Greinasafn fyrir merki: hneyksli

Orðin fram úr áætlun

Yfirdrifnu lesendur.

Það er til siðs hér á landi að fara fram úr áætlun. Öllu heldur, það er til siðs að búa til áætlanir sem vitað er að muni ekki standast. Alltaf virðist þetta koma hinum almenna borgara jafn mikið á óvart, sem er frekar furðulegt. Menningarhús, náðhús, einbýlishús, fjölbýlishús, gleraugnahús og sjúkrahús. Allt langt fram úr áætlun. Öll jarðgöng fara langt fram úr áætlun, útgjöld opinberra stofnana fara fram úr áætlun, braggar, strá og meira að segja áætlunarbílar fara fram úr áætlun. Þessi inngangur átti bara að vera ein setning en er löngu farinn fram úr áætlun.

Íslendingar eru hneykslanlega hneykslunargjarnir en það stendur yfirleitt frekar stutt yfir. Það er nefnilega skammt stórra högga á milli. Dagur B. (B. stendur fyrir Bragga augljóslega) og félagar hans í Reykjavík hugðust endurbæta bragga í Nauthólsvík fyrir um 150 milljónir króna en kostnaðurinn er kominn vel yfir 400 milljónir króna og ballið ekki búið enn. Óheyrilegur kostnaður hefur farið í hönnun og úttektir og allra handa dútl en steininn tók þó úr þegar það fréttist að við braggann hefðu verið gróðursett höfundarréttarvarin dönsk stingandi strá sem eru ekki endilega á næstu grösum og kostaði sú aðgerð yfir 1 milljón króna. Höfundarréttarvarin strá. Sem sagt, strásett vörumerki. Fólk spyr sig; hvers vegna? Hvers vegna þessi framúrkeyrsla? Hvers vegna dönsk strá? Af hverju ekki íslensk puntstrá sem nóg er til af? Af hverju var ekki bara gróðursettur íslenskur úr sér sprottinn njóli við braggann? Það er nú fátt þjóðlegra en sú illvíga planta sem engin skepna étur og stendur af sér allar plágur og hörmungar, rétt eins og íslenska þjóðin. Það hefði jafnvel mátt blanda saman njóla, kerfli, lúpínu og íslenskum túnfíflum. Þar værum við komin með blöndu sem endurspeglar vel þá flóru borgarstjórnarfulltrúa sem situr í ráðhúsi Reykjavíkur.

Ríkisstjórnin hefur nú snúið frá villu síns vegar og hyggst koma til vegar nýrri heildstæðri áætlun í vega- og samgöngumálum sem fer vonandi ekki veg allrar veraldar. Áætlun þessi verður væntanlega sama marki brennd og aðrar hérlendar áætlanir sem ég hef nú þegar minnst á, án þess þó að ég ætli mér að færa allt til verri vegar. Samgönguráðherra hefur veg og vanda af áætluninni enda fjallar áætlunin bæði um veg og vanda. Samkvæmt áætluninni er áætlað að fara ótroðnar slóðir jafnt sem troðnar slóðir og mögulega hefla þessar slóðir. Vegakerfið þarf að vega og meta og það má ekki koma í veg fyrir það. Annars vegar verður hafist handa við byggingu annars vegar og hins vegar verður hafist handa við byggingu hins vegar. Svo má heldur ekki alveg gleyma Alveg, tala nú ekki um Kjölveg sem kemur í kjölfarið. Fari allt á versta veg verður farið í það að endurbyggja versta veg. Nokkur jarðgöng eru á dagskránni sem og nefgöng en engin ormagöng verða grafin að þessu sinni. Loks gerir áætlunin ráð fyrir því að hver vegur að heiman sé vegurinn heim. Varla þarf að taka það fram að malarvegirnir fram í Svarfaðardal og Skíðadal verða áfram hafðir holóttir en þó verður þess gætt að smyrja vel af leir og drullu á bestu kaflana ef það er spáð rigningu.

Íslenska karlalandsliðið okkar í knattspyrnu heldur áfram á sömu braut undir stjórn hins sænska Erik Hamren. Nú er liðið án sigurs í 11 leikjum í röð og því er þess varla langt að bíða að farið verði að uppreikna úrslit leikja strákanna okkar miðað við höfðatölu. Með því móti unnust sterkir sigrar bæði á Argentínu á heimsmeistaramótinu og svo á heimsmeisturum Frakka nú um daginn á þeirra eigin heimavelli. Þegar næsti styrkleikalisti FIFA verður birtur þarf sennilega að uppreikna hann með sömu aðferð, svona til að okkur líði aðeins betur.

