískum jújítsúfújitsjúmeistara. Auðvitað er það bara bábilja og kjaftæði að halda því fram að bardagaíþróttir sem þessar valdi heilaskaða. Augljóslega er þetta hættulaust sport. Blóðugar augntóftir og fjólubláar kinnar eru bara partur af útliti bardagamanna. Og hvaða barn eða unglingur vill ekki verða bardagamaður? Þetta eru svo ofboðslega góðar fyrirmyndir. Svo er það líka bara hressandi fyrir hvern sem er að hrista aðeins upp í heilasellunum af og til og láta berja þær dauðu úr kollinum, segja 3 af hverjum 4 læknum. 1 af hverjum 4 læknum bendir á að aðeins menn sem eru með heilaskaða fyrir láti hafa sig út í að taka þátt í athæfi sem þessu, þó það sé gegn svimandi hárri greiðslu.

Mér finnst samt eyrun á reyndu bardagaköppunum flottust, þau eru svona eins og þau hafi lent undir straujárninu með skyrtunni og sparibuxunum. Og svo gleymdi einhver straujárninu á strauborðinu. Úbbs.

Þónokkrir umhleypingar eru í veðrinu þessa dagana þannig að maður veit ekki hvaðan á sig stendur veðrið. Þið verðið að fyrirgefa veðrið, það breytir því enginn. Þegar svona viðrar verður manni hugsað til þess hvernig þetta var nú þarna í fyrndinni þegar samgöngur voru mun frumstæðari en nú og fólk þurfti á milli staða í hvaða veðri sem var. María og Jósep gátu til að mynda ekki reitt sig á björgunarsveitir, snjóbíla eða vélsleða þegar þau börðust í stórhríðinni milli skafla þarna í eyðimörkinni um árið í leit að gistihúsi. Ekki var gönguskónum eða kraftgöllunum fyrir að fara. Nei, aldeilis ekki. Það hefur sennilega bjargað þeim að asninn sem þau riðu á var fjórhjóladrifinn. En hvað veit ég svo sem? Ekki svara þessu.

Bloggritunarferill Einars Haf er nokkuð skrykkjóttur, sé litið til baka. Til fjölda ára hefur hann leitt landsmenn á villigötur en stundum þó í sannleikann um hin ýmsu mál. Þetta hefur vitaskuld mælst misvel fyrir, enda hefur þetta verið gert á misgáfulegan hátt. Vonir standa til að bloggfærslur Einars verði aðeins fullorðinslegri, alvarlegri og skárri á allan hátt ef Einari tekst að ná 30 ára aldri, sem allt stefnir í nú í svartasta svartnættinu 21. desember næstkomandi. Fastlega má því búast við aukinni menningarumfjöllun, umfjöllun um þjóðfélagsleg umbótamál og umfjöllun um áhugamál eldri borgara eins og Einars hér á bloggsíðunni nú í afar náinni framtíð.

Talandi um menningarumfjöllun; fjöldinn allur af jólabókum kemur út nú fyrir jólin venju samkvæmt. Væri ekki ráð að glugga í nokkrar þeirra? Jú, endilega.

Þófið: Spenna, sprenghlægileg augnablik og gáskafull frásögn. Hér hefur forseti Alþingis tekið saman brot af því allra besta úr málþófi Alþingismanna haustið 2015. Bókin er 1.300 blaðsíður og tekur lestur hennar rúmar 90 klukkustundir. Jólanóttin mun virðast heila eilífð að líða með þessa bók við höndina.

Flóttinn mikli: Grátbrosleg saga um albanska fjölskyldu sem leitar skjóls á eyju norður í ballarhafi þar sem hún er á flótta undan hrottalegum glæpamönnum í heimalandinu. Íslenska þjóðin klofnar í afstöðu sinni til þess hvort fólkið eigi að vera eða fara úr landi. Spennan nær hámarki í kaflanum um litla strákinn með bangsann, Útlendingastofnun og umsóknina um ríkisborgararéttinn.

Konan við þúsund gráður: Bók sem fjallar á afar bókstaflegan og beinskeyttan hátt um hræðilegar afleiðingar loftslagsbreytinga og hnatthlýnunar.

Grillréttir Hagkaups: Hér er enn á ný tekið til við að grilla í fólki og nú hitnar verulega í kolunum. Reyndir grillmeistarar fara hamförum í hverri steikinni á fætur annarri. Sjálfsagt hefur þetta eitthvað með mat að gera líka.

Nautið: Fyrst hélt að þetta væri bók um stjörnumerki. Síðan hélt ég kannski að þetta væri einhver skuggaleg matreiðslubók. Nú er ég bara orðinn skíthræddur og fel mig undir rúmi. Þori ekki að halda lestrinum áfram.

Fyrirgefðu, ég hélt að þetta ætti að vera málefnaleg umfjöllun. Það gat auðvitað ekki staðist.

Hneyksli vikunnar er stóra hliðmálið á Arnarnesi. Auðvitað er það bara gott mál ef hægt er að sýna fram á skiptingu fólks í stéttir hér á landi með girðingum, þ.e. hólfa af ákveðna þjóðfélagshópa. Þetta er sennilega ekki hneyksli, þetta er bara sjálfsagt mál.

Jólasveinarnir streyma nú til byggða einn af öðrum. Askasleikir er væntanlegur, þó vissulega sé lítið um aska fyrir hann til að sleikja. Hurðaskellir kemur á eftir honum en hann hefur einnig átt erfitt uppdráttar vegna sívaxandi fjölda rafknúinna hurða og pumpna sem valda því að ekki er hægt að skella hurðum. Gluggagægir er þó í ágætis málum, sérstaklega eftir tilkomu Hörpunnar og fleiri slíkra gluggabygginga.

Heyrðu þessi bloggfærsla er farin að minna óþægilega mikið á málþóf. Á að eiga afmæli við þetta? Já næstum því…..

Jólatréð í stofu bráðum stendur
af gleði barnið fellir lítið tár
í hringnum kappinn liggur nú örendur
gulur og rauður og svolítið fjólublár.

Og svo ein sem er allra tíma klassík:
Það á að bíta í börnin snauð
býsna mörg á jólunum,
bjarga sér í dagsins nauð
með könnur uppi á stólunum
væna flís af erkisauð
er varla gekk á hólunum
nú er hún gamla Grýla dauð
hengdi hún sig í rólunum.

Þegar næsta bloggfærsla fer í loftið er mjög hætt við því að bloggsíðuritari hafi elst ótæpilega. Það gera lesendur reyndar líka með hverri færslu sem þeir lesa.

Að lokum óska ég ykkur öllum gleðilegra og málþófslausra jóla og vara ykkur jafnframt við yfirvofandi áramótaávarpi bloggsíðu Einars Haf.

Einar jólastrákur.

Tilvitnun dagsins:
Skrámur: Ég skal finna þig í fjöru!