Greinasafn fyrir merki: gleymt og grafið

Orðin hættuleg

Skaðræðislegu lesendur.

Er ekki kominn tími til að hysja upp um sig buxurnar og sætta sig við þá staðreynd að Einar Haf er aftur byrjaður í blogginu? Nei, það á kannski ekki við að hysja upp um sig buxurnar í þessu tilfelli. Frekar kannski að loka hurðinni, slökkva á tölvunni og breiða upp fyrir haus. Þess má geta að þessi bloggfærsla var einmitt skrifuð þannig.

Alþjóða heilbrigðismálastofnunin hefur nú komist að þeirri niðurstöðu að unnar kjötvörur séu krabbameinsvaldandi. Ekki náðist í Unnar kjötvörur við gerð þessarar bloggfærslu. Reynt var að hafa samband við nokkra starfandi kjötiðnaðarmenn sem heita Unnar en þeir vildu ekki kannast við að vera kallaðir Unnar kjötvörur, hvað þá að vera krabbameinsvaldandi. Þetta er augljóslega frekar snúið mál og þar af leiðandi borin von að ég nái að ráða mig fram úr því.

Maður er það sem maður borðar, þess vegna er ég eins og gamalt bjúga í framan.

Tónlistarhátíðin Icelandic Airwaves stendur nú sem hæst í Reykjavík. Þeir sem fylgjast með fjölmiðlum eða samfélagsmiðlum hafa tæplega komist hjá því að fá fréttir af þessari hátíð, hvort sem þeir kæra sig um það eða ekki. Fjölmargir tónlistarmenn koma fram aftur og aftur og fram og aftur á hátíðinni og enn fleiri koma ekki fram á hátíðinni heldur utan hátíðar. Hvað á ég við? Ég er að tala um fyrirbærið sem heitir Offvenjú eða afvenju upp á íslensku. Ég er að vísu litlu nær um hvernig þetta nákvæmlega virkar, en ég veit þó að það er ekkert minna móðins að koma fram afvenju heldur en á hátíðinni sjálfri. Svo það sé á hreinu þá kemst enginn hjá því að detta hressilega í það á þessari hátíð, hvort sem það er að venju eða offvenjú.

Viðskiptabann Rússa, eru allir búnir að gleyma því? Banninu sem átti að setja þjóðina á vonarvöl?Greinilega. Umfjöllun um bannið hvarf eins hratt úr kastljósi fjölmiðlanna og „tónlistarmaðurinn“ Gísli Pálmi eftir fúkyrðaflauminn sem hann var fenginn til að flytja í beinni útsendingu á Arnarhóli á menningarnæturgamni Reykjavíkur nú í sumar. Eru þið að fokking heyra í mér Arnarhóll? Þessu spurði hann að í sífellu. Flott hjá honum. Annað sem er horfið með öllu; innihaldslýsingahneykslið. Hver man til dæmis eftir Gæðakokkum í Borgarnesi? Og Dow Jones vísitalan, hvað fylgjast margir með henni í dag? Edward Snowden?

Talandi um snow. Eða snjó. Nú þegar kominn er 5. nóvember er enn snjólaust í Svarfaðardal og nágrenni og kindur úti á beit. Yndislegt. Einar Haf er auðvitað kominn á þrælnegld nagladekk og refsar malbikinu grimmilega daginn út og inn á Súbarú fák sínum. Ég meina, það þarf að refsa einhverjum fyrir það að ég setti nagladekkin undir um daginn – það er alveg eins gott að malbikið taki skellinn. Malarveginum í fram-Svarfaðardal er erfiðara að refsa, hann refsar öllum sem um hann keyra með miskunnarlausum drulluslettum sem engu hlífa. Ég lít á björtu hliðarnar, það er bara töff að keyra um á bíl sem er blár að ofan og leðjubrúnn að neðan.

Tónlistin er tær og hrein og fögur
tímalaus og listileg í senn, jú
Bloggfærslan er bagaleg og mögur
best væri að hafa’na off venjú.

Þess má geta að þeir sem ekki nenna að lesa þessa bloggfærslu geta beðið eftir bíómyndinni. Ekki bíómyndinni um bloggfærsluna heldur bara einhverri bíómynd. Mér er alveg sama.

Einar afvenju.

Tilvitnun dagsins:
Marge: „I’d really like to give this a try.“
Homer: „I dunno, trying is the first step towards failure…“.