Greinasafn fyrir merki: bolla

Orð í matvöruverslanir

Skæðu lesendur.

Mikið er þetta nú búinn að vera góður mánuður það sem af er. Veðurblíðan hefur leikið við landsmenn, þjóðarskútan siglir lygnan sjó óravegu frá sjávarháskum og vígaslóðum, þingmennirnir okkar vinna störf sín af natni og fagmennsku og síðast en ekki síst þá hefur Einar Haf ekkert bloggað síðan hann var ritskoðaður út af þorrablótinu (til allrar lukku segja flestir). Því miður benda þessi inngangsorð þó til þess að friðurinn sé nú úti. Óveður er í aðsigi samkvæmt öllum þrýstnu línunum sem ég sá á veðurkortunum áðan, þjóðarskútan nálgast úfið brimrótið, þingmennirnir okkar eru enn og aftur farnir að tala um áfengi í matvöruverslanir og síðast en ekki síst, Einar Haf hefur risið úr öskustónni eins og skrímsladeild Sjálfstæðisflokksins og lætur nú í sér heyra þrátt fyrir afar takmarkaða eftirspurn. Auðvitað gilda markaðslögmálin ekki um Einar, hann lætur þau sem vind um eyru þjóta eins og svo fjölmargt annað.

Meðan beðið er eftir því að heilbrigðiskerfið verði endurreist er ágætt að drepa tímann með því að rökræða hvort rétt sé að selja áfengi í matvöruverslunum. Þetta er farið að hljóma eins og rispuð plata, sem það auðvitað er. Sérfræðingar hafa haldið því fram að drykkja komi til með að aukast um 40% nái þetta frumvarp fram að ganga. Það mun auðvitað þýða fjölgun salernisferða sem er bæði tímafrekt og stemmningsdrepandi. Ég meina, prófið þið bara að drekka 40% meira og gáið hvað gerist. Aukin drykkja mun hafa í för með sér fleiri og flóknari heilbrigðisvandamál, en það ætti svo sem að sleppa ef það verður farið beint í það að endurreisa heilbrigðiskerfið eftir að þetta drykkjuboltafrumvarp kemst á koppinn.

Þingmaður hélt því fram nýverið að hann gæti ekki safnað sér fyrir kaupum á íbúð. Þetta er auðvitað talsverður skellur, ekki síst fyrir kjararáð sem reyndi hvað það gat að koma þessu fólki á mannsæmandi laun í eitt skipti fyrir öll. Það hefur greinilega ekki tekist neitt sérstaklega vel sé rýnt í þessi ummæli. Einhverja rámar í að hafa mótmælt úrskurði kjararáðs á sínum tíma en það er allt gleymt í dag.

Topp 5 gleymdir skandalar (síðustu örfárra ára):
1. Arðgreiðslur tryggingafélaganna.
2. Iðnaðarsalt í matvælum.
3. Þegar Stöð 2 keypti sýningarréttinn af íslenska karlahandboltalandsliðinu.
4. Nautabakan sem innihélt ekkert nautakjöt.
5. Panamaskjölin.

Allt í lagi, þetta síðasta er kannski ekki gleymt – þó svo að núverandi forsætisráðherra hafi gleymt að leggja fram skýrslu um þessi mál fyrir kosningar. En það er nú ekki hægt að muna eftir öllu.

NASA telur sig nú hafa fundið plánetur í ca. 40 ljósára fjarlægð frá jörðinni þar sem gæti þrifist vitsmunalíf. Skattrannsóknarstjóri hefur nú þegar sett sig í samband við NASA til að fá frekari upplýsingar um þessa uppgötvun, enda verður það að teljast afar líklegt að íslenskir auð- og athafnamenn geymi fé sitt rækilega falið á þessum aflandsplánetum.

Menn setti hljóða nýverið þegar fréttir bárust af því að kjararáð hefði ákveðið að laun Birnu bankastjóra Íslandsbanka ætti að lækka um 40%. Síðar kom auðvitað á daginn að þetta var stafsetningarvilla, það átti að læka launin hennar en ekki lækka. Sem betur fer. Manni fór svo að líða ögn betur þegar fréttir bárust af því að framkvæmdastjórn hins ríkisrekna banka hefði fengið 300 milljónir króna í laun árið 2016 auk þess að hafa bíla til afnota á kostnað bankans. Hugsið ykkur, auðvitað getur þingmaður með 800 þús. kr. laun á mánuði eftir skatt ekki keypt íbúð ef 9 manns með 300 millj. kr. á ári geta ekki rekið nokkra bíla. Ég veit ekki með ykkur en mér líður allavega betur nú þegar ég veit fyrir víst að það er alvöru góðæri í landinu. Ekki svona platgóðæri eins og var þarna fyrir áratug síðan. Puff.

