Góðir Íslendingar.
Það er til siðs og raunar ekkert annað en sjálfsögð kurteisi að staldra ögn við á tímamótum eins og þeim sem við stöndum nú á og líta til baka yfir farinn veg. Því þó svo að við vitum ekkert hvert við erum að fara er ágætt að skoða hvaðan við erum að koma. Sagði enginn. Aldrei. Áramótahugvekjur eru afar hentugar til þess að koma á lymskufullan hátt annarlegum skoðunum og hugsjónum hugvekjuhöfundar á framfæri í dulbúningi – og rugla þannig lesendur í ríminu. Efni hugvekjunnar er að mestu endurunnið úr fyrri hugvekjum, því þetta eru jú ekki fyrstu áramótin sem skollið hafa á.
Íslendingar eru þrautseig þjóð. Íbúar þessa lands hafa frá örófi alda staðið saman gegn hvers kyns ógnunum og hindrunum og hafa ekki látið sundurlyndi og óeiningu koma í veg fyrir framþróun og framfarir hvers konar. Hér hefur þjóðin þraukað við kröpp kjör og hrikaleg náttúruöfl og staðið saman gegnum þykkt og þunnt. Þjóðin var sem einn maður í IceSave deilunni, í þorskastríðinu og á tímum einokunar og kúgunar. Þjóðin stóð saman í forræðisdeilu Sophiu Hansen gegn Halim Al og þjóðin stóð saman til að fá því framgengt að Justin Bieber kæmi hingað og héldi tvenna tónleika. Já, þegar mest á reynir stendur þjóðin saman.
Við lifum á viðsjárverðum tímum. Veröldin er að hitna, jöklarnir bráðna og sjávarmál fer hækkandi. Landamæri eru að verða óskýrari og ofstæki og öfgar ná fram að ganga á ýmsum sviðum. Íslenskt rapp er orðið vinsælt og Gísli Pálmi þykir móðins. Já þetta eru frekar ógnvekjandi tímar sem við lifum á. Sem betur fer er líka margt sem er jákvætt. Fuglarnir syngja enn sinn söng, tún og engi grænka enn þegar vorar og sauðkindin gengur enn frjáls um fjallasali og kyrrláta dali sumardægrin löng.
Já þið lásuð rétt. Íslenska sauðkindin. Hvað annað? Hún var nokkuð milli tannanna á fólki á árinu sem er að líða. Sem betur fer, kindakjötið á að vera milli tannanna á fólki – rétt áður en það rennur ljúflega niður í maga. Blessuð sauðkindin, þessi tignarlega skepna sem hefur hjálpað íslenskri þjóð að þrauka hér á hjara veraldar gegnum aldirnar. Hún þarf sinn sess í hverri einustu áramótahugvekju, eigi að taka hugvekjuna alvarlega. Hún mun eftir sem áður hjálpa íslenskri þjóð að þrauka af á nýju ári. Það er að segja sauðkindin….ekki hugvekjan.
Þrátt fyrir fámennið gera Íslendingar það gott á hverjum degi vítt og breitt um veröldina. Við eigum íþróttafólk, kvikmyndagerðarfólk, tónlistarfólk, hugvitsmenn og sérfræðinga sem skara fram úr á sínum sviðum og bera hróður okkar um heimsbyggðina þvera og endilanga. Gunnar okkar Nelson gerir það gott og er góð fyrirmynd – þar sem hann hefur sýnt fram á að þó maður sé barinn í gólfið og lúskrað sé á manni er það í fína lagi ef launin eru nógu há. Kjarasamningar ársins tóku einmitt mið af þessu. Baltasar okkar Kormákur flýgur til og frá Hollywood eins og hann fái borgað fyrir það og leikstýrir hverju stykkinu á fætur öðru hvort sem er hérlendis eða erlendis eins og hann fái borgað fyrir það. Sem hann reyndar fær. Of Monsters and okkar Men spila út um hvippinn og hvappinn fyrir aragrúa fólks og kynna um leið land og þjóð. Að vísu á ensku, en allt í lagi. Hugvitsmenn og sérfræðingar eru fluttir út í stórum stíl og gera það gott um víðan heim. Þetta er kannski ekki æskileg þróun en ef það er huggun þá njóta þó að minnsta kosti einhverjir góðs af þessum íslensku gáfum.
Við Íslendingar megum ekki gleyma uppruna okkar. Víkingarnir fóru um heiminn fyrir þúsund árum og rændu, drápu og nauðguðu. Þessu megum við ekki gleyma og við eigum að vera stolt af okkar uppruna. Íslenskt þjóðlíf ber enn þann dag í dag keim af þessu. Næturlífið, hegðun fólks á samfélagsmiðlum og fleira í þeim dúr sannar það. Einu sinni vorum við fátæk þjóð sem mátti þola sult og volæði. Í dag erum við rík þjóð en samt er enn til staðar sultur og volæði. Talandi um sultur, þær voru góðar rabbarbarasulturnar og rifsberjasulturnar sem hún móðir mín sauð á árinu. Með svona sultur ætti sultur brátt að verða úr sögunni.
En hvað einkenndi árið sem er í þann mund að andast? Ýmislegt mætti nefna. Til dæmis alla gullmolana, bumbugullin, krúttmolana, æðibínurnar, prinsessurnar og gimsteinana sem komu í heiminn á árinu. Fasbókarsíður fylltust af myndum og frásögnum af þessum himnasendingum og gersemum, svo mjög að á köflum keyrði um þverbak. Það var eins og aldrei hefðu komið börn í heiminn áður. Hafa ber í huga að þessi áramótahugvekja er rituð af gömlum einsömlum fúlum kalli.
Góðir Íslendingar. Nýtt ár er handan við hornið. Hvað boðar nýárs blessuð sól? Hún boðar fleiri tæki og tól? Nei hún boðar glens og grín og gól? Nei ekki heldur. Hún boðar spikk og span og spól? Æi góði besti. Hún boðar náttúrunnar jól. Hvað sem það nú þýðir. Hann Matthías Jochumson velti þessu fyrir sér í meitluðu kvæði seint á 19. öld. Matthías hefði einmitt orðið 180 ára gamall nú á árinu sem er senn á enda runnið. Ekkert smá afmæli þar á ferð. Kveðskapur Matthíasar hefur fylgt þjóðinni í næstum því öll þessi ár. Hans helstu hittarar eru tvímælalaust Lofsöngurinn Ó Guð vors lands, Hvað boðar nýárs blessuð sól? og Fögur er foldin, sem var í 13 vikur samfleytt á toppi vinsældarlista Rásar 2 á sínum tíma. Við skulum hugleiða um stund og þakka fyrir íslenskan skálda- og sagnaarf. Við skulum líka þakka fyrir að þessi hugvekja er nú loksins að líða undir lok.
Aftur koma áramót
og enn er staðan býsna snúin
kannski er það sárabót
að þessi hugvekja er búin.
Að endingu vil ég þakka fyrir árið sem er alveg hér um bil að syngja sitt síðasta og springa í loft upp. Vonandi verður nýtt ár gæfuríkt og fullt af gleði og hamingju, þó ég leyfi mér að efast um það í ljósi þess að þessi bloggsíða er ennþá starfandi. Sjáum hvað setur.
Bessastöðum 31. desember 2015.
Einar Okkar Hafliðason
Tilvitnun dagsins:
Örvar: Fórst þú á áramótabrennu?
Bogi: Já en ég rétt slapp áður en þeir kveiktu í henni.