Allt stefnir í átök á vinnumarkaði á vetri komanda. Fjöldi kjarasamninga losnar um áramót og á nýju ári og hefur verkalýðsforystan komið fram með hinar og þessar kröfur sem atvinnurekendur eru krafðir um að ganga að. Ís fyrir alla, mamma borgar. Yngri konur, eldra viskí, meiri pening. Allt sem við viljum er friður á jörð. Landhelgina út í 12 mílur. Ísland úr Nató, herinn burt. Hækkun lægstu launa, hækkun persónuafsláttar og styttri vinnuvika. Styttri vinnuvika? Já, vinnuvika verður stytt í vinnuvi. Sniðugt. Afar ólíklegt er að atvinnurekendur gangi að þessum kröfum enda telja þeir að slíkt muni riða hinu fremur brothætta atvinnulífi á slig. Fari allt á versta veg verða Pólverjar, Tælendingar og róbótar ráðnir til að sinna þeim störfum sem sinna þarf meðan þjóðin fer í verkfall á nýja árinu. Engar áhyggjur, bloggsíða Einars Haf mun starfa áfram enda þarf hún enga starfsmenn – bara nokkra vel valda algóryþma frá google.

Um síðustu helgi prófaði ég vörur frá fyrirtæki sem kallast Víking brugghús. Ég hafði heyrt vel af þessum vörum látið og ég verð að segja að ég varð fyrir verulegum áhrifum af þessum áhrifavaldandi vörum. Raunar varð ég mun rakari eftir neyslu þessara vara heldur en ég varð af nýja rakakreminu frá Nivea í síðasta bloggi. Til að sannfærast endanlega um þessar vörur væri ágætt að fá nokkrar dósir sendar heim fljótlega, þá get ég gefið endanlega umsögn sem verður alveg örugglega mjög jákvæð. Virðingarfyllst, ykkar einlægur. Einar áhrifavaldur.

Áætlunin aldrei stenst
frekar slæmt en þetta venst,
grátklökkur ég stari á
innflutt visin braggastrá.

Þess má til gamans geta að á vefnum tekjur.is er hægt að lesa sér til um allar dúntekjur Íslendinga árið 2017. Vefurinn er nú þegar orðinn mun vinsælli en bloggsíða Einars Haf og skyldi engan undra.

Einar yfir áætlun.

Tilvitnun dagsins:
Allir: BRAGGINN!!!

Orð í matvöruverslanir

Skæðu lesendur.

Mikið er þetta nú búinn að vera góður mánuður það sem af er. Veðurblíðan hefur leikið við landsmenn, þjóðarskútan siglir lygnan sjó óravegu frá sjávarháskum og vígaslóðum, þingmennirnir okkar vinna störf sín af natni og fagmennsku og síðast en ekki síst þá hefur Einar Haf ekkert bloggað síðan hann var ritskoðaður út af þorrablótinu (til allrar lukku segja flestir). Því miður benda þessi inngangsorð þó til þess að friðurinn sé nú úti. Óveður er í aðsigi samkvæmt öllum þrýstnu línunum sem ég sá á veðurkortunum áðan, þjóðarskútan nálgast úfið brimrótið, þingmennirnir okkar eru enn og aftur farnir að tala um áfengi í matvöruverslanir og síðast en ekki síst, Einar Haf hefur risið úr öskustónni eins og skrímsladeild Sjálfstæðisflokksins og lætur nú í sér heyra þrátt fyrir afar takmarkaða eftirspurn. Auðvitað gilda markaðslögmálin ekki um Einar, hann lætur þau sem vind um eyru þjóta eins og svo fjölmargt annað.

Meðan beðið er eftir því að heilbrigðiskerfið verði endurreist er ágætt að drepa tímann með því að rökræða hvort rétt sé að selja áfengi í matvöruverslunum. Þetta er farið að hljóma eins og rispuð plata, sem það auðvitað er. Sérfræðingar hafa haldið því fram að drykkja komi til með að aukast um 40% nái þetta frumvarp fram að ganga. Það mun auðvitað þýða fjölgun salernisferða sem er bæði tímafrekt og stemmningsdrepandi. Ég meina, prófið þið bara að drekka 40% meira og gáið hvað gerist. Aukin drykkja mun hafa í för með sér fleiri og flóknari heilbrigðisvandamál, en það ætti svo sem að sleppa ef það verður farið beint í það að endurreisa heilbrigðiskerfið eftir að þetta drykkjuboltafrumvarp kemst á koppinn.

