Einu lesendur.
Eins og einhverjir vita fór ég nýverið á námskeið í skapandi skrifum með það að leiðarljósi að bæta mig í ritun bloggfærsluinnganga. Einhverjir vita? Allt í lagi, það vita þetta væntanlega engir en þetta upplýsist þá hér með. Upplýsist? Til hvers að upplýsa eitthvað á síðu sem enginn les? Iss, ég get alveg verið í afneitun eins og aðrir. Ekki ætla ég að horfast í augu við sannleikann. Frekar ætla ég að halda áfram þessu röfli. Þetta námskeið í skapandi skrifum var greinilega hverrar krónu virði. Þessi inngangur er að minnsta kosti sá besti hjá mér hingað til.
Rithöfundarferill minn hefur ekki farið á flug enn sem komið er þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir mínar í þá veruna. Vissulega er við ramman reip að draga og auðvitað bind ég bagga mína ekki sömu hnútum og aðrir enda allt komið í hnút. Hjá mér. Mínir helstu markhópar eru sjónskert gamalmenni og ellihrumir einstaklingar sem farnir eru að tapa rænu og ráði. Þeir hafa yfirleitt óskaplega gaman af því að lesa þessi skrif mín en þeir hafa reyndar líka gaman af lestri lyfseðla, símaskráa og stjórnarsáttmála. Þeir sem eru sjóndaprir hafa meira að segja gaman af að hitta mig í eigin persónu, merkilegt nokk. Það eru reyndar ekki bara þeir sem eru sjónskertir sem hafa gaman af þessu heldur hef ég heyrt um nokkra vitskerta einstaklinga sem hafa býsna gaman af þessu öllu saman. Líkir sækja líkan heim.
Nú hefur bardagakappi í UFC bardagakeppninni sívinsælu verið kærður fyrir líkamsárás. Svona fer fyrir þeim sem taka vinnuna með sér heim á kvöldin. Stundum er þetta spurning um að láta slag standa en það er samt ekki alltaf lausnin á vandanum. Að fara í slag það er að segja. Munum bara að Gunnar Nelson er okkar maður, hann er góð fyrirmynd og fyrirmynd ungra drengja. Hvað hefur Gunnar kennt okkur? Nú auðvitað það að ef þú ætlar að láta berja þig í hausinn með krepptum hnefa er eins gott að fá alveg ofboðslega mikið borgað fyrir það.
Nú hefur komið í ljós að bíræfinn norskur pappakassi stal laginu Söknuður af Jóhanni Helgasyni um hábjartan dag, samdi lagið upp á nýtt í algjöru leyfisleysi og lét svo Josh grobbna Groban syngja það á engilsaxnesku með tugmilljarða króna hagnaði. Þetta kemur eflaust einhverjum spánskt…eða norskt…fyrir sjónir en þetta ætti þó ekki að koma neinum á óvart. Raunar hafa Norðmenn reynt að hefna sín á okkur Íslendingum alveg síðan á 11. öld þegar hérlendir víkingar sigldu þangað og rændu og rupluðu öllu sem hönd á festi. Nú náðu þeir aldeilis að hefna sín. Að vísu voru víkingarnir meira og minna norskir öreigar og flóttamenn en það er önnur saga. Íslandssaga. Það er alltaf sama sagan með þessa Norðmenn, ævinlega tekst þeim að snúa á okkur.
Samskiptamiðillinn geðþekki Facebook er mörgum ofarlega í huga þessa dagana. Í tilefni þess að stór hluti mannkyns er nú orðinn háður notkun forritsins græskulausa og nútímamaðurinn er meira og minna orðinn þræll snjallsíma og annarra tækninýjunga hafa forsvarsmenn Facebook ákveðið að nú sé rétti tíminn til að leka afar viðkvæmum trúnaðarupplýsingum til hinna og þessara aðila sem gætu náð pólitískum völdum og grætt stórfé á notkun upplýsinganna. Ef ekki nú þá hvenær? Facebook er ókeypis, hefur alltaf verið ókeypis og verður það alltaf samkvæmt því sem stendur á facebook.com innskráningarsíðunni. Spaugið gæti þó orðið mjög dýrt þegar upp verður staðið enda hafa tapast einhverjir milljarðatugir á hlutabréfamarkaðnum undanfarið í kjölfar frétta af lekanum. Hvernig veit ég allt þetta? Ég las það á facebook og gerði auðvitað læk jafn harðan.
Ljósmæður segja nú upp störfum í stórum stíl. Nýir kjarasamningar hafa verið afar lengi í burðarliðnum en þetta ætlar aldeilis að vera erfið fæðing. Sko, kjarasamningarnir. Æi, skiptir ekki. Næsta mál.
Útihátíðin Ak Extreme fór fram um helgina og urðu einhverjir úti. Auðvitað geta þessir vélsleðabrjálæðingar og snjóbrettaóðu apakettir ekki haft nafnið á hátíðinni íslenskt. Ak Extreme gæti þýðst sem Ak óvarlega eða Ak út í öfgar en nei nei, að sjálfsögðu skal nafnið vera á ensku. Ætli það sé gert ferðamannanna vegna? Er nú ekki nóg komið. Er ekki tímabært að staldra ögn við. Meira að segja erlendir ferðamenn eru komnir með upp í kok af erlendum ferðamönnum hér á landi samkvæmt nýjustu könnunum.
Nú um helgina var íslenska júróvísjónframlaginu slátrað í umfjöllun Ríkissjónvarpsins um júróvísionframlög heimsbyggðarinnar þetta vorið. Menn óttast jafnvel að útreiðin verði eins slæm og árið 1989 þegar Daníel Ágúst söng um það sem enginn sér sem voru einmitt stig Íslands í keppninni það árið. Ari okkar Ólafsson ætlar að syngja, að vísu á ensku, um okkar val í söngvakeppni evrópskra sjónvarpsstöðva í Lissabon í maí næstkomandi og þetta eru þakkirnar. Aumingja Ari. Maður gæti varla verið tárvot….ari. Hvernig mun þetta svo allt ganga? Ætli þetta fari ekki þannig að Norðmenn steli okkar lagi, útsetji á annan hátt og standi upp sem sigurvegarar? Bölvuð svínin.
Kúguð, smáð og sorgmædd þjóð
syngur lög og semur ljóð
sem aðrir reyna að stela.
Af óréttlæti verðum óð
almenningur heimtar blóð
hrottar sig nú fela.
Eina þó við eigum von,
Jóhann Okkar Helgason.
Þess má til gamans geta að þessi bloggfærsla er í raun norskt verðlaunahandrit en það fattar það enginn þar sem útsetningin er allt önnur.
Einar afsettur og útsettur.
Tilvitnun dagsins:
Allir: LÆK!!!