Greinasafn fyrir merki: fjári góður

Orðin gangandi

Skriðþungu lesendur.

Já nú er kominn september, skrambi vel það líkar mér. Bý ég mig upp og í göngur fer, það ákaflega gaman er.

Ég þarf raunar ekki að koma neinu öðru á framfæri hér í þessari bloggfærslu, þetta er alveg nóg og raunar lýsandi fyrir allt það sem á eftir kann að koma. Að minnsta kosti það sem ég er að hugsa.

Það eru kannski engar fréttir en göngur og réttir fóru fram í Svarfaðardal um síðustu helgi. Þá er ég auðvitað að tala um fyrstu göngur og fyrstu réttir en síðar meir verða svo aðrar göngur og aðrar réttir og svo allt aðrar göngur og allt aðrar réttir helgarnar þar á eftir. Veðrið um gangnahelgina fyrstu var eins og best verður á kosið, Svarfaðardalurinn skartaði sínu fegursta, gangnamenn skörtuðu sínu fegursta og þær kindur sem sáust og komu sér til byggða skörtuðu líka sínu fegursta. Gangnanammið var mjög gott sem og blandið. Föstudagurinn var sólríkur og hlýr og hægði það nokkuð á kindum og gangnamönnum. Vegna niðurskurðar (á fjár-lögum) hafði ég ekkert eigið fé að hugsa um en gat þess í stað einbeitt mér að annarra manna fé. Laugardagurinn var góðviðrasamur og sólríkur með köflum eftir hádegi. Ég gekk fyrir Gunnar á Göngustöðum og notaði ég til þess göngustaf. Ferðinni var heitið upp á þverdal sem er inn af Skallárdal en ég hafði ekki komið þangað áður. Þar var lítið að sjá annað en grjótskriður og sex kindur, svokallaða steinbíta. Allar skiluðu þær sér heim til byggða og ég skilaði mér þangað einnig þegar fram liðu stundir. Eftir að hafa gert skil á Göngustöðum og gert hákarli, harðfiski og blandinu sem ég hafði meðferðis skil var komið að nokkrum vafasömum bílferðum og einnig gamansömum bílferðum þar sem leiðin lá meðal annars um Búrfell, Tungurétt og hlaðið í Brekku. Loks var endað á Skáldalæk þar sem fjörið var mikið, söngurinn kraftmikill og kjötsúpan góð. Gaman. Nei afsakið, GAAMAAANNN!!! Á sunnudeginum var réttað í Tungurétt þangað sem safnið úr Sveinsstaðaafrétt var rekið. Þar var stemmning góð og kvenfélagskaffið var líka mjög gott. Teitið á Steindyrum í beinu framhaldi var líka afar gott, kálfakjötið var mjög gott og áramótaskaupið 1985 var sérlega gott í ár. Gangnagamanið náði loks hámarki með hinu árlega gangnaballi í samkomuhúsinu Höfða á sunnudagskvöldið. Þar var mikill glaumur og gleði og allt fór vel fram innandyra sem utan, þökk sé faglegri siðgæðisvörslu, fumlausri miðasölu og fáguðum danstöktum Einars Haf og félaga hans í Höfðagenginu. Undirspil var í höndum Landabandsins og stóð bandið sig mjög vel. Það eina sem vantaði var Stulli sjálfur og syrpa með slögurum á borð við One Way Ticket – en það þarf alltaf að vera hægt að toppa sig og gera betur á næsta ári og það er þá eitthvað sem hægt er að stefna á. Þegar Einar og vinir voru búnir að safna saman dósum, slökkva ljósin og læsa húsinu var hægt að loka flottri helgi og halda heim á leið um tvö eftir miðnætti í svarta þoku. Helgarnar gerast ekki mikið betri en þetta.

