Greinasafn fyrir merki: hrekkjalómur

Orðin hrekkjótt

Viðsömdu lesendur.

Þá hefur aðilum vinnumarkaðarins loksins tekist að semja um nýjan inngang hér í bloggfærslu Einars Haf. Um er að ræða miklu betri og nútímalegri inngang en tíðkast hefur hingað til. Inngangurinn á að fylgja verðlagsbreytingum auk fastra hækkana í þrepum, en að vísu fylgir ekki sögunni hvort inngangurinn verði eitthvað skiljanlegri fyrir vikið. Hvað með launahækkanirnar? Iss piss, hver þarf launahækkun þegar hann hefur góðan inngang? En er svo ekki líka verið að tala um að stytta vinnuvikuna? Eða átti kannski bara að stytta inngangana? Nei það passar nú eiginlega ekki.

Hrekkjavakan er haldin hátíðleg í þessum töluðu orðum, öskudagur fátæka mannsins. Ýmiskonar uppvakningar, skilanefndarmenn, forynjur, kröfuhafar og draugar leika lausum hala og vaða uppi með hrekkjum og fyrirgangi. Af engri augljósri ástæðu. Uppvakningar eru að vísu ekki bara á ferðinni um hrekkjavökuna, þeir eru á ferli flesta daga ársins. Sumir gegna meira að segja ábyrgðarstöðum í þjóðfélaginu.

Þing Norðurlandaráðs hefur farið fram undanfarna daga í Reykjavík. Á þingum Norðurlandaráðs sitja hrekkjalómar og þingfulltrúar Norðurlandanna saman og tala saman…..á ensku. Eða í hæsta máta á bjagaðri dönsku. Týpískt. Hvað er svo verið að ræða um? Jú, auðvitað er verið að tala um Víkingalottóið.

Um áramót stendur til að sprengja burtu gjaldeyrishöftin með sannkallaðri áramótabombu. Bomban verður sprengd á kostnað erlendra kröfuhafa og slitabúa og verður að minnsta kosti 500 milljarða virði. Auðvitað snýst lífið um miklu meira en peninga, sagði enginn erlendur kröfuhafi. Aldrei. Hrekkjalómar.

Jólin þín byrja í IKEA. Verður sem sagt opið hjá þeim í IKEA kl. 18:00 á aðfangadegi jóla, 24. desember? Athyglisvert. Svo var sagt frá því áðan að jólin væru komin í BYKO. Hvernig má það vera? Eru þeir í BYKO á öðru tímabelti en við hin? Jólagarðurinn í Smáralindinni gengur vel – sem og í Blómavali í Skútuvogi, hann er búinn að vera í gangi í meira en viku. Auðvitað. Auðvitað þarf að þynna út hátíðleika jólanna og besta ráðið er að ráðast á garðinn þar sem hann er lægstur – blessuð börnin. Það er búið að koma því inn hjá yngstu kynslóðinni að það sé alveg eðlilegt að byrja að setja upp jólaskraut í lok október. Svei því öllu saman. Ekki bæta tónlistarmennirnir okkar úr skák þegar þeir, í sífellu og síbylju, auglýsa að nú sé nánast orðið uppselt á alla jólatónleikana. Takk fyrir upplýsingarnar. Er þessi árlegi reiðilestur Einars Haf ekki orðinn frekar þunnur? Jú, þunnur eins og Einar Haf.

Ég ferðaðist til Reykjavíkur um síðustu helgi í þeim tilgangi að fara í blaðaviðtal hjá Morgunblaðinu (einarhaf.is greiddi flugfarið og hótelgistinguna fyrir mig). Ég stóð í þeirri meiningu að viðtalið ætti að fjalla um óbeit mína á jólastemmningu í október og þá staðreynd að ég missi þráðinn þegar málefnið ber á góma í bloggfærslum mínum – en í staðinn var ég spurður um hvar ég vildi að nýr Landspítali ætti að rísa. Eins og svoleiðis tittlingaskítur skipti einhverju máli þegar jólabrjálæðingarnir ganga lausir þarna úti?

Málefni vikunnar: http://www.mbl.is/smartland/samskipti/2015/10/31/engin_kona_getur_stadist_luxus_turtappa/. Mín skoðun? Alveg sammála.

Vinsælt er að hrekkja hrekk
og hreykja sér í böðunum.
Ég tolli ekki í tossabekk
tjái mig frekar í blöðunum.

Þess má geta að ekki er lengur hægt að fá miða á jólatónleika KK og Ellenar þar sem þeir eru allir uppseldir en hins vegar eru enn til miðar á aftansöng jóla í Dómkirkjunni.

Einar lómur hrekkja.

Tilvitnun dagsins:
Rodney Dangerfield: On Halloween, the parents sent their kids out looking like me.