Greinasafn fyrir merki: hlaupa á sig

Orðin langþráð

Þjóðlegu lesendur.

Já nú styttist í stóru stundina. Þetta er bara alveg við það að bresta á. Fólk iðar í skinninu og fæstir geta á heilum sér tekið af spenningi. Hátíðarstemmningin ríður húsum og glampinn er kominn í augun. Um hvað er ég að tala? Menningarnótt í Reykjavík? Nei, ég er að tala um þessa bloggfærslu sem ég hef nú loksins ákveðið að skrifa. Kannski lögmálið um framboð og eftirspurn eigi við um þessa bloggsíðu eftir allt saman?

Síðan ég lét til skarar skríða síðast hér á öldum ljósvakans hefur ýmislegt mis gáfulegt á daga mína drifið líkt og nærri má geta. Það má til dæmis nefna það að ég fór á rúntinn um verslunarmannahelgina og endaði í Þorlákshöfn, af öllum stöðum. Ég komst bara ekki lengra. Af góðmennsku minni hljóp ég undir bagga með ungmennafélagshreyfingunni og framkvæmdastjóra UMSE og flutti dót til Þorlákshafnar vegna Unglingalandsmóts UMFÍ sem þar var haldið í roki, rigningu, sól og blíðu til skiptis. Í stað þess að hlaupa undir bagga hljóp ég á mig því þegar ég pakkaði samkomutjaldi UMSE á Dalvík gleymdi ég tjaldsúlunum. Það var því lítið hægt að tjalda samkomutjaldi UMSE í Þorlákshöfn þegar til átti að taka. Þökk sé samkomutjaldi Kiwanisklúbbs Þorlákshafnar bjargaðist málið og enginn varð úti þrátt fyrir slagveður fyrsta daginn. Það var fullt af fólki úti en fólkið varð ekki úti. Þegar ég hafði gert nægan óskunda í Þorlákshöfn og nágrannabæjum yfirgaf ég svæðið að kveldi föstudags og hélt til Reykjavíkur. Um leið og ég fór tók sólin að skína í Þorlákshöfn.

Verslunarmannahelgarsvaðilfarir mínar náðu öðrum hápunkti á föstudagskvöldinu því ekki einungis tókst mér að keyra klakklaust til Reykjavíkur heldur rambaði ég á áfangastað í fyrstu tilraun. Breiðholt. Gettóið. Það þekki ég greinilega eins og handarbakið á mér. Eftir gott stopp hjá Dodda vini mínum og frænda og Halldóru, eða Halldóru hans Dodda eins og ég kýs að kalla hana, hélt ég heim á leið seinni partinn á laugardag í glaða sólskini. Í stað þess að taka puttaferðalang með norður tók ég 50 skópör og gerði það sama gagn þegar uppi var staðið. Ofur Súbbi skilaði mér alla leið heim í Svarfaðardal rétt í þann mund sem veðurfréttirnar klukkan 22:10 voru lesnar. Ég lét þó ekki þar við sitja heldur fór beint út á lífið og heimsótti heitustu útihátíð Svarfaðardals hverja verslunarmannahelgi, Halló Steindyr. Þar dvaldi ég meira og minna þar til helgin var um garð gengin og ég úr mér genginn. Hvað lærði ég svo af þessu öllu? Ég lærði að það er langt til Þorlákshafnar, hver vegur að heiman er vegurinn heim og Selfoss er stórborg á sunnlenskan mælikvarða. Svo lærði ég líka að engin er rós án þyrna, ekkert er tjaldið án tjaldsúlna og enginn er spámaður í sínu föðurlandi. Það útskýrir hvers vegna allir starfsmenn Veðurstofu Íslands eru útlendingar. Hmm…ég þarf kannski að skoða þessa speki aðeins betur.