Þingmaður hélt því fram nýverið að hann gæti ekki safnað sér fyrir kaupum á íbúð. Þetta er auðvitað talsverður skellur, ekki síst fyrir kjararáð sem reyndi hvað það gat að koma þessu fólki á mannsæmandi laun í eitt skipti fyrir öll. Það hefur greinilega ekki tekist neitt sérstaklega vel sé rýnt í þessi ummæli. Einhverja rámar í að hafa mótmælt úrskurði kjararáðs á sínum tíma en það er allt gleymt í dag.

Topp 5 gleymdir skandalar (síðustu örfárra ára):
1. Arðgreiðslur tryggingafélaganna.
2. Iðnaðarsalt í matvælum.
3. Þegar Stöð 2 keypti sýningarréttinn af íslenska karlahandboltalandsliðinu.
4. Nautabakan sem innihélt ekkert nautakjöt.
5. Panamaskjölin.

Allt í lagi, þetta síðasta er kannski ekki gleymt – þó svo að núverandi forsætisráðherra hafi gleymt að leggja fram skýrslu um þessi mál fyrir kosningar. En það er nú ekki hægt að muna eftir öllu.

NASA telur sig nú hafa fundið plánetur í ca. 40 ljósára fjarlægð frá jörðinni þar sem gæti þrifist vitsmunalíf. Skattrannsóknarstjóri hefur nú þegar sett sig í samband við NASA til að fá frekari upplýsingar um þessa uppgötvun, enda verður það að teljast afar líklegt að íslenskir auð- og athafnamenn geymi fé sitt rækilega falið á þessum aflandsplánetum.

Menn setti hljóða nýverið þegar fréttir bárust af því að kjararáð hefði ákveðið að laun Birnu bankastjóra Íslandsbanka ætti að lækka um 40%. Síðar kom auðvitað á daginn að þetta var stafsetningarvilla, það átti að læka launin hennar en ekki lækka. Sem betur fer. Manni fór svo að líða ögn betur þegar fréttir bárust af því að framkvæmdastjórn hins ríkisrekna banka hefði fengið 300 milljónir króna í laun árið 2016 auk þess að hafa bíla til afnota á kostnað bankans. Hugsið ykkur, auðvitað getur þingmaður með 800 þús. kr. laun á mánuði eftir skatt ekki keypt íbúð ef 9 manns með 300 millj. kr. á ári geta ekki rekið nokkra bíla. Ég veit ekki með ykkur en mér líður allavega betur nú þegar ég veit fyrir víst að það er alvöru góðæri í landinu. Ekki svona platgóðæri eins og var þarna fyrir áratug síðan. Puff.

Síðustu misseri hefur nokkuð verið rætt um niðurfellingu tolla. Ekki náðist í Tolla við gerð þessarar bloggfærslu, þar af leiðandi treysti ég mér ekki til að tjá mig meira um þetta mál að svo stöddu.

Bollum vil ég bragða á
í björtum gleðiljóma
Íslendingsins blíða brá
brestur er hann kjamsar á
brasilískum rjóma.

Mmm Arthúr Björgvin Bolla, bolla, bolla.

Þess má til gamans geta að gengi krónunnar hélt áfram að styrkjast þrátt fyrir gerð þessarar bloggfærslu. Gengi Bandaríkjadollars hefur styrkst nokkuð að undanförnu en gengi yens hefur hins vegar fallið. Jens, hvað finnst þér um þetta? Jens: Ég er auðvitað ægilega skúffaður yfir þessu! (Sama og þegið, plata frá árinu 1985 með Karli Ágústi, Sigha Sigurjóns og Erni Árna, besta plata í heimi).

Einar aftur genginn.

Tilvitnun dagsins:
Allir: Hvar geymir Guðni ananasana?

Orðin byrjuð að verða oggópínu pirruð

Tæpu lesendur.

Líður nú senn að kosningum. Af þeim sökum hafa málfrelsi mínu verið settar afar þröngar skorður undanfarið – enda þarf þessi vefsíða eins og aðrir ábyrgir fjölmiðlar að beygja sig undir jafnræðisreglu og gæta þarf hlutleysis í hvítvetna þegar kemur að opinberri umræðu í aðdraganda kosninga. Sagði enginn. Aldrei. Sjóðheitt slúður, rógburður um menn og málefni, svikabrigsl og samsæriskenningar hér rétt handan við hornið – auk glórulauss pólitísks áróðurs…..en fyrst auglýsingar.

