Greinasafn fyrir merki: Á baðkari til Betlehem

Des í orðember

Snjóugu lesendur.

Það er aldeilis óhætt að halda því fram fullum fetum og án þess að blikkna að veturinn hafi haldið innreið sína hér á landi. Haustið var langt og gott en nú er skollinn á vetur með tilheyrandi éljagangi, nýsnævi og umferðartöfum. Ófærðar hefur þegar orðið vart en þó þarf hún að vera býsna mikil þannig að Subaru Impreza Sedan Snowplow árg. 2003 finni eitthvað fyrir því að marki. Er ég kominn á keðjur? Nei, Nike skórnir duga vel ennþá.

Veðurfræðingar gleðjast þessa dagana, enda þrífast þeir flestir á endalausum lægðagangi. Það er ekkert varið í veðurkortin þegar veðrið er rólegt og hæðirnar umlykja landið. Nú hins vegar eru þrýstilínurnar afar þrýstnar og hver hefur ekki gaman af þrýstnum línum? Greint hefur verið frá því að snjókoman í Reykjavík sé algjört met en nokkuð er þó enn í að Svarfaðardalshreppsmetinu verði ógnað. Hvað finnst Einsa Kalda um þetta veðurfar? Ég spyr hann þegar hann þiðnar.

Það var ekki nóg með að kaupmenn auglýstu Black Friday eins og þeir ættu lífið að leysa, heldur bættist Cyber Monday við, hver andskotinn sem það nú er. Og Cyber Monday var meira að segja framlengdur til þriðjudags í einhverjum tilfellum. Hvers konar rugl er þetta eiginlega? Hvað varð um að halda bara upp á Svartan föstudag? Eða bjóða upp á Ýlisútsölu? Hvað með Spádómakertisafsláttinn? Eða Fullveldisdagstilboðið? Þarf alltaf að apa allt upp eftir einhverjum froðuhöfðum í hinni stóru Ameríku. Þvílík minnimáttarkennd. Af hverju hefur Einar Haf samt ekki bloggað í fleiri daga? Æi ég mátti ekki vera að því, var enn slappur eftir Þeinksgiving.

Veðurhorfur næsta sólarhringinn eru annars þessar: Gengur í norðan 15 metra en snýr svo við og gengur í vestur. Fær sér áttavita. Gengur síðan í norðaustan 13-20 metra á sekúndu með skafrenningi á heiðum og stöku uppskafningi í innsveitum. Frost 4-14 stig í frystihólfinu í ísskápnum, annars hiti um og undir frostmarki en ekkert frost að marki.

Jájá, átti þetta nú að vera eitthvað fyndið? Ég skal segja ykkur hvað er fyndið, listaverkið nakinn karl í kassa – það er fyndið. Það er svo fyndið að það er ekki einu sinni hægt að gera grín að því.

Nú eru allir voða spenntir að vita hvort forseti vor, Ólafur Ragnar Grímsson, hyggst bjóða sig fram til forseta á nýjan leik eða hvort hann ætli að segja þetta gott næsta vor eftir 20 ár í embætti. Ólafur tjáir sig vitaskuld ekkert um málið, enda væri það algjört glapræði svona stuttu fyrir nýársávarpið. Ég meina, um að gera að byggja upp spennu til að fá sem mest áhorf. Óstaðfestar heimildir herma að ávarpið í ár verði í fyrsta sinn með auglýsingahléi 2007-stæl.

Nýjasti skandallinn í langri röð hérlendra skandala er án efa jóladagatalsskandallinn. Ég spyr nú bara; af hverju mátti ekki sýna Á baðkari til Betlehem aftur? Það skal tekið fram í þessu samhengi að þessi bloggfærsla sem þú varst að lesa var upphaflega send út á dönsku með íslenskum texta, en var loks talsett eftir fjölmargar athugasemdir ýmissa minnihlutahópa.

Á skjáinn gónir skúffað lið
og skilur ekki neitt í neinu
sit ég einn og eins þess bið
að fá í skóinn hálfa kleinu.

Hafa þessir Danir ekki fengið nóg? Nei, nú ætla þeir líka að hirða af okkur jóladagatalið. Aðeins ÞÚ getur stöðvað þá!

Einar undir skafli.

Tilvitnun dagsins:
Sigfinnur: JÁ.