Varla er hægt að tala um að samkomuhúsið Höfði í Svarfaðardal sé komið á kortið, því Höfði hefur aldrei farið út af kortinu. Þetta vita Svarfdælingar sem mætt hafa á gangnaball á Höfða ár eftir ár frá því um miðja síðustu öld – og aldrei klikkar það ball. Nú eru fleiri en Svarfdælingar að uppgötva þennan falda fjársjóð sem leynist í framanverðum Svarfaðardal. Miðvikudagskvöldið fyrir Fiskidaginn (mjög)mikla héldu Jón Ólafs og Hildur Vala tónleika á Höfða. Fyrir þá sem ekki vita þá eru þetta landsfrægir tónlistarmenn. Lið að sunnan. Stórmerkilegt. Einar Haf og Sigurlaug Hanna voru staðarhaldarar, kaffiuppáhellarar og ljósamenn – og var afar vel látið af 35 ljósa seríunni sem hengd var upp á sviðinu. Jón Ólafs fékk mig til að rukka inn og fórst mér það vel úr hendi. Flestir greiddu einmitt út í hönd. Um 55 manns komu á tónleikana og var gerður góður rómur af. Jón og Hildur Vala vissu til að byrja með ekki í hvers lags útnára þau væru komin enda var malbikið löngu búið og leðjubrúnn holóttur malarvegur tekinn við. Þau voru hins vegar himinsæl með hvernig til tókst. Hver veit hver heldur tónleika á Höfða næst? Það er ekki gott að segja. Það eina sem vitað er er það að næsta gigg í húsinu er hið árlega gangnaball sunnudagskvöldið 9. september þar sem Stulli og Danni leika fyrir dansi. Eigi þakið ekki að rifna af húsinu þegar stemmningin nær hámarki þarf trúlega að grípa til fyrirbyggjandi aðgerða og festa þakið betur, jafnvel binda það niður.

Fiskidagurinn rosamikli var haldinn hátíðlegur á Dalvík um síðustu helgi og tókst afar vel í öllum megin atriðum. Gríðarlegur mannfjöldi var á staðnum og bakaði sig í sólinni, gæddi sér á fiskréttum ýmiskonar og fylgdist síðan agndofa með stórum stórtónleikum, risastórri flugeldasýningu og tilkomumiklum dekkjabruna að kveldi laugardagsins. Ég var viðstaddur þetta allt saman og hafði gaman af. Ég var auðvitað mættur á hátíðarsvæðið rétt eftir að hátíðin hófst og reyndi að innbyrða eins mikinn mat og ég gat fram til kl. 17:00. Ég vil meina að þar hafi ég sýnt alla mína helstu styrkleika og því fylgdi ég svo eftir með vel heppnuðu kaffihlaðborði kvenfélagsins Tilraunar í Tunguseli daginn eftir. Ég er ennþá að trappa mig niður eftir (m)atganginn og er að verða kominn aftur í fyrra horf. Til dæmis borðaði ég bara fjórar vorrúllur í kvöldmatnum áðan. Þegar öllu er á botninn hvolft er það þó þannig að það er engin raunveruleg þörf á því að Samherji hf. og vinir séu að hafa fyrir því að bjóða upp á allan þennan mat. Ef þú þekkir rétta fólkið og ert með réttu samböndin er vel hægt að brauðfæða þúsundir manna með 5 brauðum og 2 fiskum.

Næsta laugardag munu þúsundir manna taka þátt í Reykjavíkurmaraþoni Íslandsbanka og keppast við að hlaupa á brott frá yfirdráttarlánum og okurvöxtum. Þar verður sprett úr spori og hlaupið til síðasta blóð- og svitadropa fyrir gott málefni. Þó vissuleg sé ekki hlaupið að því. Keppt verður í nokkrum flokkum í maraþoninu venju samkvæmt. Fyrstir af stað verða þeir sem ætla að hlaupast undan merkjum, skömmu síðar verða þeir ræstir af stað sem hlaupa í þvotti og um hádegi fer ávaxtahlaupið af stað. Lífsgæðakapphlaupið stendur yfir allan daginn venju samkvæmt. Ég stefni á að hlaupa í spik sem nemur um 2,5 kg. um helgina. Þeir sem vilja heita á mig geta lagt inn á reikning Umf. Þorsteins Svörfuðar 0177-26-576, kt. 560694-2969.

Í kjörbúð kjötið vil ég kaupa
í fríum ég vil stanslaust staupa
mig og hætt’að rymja og raupa –
í mikið spik ég senn mun hlaupa.

Þess má til gamans geta að uppáhalds hlaupið hans Usain Bolt er rækjuhlaup.

Einar hlaupinn.

Tilvitnun dagsins:
>Allir: MENNING!!!