Síðustu misseri hefur nokkuð verið rætt um niðurfellingu tolla. Ekki náðist í Tolla við gerð þessarar bloggfærslu, þar af leiðandi treysti ég mér ekki til að tjá mig meira um þetta mál að svo stöddu.

Bollum vil ég bragða á
í björtum gleðiljóma
Íslendingsins blíða brá
brestur er hann kjamsar á
brasilískum rjóma.

Mmm Arthúr Björgvin Bolla, bolla, bolla.

Þess má til gamans geta að gengi krónunnar hélt áfram að styrkjast þrátt fyrir gerð þessarar bloggfærslu. Gengi Bandaríkjadollars hefur styrkst nokkuð að undanförnu en gengi yens hefur hins vegar fallið. Jens, hvað finnst þér um þetta? Jens: Ég er auðvitað ægilega skúffaður yfir þessu! (Sama og þegið, plata frá árinu 1985 með Karli Ágústi, Sigha Sigurjóns og Erni Árna, besta plata í heimi).

Einar aftur genginn.

Tilvitnun dagsins:
Allir: Hvar geymir Guðni ananasana?

Orðin bolluð

Bollulegu lesendur.

Já verði ykkur bollurnar að góðu, bollurnar ykkar. Nú er rjóminn á kinnunum, glassúrinn í munnvikunum og sultan í efri gómnum. Allt eins og það á að vera. Ét, drekk og ver glaðr, því svo hefst langafastan, eða sjöviknafastan, á miðvikudaginn og mun hún standa alveg fram að páskum. Það er ekki nóg með að þreyja þurfi þorrann, það þarf líka að fasta föstuna. Fast.

Hmm, þetta var furðulegur inngangur. En það er kannski ekki að undra, sykurmagnið í blóði undirritaðs er það hátt að það kemur ekkert vitrænt þaðan. Á morgun verður það svo saltið sem tekur öll völdin og loks verður það askan sem tryllir mann og annan á miðvikudaginn. Ég er einmitt bollulegur í dag, verð í spreng á morgun og svo öskuillur á miðvikudaginn. Tja, eða ekki.

Sumir (vitleysingar) ætla ekki að taka þátt í þessum átdögum eins og bollan ég og meirihluti þjóðarinnar. Þessir sömu vitleysingar borða bara heilsubollur á bolludaginn með geri og kókosrjóma og svo verða þeir fyrir vikið spengilegir á spengidaginn, bévaðir. Síðan afþakka þeir hinir sömu allt gotterí og sætindi á öskudaginn og syngja þess í stað bara fyrir ávexti, grænmeti og gras. Ég hef vitaskuld óbeit á þessu fólki sem hefur slíka sjálfstjórn – en ég hef reyndar þann löst að velgengni annarra veitir mér ekki ánægju heldur fyllir mig hatri og öfund. Það eru jú þeir hvatar sem drífa áfram þessa löngu úr sér gengnu bloggsíðu.

Er eitthvað að frétta annað en bollur, bollan þín? Eiginlega ekki. Atvinnubílstjóri hjá Strætó eyddi nýverið korteri í að skoða bollur í flotta skjástóra snjallsímanum sínum meðan hann keyrði greiðlega frá Menntaskólanum í Hamrahlíð að Hátúni í Reykjavík. Einhver hortitturinn tók atvikið upp á myndband með flotta skjástóra snjallsímanum sínum. Mér finnst fólk óþarflega æst út af þessu almennt séð, bílstjórinn er jú bara mannlegur og þar af leiðandi bolluáhugamaður. Síðan slógust 30 fullorðnir karlmenn blóðugum slagsmálum utan við Skeifuna í Reykjavík á laugardaginn síðasta með bareflum og bolluvöndum. Tilefni slagsmálanna voru bollur þ.e. hvor tegundin væri betri gerbollur eða vatnsdeigsbollur. Ekki tókst að útkljá ágreininginn á staðnum en það verður vonandi gert síðar. Svo má líka nefna að rúmlega 60 þúsund manns hafa skrifað undir áskorun Kára Stefánssonar um að hið opinbera skuli verja hið minnsta 11% af árlegri vergri landsframleiðslu í kaup á rjómabollum – enda muni það stuðla að hagsæld og heilbrigði þjóðarinnar.

Líkamsræktarlúin þjóð
leyfir sér að sukka feitt
Vatnsdeigssulturjómaflóð
getur dimmu í dagsljós breytt.

Hvorki Bjössi Bolla né Arthúr Björgvin Bolla gáfu kost á viðtali, eða rjómabollu, í tengslum við gerð þessarar bloggfærslu.

Einar bolla bolla.

Tilvitnun dagsins:
Allir: Bolla!