Kjósendur athugið – hin margrómaða og sívinsæla loforðasúpa er nú loksins fáanleg aftur. Tilbúin á örfáum mínútum. Ekki samt sjóða hana of mikið, þá hleypur allt í kekki. Knorr, kemur með pólitíska bragðið.

Talandi um auglýsingar. Nú er auglýst að jólamandarínurnar séu komnar í búðir. Þetta er ekki rétt. Það er 28. október, þetta eru mandarínur – ekki jólamandarínur. Það er líka komið svokallað jólaöl í búðir. Þetta er afar villandi. Það er 28. október, þetta er öl í vitlausum umbúðum – ekki jólaöl. Ónafngreindar búðir auglýsa: skreytum fyrir jólin. Það er um að gera. Eftir svona mánuð kannski. Í dag er 28. október og ég finn hvernig háræðarnar eru farnar að tútna út og ég er byrjaður að vera pínu brjálaður út af ástandinu.

Nokkrir jólasveinar eru nú þegar komnir til byggða, tæpum tveimur mánuðum fyrir jól. Ástæðan er ekki bara græðgi kaupmanna heldur líka alþingiskosningarnar sem eru á morgun. Bæði þurfa jólasveinarnir að kjósa eins og aðrir og eins skipa nokkrir þeirra sæti á framboðslistum – sumir jafnvel mjög ofarlega.

Hneyksli vikunnar: Hin ameríska hrekkjavaka, halló vín, virðist vera að ryðja sér til rúms….eins og ástandið hafi ekki verið nógu hryllilegt fyrir. Líkt og ég hef áður sagt mega kaupmenn troða þessu Halloweeni beinustu leið upp í Hrekkjavökuna á sér – og einbeita sér að því í staðinn að efla hinn íslenzka Öskudag. Annars kvíði ég þeim degi þegar jólasveinarnir verða farnir að auglýsa grasker til sölu í Kostkó um miðjan október – en það virðist vera þróunin haldi fram sem horfir. Það er líklega það sem þið viljið, fíflin ykkar.

Stjórnmálamenn og frambjóðendur lofa öllu fögru nú fyrir kosningar. Bætt heilbrigðiskerfi, betra menntakerfi, bætt kjör aldraðra og öryrkja, meiri umhverfisvernd, meiri jöfnuð og minna sukk. Enginn flokkanna hefur hins vegar sett það á oddinn að banna gengdarlausa markaðssetningu jólanna í október. Forgangsröðunin í þessu þjóðfélagi er algjörlega galin.

Jólalandið í Blómavali er kjörinn staður fyrir börnin þessa helgina þar sem það verður boðið upp á ókeypis ís á laugardaginn. Einhverjir voru orðnir smeykir um að jólalandið myndi bara alls ekki opna þetta árið en það opnaði reyndar um síðustu helgi. Fyrsta vetrardag. Einmitt. Ég held það dugi ekkert minna en lagasetning á þessa vitleysu. Já og meðan ég man, þessi pistill er enn í fullu gildi – þetta verður því miður bara enn fyrr á ferðinni í ár ef að líkum lætur 🙁

Góðærið er svo sannarlega komið aftur. En er það komið til að vera? Ég treysti því ekki. Svona til að tryggja að ég fengi minn skerf er ég búinn að fara í tvær utanlandsferðir á þessu ári (sturluð staðreynd!), ég er búinn að skreppa til Parísar og Lissabon og vera samtals í 5 daga (önnur sturluð staðreynd). Og ég verslaði ekkert í H&M. Ég læt þessa erlendu kaupmenn sko ekkert plata mig, frekar kaupi ég fatalufsurnar á mig dýrum dómum hér á landi (að vísu erlend föt yfirleitt) og læt ekki bjóða mér neitt annað.

Fjöldinn faldar alda öld
galdra gjöldin gjalda
Völdin valdar tjalda tjöld
kaldra kvöldin kvalda.

Jólin þín byrja ekki í IKEA, þau byrja þegar kviknar í jólageitinni utan við IKEA.

Einar auður og ógildur.

Tilvitnun dagsins:
Allir: Kjóstu mig, annars………