Greinasafn fyrir merki: bundinn

Orðin bundin

Strengdu lesendur.

Varúð, þema þessarar bloggfærslu er bundið. Með eða án samþykkis ykkar.

Já, fólk er bundið í ýmsu þessa dagana. Sumt fólk er bundið yfir snjallsímunum, annað fólk er bundið yfir sjónvarpsdagskránni og enn annað fólk er bundið við heimilisstörfin. Svo eru sumir líka bundnir við BDSM iðju. Sama yfir hverju fólk er bundið og við hvað fólk er bundið og á hvaða hátt fólk er bundið er ljóst að samfélagsmiðlarnir nötra.

Sumir ganga bundnir til kosninga. Það hlýtur að vera erfitt. Og tafsamt. Langflestir kjósa að ganga óbundnir til kosninga og er það vel. Sumir eru bundnir trúnaði. Aðrir eru bundnir þagnarskyldu. Enn aðrir eru tímabundnir. Verst af öllu er að vera bundinn einhvers staðar í ókunnri íbúð. Get ég ímyndað mér. Ég er ekki bundinn af þessum ummælum er það nokkuð? Enn nötra samfélagsmiðlarnir.

Næst á dagskrá er bundið mál sem Kalli heitinn í Klaufabrekknakoti kenndi mér og ég hef bundið trúss mitt við:
Einar minn ó já, ekki fór á fundinn
heima í leti latt lá, líkt og hundur bundinn
flösku hefði þurft að hella ofan í hundinn
því hrygg var lundin.

Þar hafið þið það. Eins og kom fram áðan nötra samfélagsmiðlar. Hvers vegna? Vegna þess að einhver fannst með reipi og svipu heima hjá sér? Nei, vegna þess að nú eru allir í því að vera brjálaðir og hneykslast á því opinberlega að meintar nauðganir meintra nauðgara hafi ekki orðið til þess að meintum sakborningum hafi verið kippt í meint gæsluvarðhald. Meint fólk út í bæ ákvað að birta meintar myndir af meintum sakborningum á netinu, nafngreina þá og fjalla um á ýmiskonar meintan hátt. Lögfræðingar meintra fórnarlamba og meintra sakborninga eru brjálaðir og fyrirséð er að meintar kærur munu fljúga á milli, þannig að fyrir rest verða allir búnir að kæra alla fyrir leka, myndbirtingar, ærumeiðandi ummæli, spillingu rannsóknarhagsmuna og fleira. Raunar verður allt kært nema meintar nauðganir, sem er furðulegt í ljósi þess hvernig þetta mál allt saman er til komið.

Meintur fjölmiðlamaður, sem er reyndar ekki bundinn, lét hafa eftir sér opinberlega nýverið að betur sæmdi að flytja fólk til höfuðborgarinnar og borga því fyrir það heldur en að ausa fé í hinar og þessar tittlingaskíts framkvæmdir á landsbyggðinni sem engu munu skila. Til hvers í ósköpunum ætti svo sem að byggja einhvern snjóflóðavarnargarð úti í rassgati þegar hægt er að nýta peningana í að efla verslun á Laugaveginum? Samfélagsmiðlarnir nötra og skjálfa.

Það er ekkert grín að skrifa heila bloggfærslu þar sem þemað er bundið í titil færslunnar. Kannski þess vegna sem engum stekkur bros á vör.

Eftir að Einar Haf byrjaði aftur að blogga fór landflótti af stað á nýjan leik. Nú er útlit fyrir að árið í ár slái öll met á síðari tímum þegar kemur að fjölda þeirra íslensku ríkisborgara sem flytja úr landi. Ég á sök á þó nokkuð mörgum landflóttum. Til dæmis gerði ég skattframtalið fyrir systur mína núna síðast, hún er flutt til Danmerkur. Tilviljun? Kannski er ég bara heppinn að hún flutti ekki enn lengra í burtu, svona þegar ég skoða skattframtalið betur. En það er annað mál.

Fyrst að samfélagsmiðlarnir nötra svona í sífellu, má ekki bara binda þá?

Margur er maður óheflaður
í myrkvaðri íbúð er keflaður
bundinn við stól
brátt koma jól
háls minn er býsna vel treflaður.

Hmm…þetta bundna mál var býsna laust í reipunum, ekki satt?

Einar óheflaður, en ekki keflaður.

Tilvitnun dagsins:
Hljómsveitin Queen: Tie Your Mother Down!