Íslenska karlalandsliðið í knattspyrnu er á góðri leið með að ná fyrri lægðum og verða eins gott og það var fyrir síðasta hrun. Strákarnir okkar gerðu þó sitt besta gegn gríðarlega öflugu liði Belga og töpuðu bara 0-3 en liðið gerði nánast allt sitt versta í leiknum þar á undan þegar Sviss malaði okkur 6-0. Þessu nýja gengi okkar manna er Eric Hamrén nýráðnum landsliðsþjálfara að þakka en hann var fenginn til að stýra liðinu eftir að Heimir tannlæknir hætti að nenna að bíta á jaxlinn. Margir okkar helstu lykilmanna eru meiddir og þeir sem ekki eru meiddir ganga ekki heilir til skógar. Íslendingar eru vanir sveiflum í gengi krónunnar og knattspyrnulandsliðanna þannig að það stoðar lítt að fárast yfir þessu. Eða tárast.

Talandi um landslið. Íslenska ráðherralandsliðið hefur nú hafið nýtt keppnistímabil og lagt fram fjárlagafrumvarp fyrir næsta ár. Þeir sem ekki komust í ráðherralandsliðið á þessu kjörtímabili eru vitaskuld hundfúlir með gang mála og telja alltof lítið að gert. Eða alltof mikið að gert. Allavega ekki hæfilega mikið eða lítið að gert. Katrín Jak. fyrirliði lætur engan bilbug á sér finna þrátt fyrir að hafa glímt við sundrungu og pólitísk meiðsli undanfarið. Guðni Th. landsliðseinvaldur hvetur sitt fólk til dáða og leggur áherslu á að allir eigi að vera vinir hvort sem þeir eru í byrjunarliðinu eða á bekknum en þeir sem ekki voru valdir í byrjunarliðið sitja einmitt grautfúlir á bekknum. Ólíkt mörgum öðrum landsliðum hefur þetta ráðherralið afar breiða skírskotun og málefnagrunn þvert á línur. Línurnar á vellinum það er að segja. Liðið spilar svokallað 3-5-3 kerfi sem hefur ekki tíðkast hér á landi hingað til. Þrír vinstri kantmenn, þrír í framsókn og fimm sjálfstæðir leikmenn sem mega vera hvar á vellinum sem þeir vilja (e. free role). Tíminn mun leiða það í ljós hvort þetta kerfi gangi upp eða ekki en ef illa fer er óhætt að fara í kerfi.

Í næsta mánuði verða liðin heil 10 ár frá íslenska efnahagshruninu og Guð blessi Ísland ræðunni frægu sem sjónvarpað var beint ofan í kokið á landsmönnum í októberbyrjun 2008. Þrátt fyrir þetta gríðarlega áfall sem hrunið var tókst Íslendingum að vinna sig upp aftur og eru nú á ný meðal ríkustu þjóða heims. Haldið verður upp á afmæli hrunsins með ýmsum hætti og er ýmislegt í bígerð hvað það áhrærir. Eitt metnaðarfyllsta atriðið í tilefni afmælisins verður væntanlega hátíðarsýning Þjóðminjasafnsins sem ber yfirskriftina „Maybe I Should Have“. Þar mun geta að líta ýmsar þjóðargersemar og margvíslega muni sem komu við sögu í hruninu eins og t.d. innbundið eintak af sjónvarpsávarpi Geir Haarde, bankastjórastólinn sem Davíð neitaði að yfirgefa í Seðlabankanum (með upprunalegu sessunni), nokkra vel valda Icesave innlánsreikninga í boði skilanefndar gamla Landsbankans og þá verður til sýnis afar fágæt myndbandsupptaka þar sem sést hvar allir æðstu stjórnendur og millistjórnendur gömlu bankanna hvítþvo hendur sínar upp úr tárum yfirskuldsettra og þeirra sem voru með gjaldeyrislán. Sirkus Íslands verður einnig með hátíðarsýningu á Kirkjusandi í tilefni af hrunafmælinu þar sem verður meðal annars boðið upp á lánalínudansara og sjónhverfingar með opinbert fé.

Átti þessi færsla ekki að vera lengri? Nei ekki núna, ég hafði ekki efni á að borga meira í færslugjöld. Það gengur bara betur næst.

Víða um fjöllin farið hef
í fantaformi og með kvef.
Hruflað hef ég læri og hné
en oftast líka fundið fé
það er fundið fé.

Þess má til gamans geta að það er misjafn sauður í mörgu fé þó ekki sé það endilega úlfur í sauðagæru.

Einar genginn….til náða.

Tilvitnun dagsins:
Allir: GAAAMMAAAANNNN!!!!!